Fjölbreytt „Í ár er leikárið fyrst og fremst mjög fjölbreytt, “ segir Kristín Eysteinsdóttir borgarleikhússtjóri.
Fjölbreytt „Í ár er leikárið fyrst og fremst mjög fjölbreytt, “ segir Kristín Eysteinsdóttir borgarleikhússtjóri. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Líkt og síðustu ár leggjum við mikla áherslu á frumsköpun og ný íslensk verk.

Viðtal

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Í fyrra vorum við að taka fyrir sögur okkar t.d. í Flóð og skoða fortíð okkar með nýjum gleraugum eins og í Njálu . Í ár er leikárið fyrst og fremst mjög fjölbreytt, en í stórum hluta verkanna er þó verið að skoða konur, kynhlutverk og samskipti kynjanna og má því segja að þar sé ákveðinn áherslupunktur í ár,“ segir Kristín Eysteinsdóttir borgarleikhússtjóri um komandi leikár sem hefst um miðjan september.

„Iðulega er bent á skort á bitastæðum hlutverkum fyrir leikkonur. Við vorum því mjög meðvituð um mikilvægi þess að fjalla um sterkar og áhrifamiklar konur. Ein slík er Elly Vilhjálms söngkona, en í mars á næsta ári frumsýnum við á Nýja sviðinu í samvinnu við Vesturport nýtt leikrit eftir Ólaf Egil Egilsson í leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar,“ segir Kristín og tekur fram að þótt búið sé að ráða í hlutverk Ellyjar verði ekki upplýst hver leiki og syngi hana fyrr en síðar. „Okkur fannst þetta spennandi leið. Elly er ein ástsælasta söngkona þjóðarinnar og því eru þetta stór fótspor sem þarf að fylla, en ég get lofað því að áhorfendur verða ekki sviknir.“

Karlmennskan afbyggð

Kristín bendir á að önnur sterk kona sem allir hafi skoðanir á sé Salka Valka úr skáldsögu Halldórs Laxness, en jólasýningin verður Salka Valka í leikstjórn Yönu Ross, sem skrifar leikgerðina í samstarfi við Sölku Guðmundsdóttur, leikskáld Borgarleikhússins í ár. „Þær eru mjög spennandi dúó. Yana býr yfir mikilli reynslu og hefur afgerandi skoðanir á því hvernig hún vill nálgast verkið. Líkt og í Mávinum vinnur hún verkið í náinni samvinnu við leikhópinn með það að markmiði að komast að því hvað verkið hafi að segja okkur í dag og hvernig það geti varpað ljósi á samfélagið sem við lifum í. Konsept sýningarinnar er að hún gerist bæði í nútíð og fortíð, sem er afar spennandi, en þannig gefst tækifæri til að skoða Laxness og rómantíkina í kringum hann sem og ættjarðarhugmyndirnar sem við höfum í kringum Sölku Völku.“

Fyrsta frumsýningin á Litla sviðinu verður í október þar sem Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Halldóra Geirharðsdóttir bregða sér í hlutverk Hannesar og Smára í samnefndri sýningu í leikstjórn Jón Páls Eyjólfssonar, en sýningin er samstarfsverkefni við Leikfélag Akureyrar og verður líka sýnd norðan heiða. „Í verkinu skoða Ólafía og Halldóra karlmennskuna og afbyggja hana. Þær láta gamminn geisa og gera stólpagrín að sjálfum sér og Hannesi og Smára í leiðinni.“

Hún pabbi nefnist sýning sem frumsýnd verður á Litla sviðinu í janúar og unnin er í samstarfi við leikhópinn Trigger Warning. „Þetta er ótrúlega merkileg og falleg saga sem stendur Hannesi Óla Ágústssyni mjög nærri, því í einleiknum segir hann sögu föður síns sem á miðjum aldri tjáði konu sinni og börnum að hann væri kona og hefði vitað það frá blautu barnsbeini. Verkið byggir á dagbókum hennar frá því hún var barn og segir sögu hennar frá bernsku og fram yfir kynskiptaaðgerðina. Þetta er mikilvægt verk um málefni sem við höfum ekki fjallað mikið um á leiksviðinu,“ segir Kristín. Leikritið semja Halla Þórlaug Óskarsdottir og Kara Hergils, sem er listrænn stjórnandi.

„Næsta vor fá Reykjavíkurdætur Litla sviðið til umráða og algjörlega frjálsar hendur. Uppleggið er samt að þetta verði ekki tónleikar heldur bræðsla af leiklist og músík, en stór hluti hópsins er sviðslistakonur og margar þeirra hafa unnið hér í Borgarleikhúsinu. Leikstjóri sýningarinnar er Kolfinna Nikulásdóttir, en hún var að útskrifast af sviðshöfundabraut LHÍ. Þetta verður örugglega afgerandi og óvænt sýning.

Líkt og síðustu ár leggjum við mikla áherslu á frumsköpun og ný íslensk verk. Mörg þessara verka sem ég er búin að telja upp falla þar undir. Fyrsta frumsýning okkar í haust verður á Nýja sviðinu á nýju leikriti eftir Bjarna Jónsson sem nefnist Sending í leikstjórn Mörtu Nordal. Þetta er átakamikið og vel skrifað verk, sem fjallar um hjón úti á landi sem hafa verið að glíma við barnleysi og fá til sín fósturbarn.

