Lilja Alfreðsdóttir
Lilja Alfreðsdóttir
Eftir Lilju D. Alfreðsdóttur: "Samskipti Íslands og Færeyja eru ekki aðeins menningar-, sögu- og tilfinningaleg heldur einnig viðskiptaleg."

Færeyingar hafa lengi verið hliðhollir Íslendingum. Þessi bræðra- og nágrannaþjóð var fljót að hlaupa undir bagga með okkur haustið 2008 og nú síðast var velviljinn greinilegur þegar Færeyingar þustu út á götur í sumar til að styðja íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu. Það er því með nokkurri eftirvæntingu sem ég held á morgun til fundar við Poul Michelsen, utanríkisráðherra Færeyja.

Samskipti Íslands og Færeyja eru ekki aðeins menningar-, sögu- og tilfinningaleg heldur einnig viðskiptaleg. Þjóðirnar hafa horft hvor til annarrar í atvinnumálum og viðskipti okkar á milli hafa smám saman vaxið. Þau eru römmuð inn af fríverslunarsamningi, sem undirritaður var í Hoyvík í Færeyjum haustið 2005. Hoyvíkur-samningurinn tekur til vöru- og þjónustuviðskipta, frjálsrar farar fólks og búseturéttar, fjármagnsflutninga, fjárfestinga og fleiri þátta.

Reynslan af Hoyvíkur-samningnum hefur almennt verið góð. Í einhverjum tilvikum hafa þó ákvæði í honum rekist á við EES-samninginn, sem setur viðskiptum milli Íslands og Færeyja ákveðnar skorður. Í þeim tilvikum hafa ráðamenn sest yfir málin og oftar en ekki fundið viðunandi lausnir. Enn bíða þó nokkur mál úrlausnar, sem við höfum einlægan áhuga á að leysa farsællega.

Í ferðinni til Færeyja gefst kærkomið tækifæri til að styrkja samstarf okkar við aðra vina- og nágrannaþjóð því Vittus Qujaukistoq, utanríkisráðherra Grænlands, er þar staddur. Ráðherratríóið mun hittast til að fara yfir sameiginleg hagsmunamál landanna þriggja, sem hafa á undanförnum árum aukið samstarf sín á milli m.a. undir hatti Vestnorræna ráðsins.

Alþingi Íslendinga samþykkti nýverið þingsályktun þar sem skorað er á ríkisstjórnina að skipa, ásamt landsstjórnum Færeyja og Grænlands, vinnuhóp sérfræðinga landanna þriggja til að greina sameiginlegan ávinning af vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði. Sambærileg þingsályktun hefur verið samþykkt bæði í Færeyjum og á Grænlandi. Þessi tillaga verður rædd á fundi okkar á morgun. Það er von mín, að við náum að ýta málinu úr vör og það megi verða upphafið að nýjum kafla í viðskiptasögu þjóðanna.

Höfundur er utanríkisráðherra.