Aage Petersen fæddist 2. mars 1934. Hann lést 9. ágúst 2016.

Útför Aage var 19. ágúst 2016.

Elsku afi, þetta voru óvæntar fréttir þegar mamma hringdi og sagði að þú værir dáinn. Við vissum að þú varst búinn að vera mikið lasinn, en alltaf fórstu í vinnuna og síðast daginn áður en þú lést. Þú ætlaðir ekkert að fara frá okkur strax, þú varst nýbyrjaður að byggja geymslu við sumarbústaðinn, þú og amma ætluðuð austur á land í lok ágúst og í nóvember varstu búinn að kaupa flugmiða í fjölskylduferð til Bretlands.

Fyrstu og sterkustu minningar okkar systkinanna um afa eru þegar við komum að norðan í heimsókn í Melásinn þar sem við hittum þennan skeggjaða sprellikall. Hann hló mikið þegar hann var að stríða og bregða okkur og það var gaman að horfa á hann borða og sjá allan matinn sem festist í skegginu.

Þegar við urðum eldri og það kom að því að taka bílpróf tók hann afi okkur í æfingaakstur og kenndi okkur að keyra á litla bláa Pólóinum. Hann var alltaf svo rólegur og afslappaður en hélt sér nú samt alltaf til öryggis í handfangið fyrir ofan hurðina sín megin og sagði okkur nú að gefa svolítið í.

Afi var alltaf svo hjálpsamur og þó svo að hann hafi hjálpað okkur mest með það sem snéri að bílunum okkar og bílaviðgerðum þá vissum við að það var alltaf hægt að leita til afa með öll vandamál. Afi var einstaklega handlaginn og þrautseigur, öll verkefni sem þurfti að leysa voru unnin eitt skref í einu hvort sem það voru bílaviðgerðir eða annað, það þarf bara að halda áfram að taka skref og þá getur þú klárað hvað sem er. Ef það gekk ekki upp þá var bara byrjað uppá nýtt. Það að gefast upp var ekki til í orðabókinni hans afa.

Eitt var það sem afa fannst óþolandi og það var óstundvísi. Ef við vorum búin að mæla okkur mót þá skyldi maður gjöra svo vel að mæta á réttum tíma og helst fyrr, þrjár mínútur yfir og hann var búinn að hringja.

Það var ekki oft hægt að sitja og spjalla við afa, hann var aldrei kyrr, alltaf að gera eitthvað og það voru ekki mörg kvöldin sem liðu án þess að hann færi út í bílskúr að stússa. Kári á margar notalegar minningar úr skúrnum með afa, þeir voru ekki bara í bílaviðgerðum heldur var spjallað um heima og geima og var afi þá oft að segja frá gömlum tímum.

Þegar Erla veiktist reyndist afi henni einstaklega vel og var tilbúinn til að hjálpa henni og styðja á allan hátt.

Elsku afi, við viljum þakka þér allar góðu stundirnar okkar saman. Takk fyrir alla hjálpina og handleiðsluna sem þú veittir okkur í gegnum árin. Takk fyrir hlýjuna, stríðnina og skeggið sem stakk okkur og kitlaði þegar við fengum knús. Nú kveðjum við þig með tárin í augunum, þín verður sárt saknað.

Þín barnabörn

Kári og Erla.

Í dag er til moldar borinn vinur okkar og félagi til tæplega 40 ára, Aage Petersen. Árið 1974 var Kiwanisklúbburinn Setberg í Garðabæ stofnaður og fáum árum síðar gekk Aage til liðs við klúbbinn. Hann gegndi flestum embættisstörfum í klúbbnum og stóð sig ávallt vel og var m.a. forseti tvö tímabil. Í öllum verkefnum klúbbsins mætti Aage fyrstur manna og lagði alltaf eitthvað gott til málanna. Þannig var auðvelt að fá hann til liðs í hinum fjölbreytilegu verkefnum.

Kiwanis hefur að markmiði að styðja við ungt fólk í samfélaginu, undir kjörorði heimshreyfingarinnar „Börnin fyrst og fremst“. Hafa Setbergsfélagar unnið samkvæmt þeim markmiðum m.a. með að afhenda öllum börnum í fyrsta bekk grunnskóla Garðabæjar reiðhjólahjálma við upphaf skólagöngu þeirra. Einnig hefur klúbburinn veitt verðlaun fyrir góðan árangur í íslensku. Aage sýndi einlægan áhuga á þessum verkefnum.

Eiginkonur Kiwanismanna stofnuðu Sinawikklúbb Garðabæjar, þar sem eiginkonur Kiwanisfélaga unnu að góðum málum í samvinnu við Setbergsfélaga. Í þessum hópi voru Elín og Aage ómissandi. Þau tóku vel á móti báðum klúbbum í sumarhúsi sínu í Grímsnesi. Ferðirnar þangað eru ógleymanlegar.

Klúbburinn á félagsaðstöðu við Faxatún í Garðabæ og naut klúbburinn lagni hans og útsjónarsemi við viðhald og endurbætur hússins. En hann vann ekki bara á heimavelli því þau hjón hafa verið virkir þátttakendur í umdæmisþingum og samstarfi kiwanismanna á Íslandi.

Kiwanisfélagar kveðja góðan vin og félaga sem ávallt var reiðubúinn til góðra verka. Hann var einn af þeim sem létu sig ekki vanta. Elínu, börnum og barnabörnum sendum við innilegar samúðarkveðjur og þökkum Aage fyrir 40 ára samveru.

Fyrir hönd Kiwanisfélaga í Setbergi,

Matthías Guðm. Pétursson.