Lögreglan á Patreksfirði rannsakar nú tildrög þess að bíll fór út af veginum og hafnaði úti í sjó innst í Vattarfirði á sunnanverðum Vestfjörðum sl. fimmtudag. Þrennt var í bílnum, par og tveggja ára gamalt barn þess.

Lögreglan á Patreksfirði rannsakar nú tildrög þess að bíll fór út af veginum og hafnaði úti í sjó innst í Vattarfirði á sunnanverðum Vestfjörðum sl. fimmtudag. Þrennt var í bílnum, par og tveggja ára gamalt barn þess. Fólkið komst í land af sjálfsdáðum, maðurinn slasaðist á fæti en konan og barnið ekkert. Fólkinu var þó talsvert brugðið eftir óhappið.

Þar sem bíllinn fór í sjóinn eru tveir til þrír metrar niður í sjó og má því mildi teljast að ekki fór verr. Sjúkraflutningamenn frá Patreksfirði og Búðardal fóru á vettvang þegar tilkynning um óhappið barst. Vegfarendur hjálpuðu fólkinu úr fjörunni og óku því til móts við sjúkrabíl frá síðarnefnda staðnum. Búið er að ná ökutækinu sem fór í sjóinn, bílaleigubíl, á þurrt land. Lögregla á hins vegar eftir að ræða betur við ökumanninn í því skyni að fá upplýsingar um hvað óhappi þessu olli.

„Þá sé ég að það liggur lítið barn ofan á manninum. Ég stökk út úr bílnum, bað konuna um að hringja í Neyðarlínuna og hleyp niður í fjöruna sem er stórgrýtt. Þegar ég er að ná þeim upp úr fjörunni kemur konan upp úr sjónum. Bíllinn var horfinn á kaf,“ segir Einar Magnússon skipstjóri sem með Bryndísi Sævarsdóttur konu sinni bjargaði fólkinu. Hann var í viðtali við Mbl.is í gær og lýsti þar atburðarásinni. Sagði þar enn fremur að þau hjón vildu hafa tal af fólkinu sem þau björguðu, en það er frá Bandaríkjunum og ætlaði sér að vera hér í þrjár vikur.