Dagur Sigurðsson freistar þess á morgun að stýra þýska karlalandsliðinu í handbolta til sinna fjórðu verðlauna á Ólympíuleikum.

Dagur Sigurðsson freistar þess á morgun að stýra þýska karlalandsliðinu í handbolta til sinna fjórðu verðlauna á Ólympíuleikum. Dagur og hans menn mættu Frakklandi í undanúrslitum í gær í frábærum handboltaleik, sem Frakkar unnu með sigurmarki Daniel Narcisse á síðustu sekúndunni, 29:28. Þýskaland leikur því um bronsverðlaunin á morgun kl. 13.30, á lokadegi leikanna í Ríó.

Þýskaland hefur áður unnið tvívegis til silfurverðlauna, árin 1984 og 2004, og til gullverðlauna í Berlín 1936 þegar leikið var utanhúss.

Þegar Morgunblaðið fór í prentun lá ekki fyrir hvort andstæðingar Þýskalands yrðu Danmörk eða Pólland, en um það má lesa á mbl.is. Dagur segir Evrópumeistarana sína alls ekki líta á það sem eitthvert óspennandi verkefni að leika um bronsverðlaunin.

„Nei, svo sannarlega ekki. Sérstaklega ekki fyrir þennan hóp. Þeir eru allir hérna í fyrsta skipti. Við erum búnir að ræða það að höggva strax á þennan hnút og byrja að einbeita okkur að næsta verkefni,“ sagði Dagur við Morgunblaðið.

Frakkar, sem unnu Svía í úrslitaleik Ólympíuleikanna 2012 og Íslendinga í úrslitaleiknum 2008, geta bætt þriðju gullverðlaunum í sarpinn á morgun. Fimm leikmenn úr sigurliðum síðustu tveggja leika eru enn í hópnum, flestir í lykilhlutverkum, eða þeir Narcisse, Thierry Omeyer, Luc Abalo, Nikola Karabatic og Michaël Guigou. Omeyer, sem verður fertugur í nóvember, var einmitt frábær í leiknum í gær og Narcisse, 36 ára, ómetanlegur í sóknarleiknum.

Dagur og hans menn geta verið stoltir af því að hafa aldrei gefist upp, jafnvel sjö mörkum undir í seinni hálfleik, og úr urðu æsispennandi lokamínútur en Narcisse reyndist hetjan. sindris@mbl.is