Þórir Garðarsson
Þórir Garðarsson
Eftir Þóri Garðarsson: "Það er til mikils að vinna að bæta innviði og vernda vinsæla áfangastaði."

Það er engin leið að komast hjá því að út af bregði þegar erlendum ferðamönnum fjölgar hér á landi um rúmlega 300 þúsund á einu ári. Álagið eykst á alla innviði, gisting hefur varla undan, það vantar starfsfólk og það vantar leiðsögn. Útlendingarnir tjalda þar sem ekki má tjalda, þeir fara út af merktum leiðum, þeir aka margir hverjir allt of hratt, þeir yfirfylla bílastæði, það vantar salerni o.s.frv.

Þetta eru þeir óhjákvæmilegu vaxtarverkir sem fylgja mikilli fjölgun erlendra ferðamanna.

Hvað er þá til ráða? Svarið liggur í augum uppi – viðurkennum vandann og náum tökum á aðstæðunum. Gerum það sem gera þarf til að allt gangi vel. Notum eitthvað af tekjunum sem fylgja ferðamönnunum. Það geta ferðaþjónustufyrirtækin sjálf gert hvert í sínu lagi og fyrir atbeina sinna samtaka, það geta sveitarstjórnir gert og að sjálfsögðu ríkisvaldið. Saman vinna þessir aðilar svo að því að leysa málin í gegnum Stjórnstöð ferðamála.

Það er til mikils að vinna að bæta innviði og vernda vinsæla áfangastaði, því að ferðamenn skila þjóðarbúinu gríðarlega miklum og mikilvægum tekjum.

Sumir telja fjölgun ferðamanna svo óþolandi að það eigi að rukka þá sérstaklega fyrir að koma hingað eða hreinlega fæla þá í burtu með háum sköttum. Sú afstaða lýsir töluverðri skammsýni. Ferðamenn skila nú þegar svo miklum tekjum að það þarf aðeins brot af þeim fjárhæðum til að kippa málunum í liðinn. Og þó að við mundum losa okkur við ferðamennina, þá þarf samt að byggja upp innviði og stuðla að verndun ferðamannastaða. En þá hefðum við ekki lengur fjármagnið til þess.

Höfundur er varaformaður Samtaka ferðaþjónustunnar og stjórnarformaður Gray Line.