Friðrik Emilsson fæddist 28. júlí 1927. Hann lést 24. júlí 2016.

Útför Friðriks var gerð 11. ágúst 2016.

Nú kveðjumst við í hinsta sinn, elsku vinur, en minninguna um þig berum við ávallt með okkur.

Minningin um þig gerir okkur svo rík.

Mikið sem við duttum í lukkupottinn að eiga þig að. Ég kynntist þér fyrir um sex árum rúmum og frá því að við hittumst vissi ég að við yrðum vinir. Í hvert sinn sem við komum í bæinn fylgdi alltaf örugg heimsókn í Skipó þar sem við gátum treyst á húmor og góðgæti. Við erum þér ævinlega þakklát fyrir allar stundirnar sem við náðum að eiga saman á þessum síðustu árum.

Á sama tíma og ég er leið þá er ég glöð. Ég fékk að kíkja á þig uppi á Landakoti í júní þar sem þú varst fullfrískur ef svo má að orði komast. Við töluðum um að afmælið þitt væri á næsta leiti og að við fjölskyldan í Eyjum myndum mæta með kökur og góðgæti upp úr hádegi 28. júlí. Þú vissir hvað var að fara að gerast og sagðir. „Já, er það? Ég er nú ekki svo viss.“ Þarna, elsku kallinn minn, vissirðu að á afmælisdegi þínum yrðirðu sameinaður henni Sigrúnu þinni eins og þú sagðir alltaf við mig.

Líkami og sál þín hafa loksins fengið hvíld.

Ég segi eins og Rúnar Júl.: „Það þarf fólk eins og þig fyrir fólk eins og mig.“

Kolbrún.