Við kynnum nýjan leikstjóra til sögunnar, þ.e. Dóru Jóhannsdóttur, sem leikstýra mun frábæru verki sem á frummálinu heitir The Flick eftir Annie Baker, en Dóri DNA hefur þýtt sem Ræman . Verkið hlaut Pulitzer-verðlaunin sem besta leikritið 2014. Ég sá uppfærslu á því í New York og heillaðist strax, því þetta er bæði fyndið og hjartnæmt verk. Persónur leikritsins eru þrjár manneskjur sem vinna í gömlu „költ“ bíói og fjallað er um drauma þeirra og þrár. Meginstefið snýr að því hvernig stafræna tæknin er að taka yfir líf okkar með tilheyrandi skyndilausnum,“ segir Kristín, en Ræman verður frumsýnd á Nýja sviðinu í janúar.

Djúsí og dramatískt verk

„Okkur fannst við ekki ná að gera eins mikið og við hefðum viljað fyrir börn í fyrra. Sökum þessa bjóðum við upp á þrjár nýjar barnasýningar í ár, sem allar eru stílaðar inn á ólíkan aldur. Stærsta sýningin, sem er fyrsta frumsýningin á Stóra sviðinu í september, er Blái hnötturinn eftir skáldsögu Andra Snæs Magnasonar í nýrri leikgerð Bergs Þórs Ingólfssonar þar sem tónlistin verður fyrirferðarmikil, en Kristjana Stefánsdóttir hefur samið 17 sönglög. Alls taka 22 börn þátt í sýningunni auk þriggja fullorðinna, en þeirra á meðal er Björn Stefánsson sem leikur Gleði-Glaum. Þetta verður ótrúlega falleg ævintýrasýning fyrir alla fjölskylduna með miklum boðskap.

Á Litla sviðinu verðum við með tvær barnasýningar, annars vegar Jólaflækju á aðventunni sem ætluð er yngstu áhorfendunum og Vísindasýningu Villa í febrúar sem ætluð er átta ára börnum og upp úr. Jólaflækja er einleikur eftir Berg Þór, sem einnig leikur og leikstýrir. Þetta er stutt sýning um mann sem er einn á jólunum og festir sig í jólaseríunni ,sem býður upp á skemmtilegan „slapstick“-húmor. Bergur Þór hefur mikinn og fallegan metnað gagnvart barnasýningum og nálgast börn af mjög mikilli virðingu.

Í Vísindasýningu Villa fara Vilhelm Anton Jónsson og Vala Kristín Eiríksdóttir á kostum með spennandi tilraunum sem nauðsynlegt er að framkvæma til að leysa ákveðið vandamál sem Villi stendur frammi fyrir. Þetta verður fræðandi og skemmtileg sýning í leikstjórn Vignis Rafns Valþórssonar, sem vinnur handritið í samstarfi við Villa.“

Að sögn Kristínar er sjónum ekki aðeins beint að sterkum konum og kynhlutverkum á leikárinu heldur einnig að samskiptum kynjanna. „Í apríl frumsýnum við frábært verk eftir Ingmar Bergman, þ.e. Brot úr hjónabandi í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar. Bergman vann leikgerðina upp úr sjónvarpsþáttaröð sinni en gaf frjálsar hendur með fjölda leikara. Við setjum á svið leikgerðina með hjónunum einum, sem leikin verða af Birni Thors og Unni Ösp Stefánsdóttur. Þetta er djúsí og dramatískt verk sem birtir uppgjör hjóna og tekur á öllu lífi þeirra.“

Að sögn Kristínar lýkur sýningum á Mamma Mia! í síðasta lagi í febrúar á næsta ári því í mars verður frumsýndur farsinn Úti að aka eftir Ray Conney í íslenskri þýðingu og staðfærslu Gísla Rúnars Jónssonar og leikstjórn Magnúsar Geirs Þórðarsonar. „Þar leikur Hilmir Snær Guðnason mann sem er giftur tveimur konum í sitthvoru bæjarfélaginu. Þegar börnin sem hann á með sitthvorri konunni kynnast á netinu og verða skotin þarf hann að beita öllum brögðum til að koma í veg fyrir að unglingarnir fari á stefnumót.“

Túristavæðing til skoðunar

Í upphafi nýs árs verður frumsýnt Afturábak sem er samstarfsverkefni við Dramaten í Stokkhólmi. „Sýningin er unnin með hælisleitanda í hverju landi sem segir áhorfendum sögu sína,“ segir Kristín og bendir á að aðeins komist 12 áhorfendur á hverja sýningu, sem sýnd verður í óhefðbundnu leikrými á þriðju hæð leikhússins.

„Síðast en ekki síst frumsýnum við í samstarfi við leikhópinn Soðið svið á Litla sviðinu í október leikritið Extravaganza eftir Sölku Guðmundsdóttur í leikstjórn Ragnheiðar Skúladóttur. Leikritið gerist í Reykjavík samtímans og fjallar um túristavæðinguna, en aðalpersóna verksins býr í stóru húsi þar sem búið er að leigja út allar íbúðir til ferðamanna. Þetta er farsakennt leikrit í anda Sölku,“ segir Kristín og bendir á að búið hafi verið að velja verkið til sýningar í húsinu áður en Salka var valin leikskáld Borgarleikhússins. „Salka vinnur nú að barnaleikriti sem við munum að öllum líkindum setja upp á þarnæsta leikári,“ segir Kristín og tekur fram að allt stefni í að fjölmörg fræ, sem sáð hafi verið á umliðnum árum, beri ávöxt á þarnæsta leikári. Þess má að lokum geta að kortasala hefst á vef Borgarleikhússins á þriðjudaginn kemur en þann sama dag verður bæklingi leikhússins dreift til landsmanna.