Rútínan er yndisleg en Víkverja reynist erfitt að koma sjálfum sér og fjölskyldumeðlimum í þessa dásamlegu rútínu. Hann á enn langt í land með að vakna eldsprækur að morgni dags og hlaupa af stað út í daginn.

Rútínan er yndisleg en Víkverja reynist erfitt að koma sjálfum sér og fjölskyldumeðlimum í þessa dásamlegu rútínu. Hann á enn langt í land með að vakna eldsprækur að morgni dags og hlaupa af stað út í daginn. Helsta ástæðan er skólabókardæmi sem helstu sérfræðingar, ýmist fræðimenn eða sjálfskipaðir sérfræðingar, boða, og það er hvort tveggja ekki nægur nætursvefn og ónóg hreyfing. Víkverji kvittar undir þetta allt saman en hann á bara svo assgoti auðvelt með að fara út á kvöldin og vera fram á nótt eða liggja í sófanum í stað þess að fara út að hlaupa.

Það er hins vegar enn erfiðara fyrir yngsta fjölskyldumeðliminn. Hann vaknar úrillur á morgnana eftir allt of stuttan svefn því að drollið á kvöldin er of mikið.

Það virðist einhvern veginn erfiðara og erfiðara að gyrða fyrir ýmsar uppákomur á kvöldin sem tengjast barninu. Uppákomurnar í þessum skilningi felast í því að barnið nær að teygja lopann allt of mikið á kvöldin. Það hefur orðið einstakt lag á að snúa Víkverja í hringi og dreifa athygli hans með því að segja sífellt eitthvað sniðugt eða vilja fræðast um allt milli himins og jarðar rétt fyrir svefninn.

Áður en Víkverji veit af er hann kominn inn í miklar útskýringar og flóknar frásagnir um hvernig heimurinn varð til, hvernig börnin verða til og af hverju í ósköpunum ekki megi baða hamstra. Víkverja líður eins og afkvæmið sé sífellt að leiða hann í gildru. Ætli barnauppeldi sé ekki í eðli sínu svona, um leið og foreldrið er búið að ná tökum á einum hlut tekur næsti við.

Víkverji hlakkar alltaf jafn mikið til að taka þátt í Menningarnótt sem er um helgina. Það er gaman að fara í bæinn þegar hann er fullur af lífi og með öllum sínum uppákomum. Maður er manns gaman. Það sem Víkverji er spenntastur fyrir að sjá að þessu sinni á Menningarnótt er tónleikarnir eins og ávallt en einnig verður kíkt inn í gallerí og listasöfn.