Jónína Sigríður Jónsdóttir var fædd 6. febrúar 1927. Hún lést 13. ágúst 2016 .

Útför Jónínu var 19. ágúst 2016.

Lindarbrekka var í hugum okkar krakkanna eins og lítið ævintýraland. Á sumrin var hlaupið og buslað í garðinum og á veturna voru gerð endalaus göng í gegnum stóra skaflinn sem myndaðist við skemmuna. Þegar inn var komið var líka séð til þess að manni leiddist ekki því nóg var til af dóti, púsluspilum og myndbandsspólum með barnatímum sem hún hafði dundað sér við að taka upp fyrir okkur. Amma vissi ekkert betra en að hafa barnabörnin hjá sér, því fleiri því betra, og nóg var til af þeim. Við vissum líka fátt betra en að fá að vera hjá henni. Hún hafði einstaklega þægilega nærveru og sá til þess að manni liði vel.

Rökræður voru sérstakt áhugamál ömmu og voru þau fá umræðuefnin sem hún hafði ekki skoðun á. Enda sat maður sjaldan í þögn nálægt henni. Afi var oftar en ekki ósammála henni og það kom fyrir að þeim var orðið heitt í hamsi en áður en maður vissi af var allt dottið í dúnalogn og gleðin hafði tekið völdin á ný, því húmorinn var aldrei langt undan. Þetta var nefnilega einstakt samband, þeirra ömmu og afa. Maður sá hversu ástfangin þau voru enn, tæpum 70 árum eftir að þau hittust fyrst, og stundum sá maður þennan neista á milli þeirra, sem maður sér helst hjá ungu fólki stígandi sín fyrstu skref í sambandi. Sönnunin fyrir því að allir eigi sálufélaga var þarna ljóslifandi og þau voru svo heppin að finna sinn.

Minningin um þessa góðu, fallegu konu sem amma var, með hlýja faðmlagið sitt, góðlegu augun og þessa áþreifanlegu væntumþykju sem hún gaf frá sér, mun lifa í hugum okkar og hjörtum alla tíð. Takk fyrir allt, elsku amma, og megi allar góðar vættir fylgja þér þangað sem för þinni er heitið.

Þú varst okkur amma svo undur góð

og eftirlétst okkur dýran sjóð,

með bænum og blessun þinni.

Í barnsins hjarta var sæði sáð,

er síðan blómgast af Drottins náð,

sá ávöxtur geymist inni.

Við allt viljum þakka amma mín,

indælu og blíðu faðmlög þín,

þú vafðir oss vina armi.

Hjá vanga þínum var frið að fá

þá féllu tárin af votri brá,

við brostum hjá þínum barmi.

Við kveðjum þig elsku amma mín,

í upphæðum blessuð sólin skín,

þar englar þér vaka yfir.

Með kærleika ert þú kvödd í dag,

því komið er undir sólarlag,

en minninga ljós þitt lifir.

Leiddu svo ömmu góði guð

í gleðinnar sælu lífsfögnuð,

við minningu munum geyma.

Sofðu svo amma sætt og rótt,

við segjum af hjarta góða nótt.

Það harma þig allir heima.

(Halldór Jónsson frá Gili.)

Loftur Óskar, Jónína

Sigríður, Auður Hanna, Laufey Ósk.

Fallin er nú frá hún Jóna frænka og hugurinn fer á fullt um allar þær stundir sem ég átti hjá henni í Lindarbrekku.

Elstu minningarnar eru frá þeim tíma er Jón Pétursson fór að heimsækja dóttur sína í Laugarás og ég smágutti fékk að flækjast með þeim gamla. Fyrst í rútu með Óla Ked og svo með Skúla sem kom að sækja okkur. Oft var brekkan erfið um páska þegar ég og Sigrún systir komum með pabba og mömmu, ég man ekki eftir neinum páskum sem krakki nema í Lindarbrekku. Sérstaklega var Indriði lunkinn með páskaeggin sem hann lúrði á og borðaði alltaf það sem var orðið þriggja ára eða eldra.

Mikið þurfti Guðmundur að kenna borgarpúkanum sem ekkert vildi borða og ég held að hann hafi haft gaman af því.

Margt var brallað í Lindarbrekku og á ég margar góðar minningar um frænku. Mamma og Jóna voru góðar vinkonur og á hverju hausti var tekið slátur, svo lærði maður að fara í hverina og sækja brauð. Síðasta skiptið sem ég kom í Lindarbrekku að heimsækja frænku varð henni mikið um og felldi tár. „Mig var að dreyma hana mömmu þína í nótt,“ sagði hún. Jæja, nú held ég að þær frænkur hafi náð aftur saman og hafa sjálfsagt margt að ræða.

Kæra frænka, takk fyrir allar stundirnar.

Hilmar Högnason.

Pöróttir drengir í litlu þorpi þurfa mikla elsku.

Á sjöunda áratug 20. aldar óx Laugarás í Biskupstungum úr því að vera sveitabær þar sem bjuggu fáeinar fjölskyldur yfir í að verða nafli alheimsins, reglulegt heimsþorp með barnaskara og brekum miklum. Þar létum við Grímur á Lindarbrekku ekki okkar eftir liggja og nutum enda fágætrar aðstoðar eldri og reyndari manna.

Við lærðum snemma hinar fögru listir pörupiltanna hvort sem það var að vefja og reykja pappavindla, skjóta af hvannabyssum eða hnupla vínberjum og garðávöxtum.

Og við áttum elsku húsmæðra þorpsins en kannski hvergi eins óskipta og á Lindarbrekku hjá Jónu, sem var okkur mikilvægt eins og öllum miklum stríðsmönnum í veraldarvolki.

Jóna gat átt það til að setja upp ögn mæðulegan svip en úr augum hennar skein ást á slöttólfum sem hún trakteraði á mjólk og kexi, klæddi til gamans upp á með virðulegum höttum af Guðmundi bónda sínum og sagði okkur sögur austan af fjörðum. Umvandanir voru enda í dæmisögum og bros hennar gátu verið áminnandi sem enda dugði. Svo langt sem nokkuð dugað gat.

Guðmundur og Jóna bjuggu í litlu gömlu húsi sem tyllir sér tæpt á brattri brekkubrún yfir hverasvæðinu. Í reynd gamall sumarbústaður og ekki ríkmannlegur en þar inni var ríkidæmi elskunnar.

Á lóðamörkum skorningur í brekkunni, vaxinn hvannaskógi sem gaf af sér vopnabirgðir endalausar. Niður við lónið voru bátar sem eldri strákarnir á Lindarbrekku áttu, flatbytnur, enda mið þessara báta öll á grunnsævi.

Leikheimur okkur var hér varðaður hættum af hverum, stórri breiðu af glerbrotum niður á Sigurðarstöðum og í seilingarfjarlægð ánni, sjálfri Hvítá. En hér voru vökul augu þeirra Guðmundar og Jónu yfir okkur og við enda áhyggjulausir hamingjuhrólfar.

Blessuð sé minning Jónu á Lindarbrekku.

Bjarni Harðarson.