Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Tugir tyrkneskra háskólakennara voru handteknir í gær, grunaðir um að hafa stutt misheppnaða valdaránstilraun í júlí.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Tugir tyrkneskra háskólakennara voru handteknir í gær, grunaðir um að hafa stutt misheppnaða valdaránstilraun í júlí. Tyrknesk yfirvöld hófu í vikunni umfangsmiklar aðgerðir gegn fyrirtækjum sem talin eru hafa styrkt prédikarann Fetullah Gulen sem lögregluyfirvöld hafa staðhæft að hafi staðið að baki valdaránstilrauninni. Gefnar voru út handtökuskipanir á hendur 187 manns í Istanbúl og húsleitir gerðar í stórum tyrkneskum fyrirtækjum.

Í aðgerðunum í gær voru gefnar út handtökuskipanir á hendur 84 kennurum á heimsvísu, en yfirvöld í Istanbúl hafa auk þess leitað uppi 62 kennara úr aðalháskóla borgarinnar.

Að sögn fréttaveitu AFP hafa 74 kennarar verið handsamaðir í báðum aðgerðum til þessa. Stór hluti þeirra grunuðu starfaði við Selcuk-háskólann í Konya, sem tengist íhaldssömum armi AKP-flokksins, flokks Erdogans forseta. Þeirra á meðal er fyrrum rektor háskólans, Hakki Gokbel.

Forsætisráðherra Tyrklands, Binali Yldirim, sagði í vikunni að 40 þúsund ríkisstarfsmenn hefðu verið handteknir í aðgerðum yfirvalda í kjölfar valdaránstilraunarinnar. 20 þúsund þeirra eru enn í gæsluvarðhaldi.

Ástæðan fyrir umfangi aðgerðanna í Tyrklandi er að Gulen, sem er fyrrum bandamaður Erdogans forseta, hefur öflug tengsl og áhrif í stofnunum á borð við dómstóla Tyrklands og lögregluyfirvöld. Hefur hann verið sagður reka „skugga-ríki“ í Tyrklandi.

Hreinsanir
» Handtökuskipanir voru gefnar út á hendur 84 tyrkneskum háskólakennurum.
» Kennararnir eru taldir hafa stutt misheppnaða valdaránstilraun í júlí.
» Í vikunni voru handtökuskipanir gefnar út á hendur 187 manns úr viðskiptalífinu.