Jón Birgir Eiríksson
jbe@mbl.is
Forsetaframbjóðandinn Donald Trump iðrast þess að hafa gengið fram af fólki með harkalegum málflutningi sínum í kosningabaráttunni. Þetta sagði hann á kosningasamkomu sinni í Charlotte í Norður-Karólínu.
„Stundum, í hita leiksins þegar rökrætt er og talað um fjölbreytt málefni, velur maður ekki réttu orðin eða segir eitthvað rangt,“ sagði Trump.
„Ég hef gert það og hvort sem þið trúið því eða ekki, þá sé ég eftir því. Sérstaklega þegar það gæti hafa sært einhvern persónulega,“ sagði hann.
Hefur haft mikil áhrif á fylgið
Undanfarið hefur Trump dregist aftur úr mótframbjóðanda sínum, Hillary Clinton, í hverju einasta ríki þar sem mjótt er á munum, eftir að hafa heimsótt þau og látið hafa eftir sér umdeild ummæli.Einna versti skellurinn fyrir Trump var þegar hann deildi við foreldra bandarísks hermanns sem lét lífið í Íraksstríðinu.
Á miðvikudag var stokkað upp í kosningateymi Trump, þegar bæði var skipt um kosningastjóra og framkvæmdastjóra í teyminu.
Framkoma Trumps hefur nú breyst og á fimmtudag studdist hann við skjá (e. teleprompter) til að halda sig innan fyrirframákveðinna meginlína í málflutningi sínum.
Clinton er nú með talsvert forskot á Trump, 47% gegn 41,2%.