Gleði Bæta þarf kjörin og skapa meiri jöfnuð á vinnumarkaði, að mati þingmanns VG.
Gleði Bæta þarf kjörin og skapa meiri jöfnuð á vinnumarkaði, að mati þingmanns VG. — Morgunblaðið/Ófeigur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjármálaráðuneytið og stofnanir sem undir það heyra eiga í kjarasamningum að haga málum svo að lægstu föstu launagreiðslur verði aldrei lægri en þriðjungur af hæstu föstu greiðslunum.

Fjármálaráðuneytið og stofnanir sem undir það heyra eiga í kjarasamningum að haga málum svo að lægstu föstu launagreiðslur verði aldrei lægri en þriðjungur af hæstu föstu greiðslunum. Þetta er inntakið í þingsályktunartillögu sem Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, lagði fram á Alþingi nú í vikunni.

Smurt á kjör hátekjufólksins

Gangi í gegn breytingar í anda þess sem er að framan lýst verður til launakerfi sem er réttlátara en nú er, segir í greinargerðinni – og ennfremur:

„Í stað þess að beðið sé eftir því að gengið hafi verið frá samningum láglaunamannsins svo smyrja megi á kjör hátekjufólksins þá verður byggð inn í kerfið eins konar varnarvísitala fyrir lægstu launin, nái tillagan fram að ganga. Annar kostur og betri í kjarasamningum væri að ákveða fyrst kjör hinna hæstu og ganga að því búnu frá almennum kjarasamningum, ella kæmi til kasta sjálfvirkrar vísitölu sem kalla mætti varnarvísitölu lágtekjufólks.“

Siðferðilegur vegvísir

Í greinargerð segir ennfremur að þó að launabilið hjá hinu opinbera sé mikið, þá sé það ranglæti smávægilegt miðað við almenna markaðinn. Þar skammti sjálftökumenn sér í mánaðartekjur jafnvel margföld árslaun verkafólks.

„Með löggjöf verður þetta varla lagað en fordæmi almannaþjónustunnar gæti orðið siðferðilegur vegvísir,“ segir í þingsályktunartillögu Ögmundar Jónassonar.

sbs@mbl.is