Kristbjörg Edda Jóhannesdóttir
Kristbjörg Edda Jóhannesdóttir
Aðalheiður Héðinsdóttir, stofnandi Kaffitárs, hefur látið af starfi forstjóra eftir að hafa stýrt fyrirtækinu frá stofnun fyrir 26 árum. Við starfinu tekur Kristbjörg Edda Jóhannesdóttir sem verið hefur formaður stjórnar fyrirtækisins.

Aðalheiður Héðinsdóttir, stofnandi Kaffitárs, hefur látið af starfi forstjóra eftir að hafa stýrt fyrirtækinu frá stofnun fyrir 26 árum. Við starfinu tekur Kristbjörg Edda Jóhannesdóttir sem verið hefur formaður stjórnar fyrirtækisins. Aðalheiður tekur hins vegar sjálf við stjórnarformennsku.

Kaffitár rekur sjö kaffihús á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ. Auk þess rekur fyrirtækið Kruðerí Kaffitárs í Kópavogi en annað bakarí og kaffihús undir því nafni verður opnað á Stórhöfða innan skamms.

Kristbjörg Edda hefur undanfarin tvö ár gegnt starfi forstjóra hugbúnaðarfyrirtækisins Men and Mice, en áður var hún forstöðumaður markaðssviðs Símans. Þá starfaði hún hjá Össuri í ellefu ár, meðal annars sem framkvæmdastjóri markaðssviðs fyrir Evrópu og framkvæmdastjóri vörustjórnunar.

„Það er komið að því að ég láti daglegan rekstur frá mér og einbeiti mér af meiri krafti að kaffimenningunni sjálfri og þróun hennar,“ segir Aðalheiður í tilkynningu um forstjóraskiptin. „Kaffidrykkja hefur breyst gríðarlega frá því Kaffitár var kynnt til leiks. Fyrirtækið hefur þróast í samræmi það.“