20. ágúst 1933 Fjórir menn komu að Mýri í Bárðardal eftir sex daga ferð á Ford-bíl úr Landsveit í Rangárvallasýslu. „Er þetta í fyrsta skipti að bíll fer Sprengisandsveg landsfjórðunganna á milli,“ sagði í Morgunblaðinu. 20.

20. ágúst 1933

Fjórir menn komu að Mýri í Bárðardal eftir sex daga ferð á Ford-bíl úr Landsveit í Rangárvallasýslu. „Er þetta í fyrsta skipti að bíll fer Sprengisandsveg landsfjórðunganna á milli,“ sagði í Morgunblaðinu.

20. ágúst 1942

Sjö manna áhöfn vélbátsins Skaftfellings bjargaði 52 Þjóðverjum af kafbátnum U 464 sem Catalina-herflugvél með bækistöð í Skerjafirði hafði sökkt 175 sjómílum suður af Hornafirði.

20. ágúst 1975

Ólafía Aðalsteinsdóttir kleif Mont Blanc, hæsta fjall Evrópu, fyrst íslenskra kvenna.

20. ágúst 1982

Um þrjú hundruð marsvín komu að landi við Rif á Snæfellsnesi og voru langflest þeirra rekin á haf út. Hafði ekki áður tekist að bjarga svo mörgum marsvínum.

20. ágúst 1995

Hópur erlendra ferðamanna lenti í hrakningum á norðanverðum Vatnajökli. Þeim var bjargað og átta voru fluttir með þyrlu á sjúkrahús vegna ofkælingar. „Við sáum ekkert, fukum til og frá, lögðumst niður og reyndum að skríða,“ sagði ísraelsk kona í samtali við Morgunblaðið.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson