Þorsteinn Sigurðsson
Þorsteinn Sigurðsson
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Ráðgert er að leiðangur Hafrannsóknastofnunar til að mæla magn og útbreiðslu loðnu hefjist viku af september.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Ráðgert er að leiðangur Hafrannsóknastofnunar til að mæla magn og útbreiðslu loðnu hefjist viku af september. Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri uppsjávarlífríkis, segir að um sé að ræða tæplega fjögurra vikna leiðangur fyrir norðan og vestan land og inn í grænlenska lögsögu. „Ætlunin er að reyna að ná utan um dreifingu loðnunnar á alla kanta,“ segir Þorsteinn, en síðustu ár hefur loðnan í auknum mæli haldið sig í grænlenskri lögsögu fram að hrygningargöngu.

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson verður notað í leiðangurinn. Ekki er útilokað að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, hafi aðkomu að verkefninu og tvö skip taki þátt í leiðangrinum til að ná sem bestri mynd af dreifingu loðnunnar. Fyrri mælingar á þeim árgangi sem bera á uppi veiðarnar næsta vetur benda til að hann sé mjög lélegur. Því hefur enginn upphafskvóti verið gefinn út.

Árni Friðriksson er þessa daga í leigu hjá Norðmönnum og er við mælingar á karfa í norskri lögsögu í Barentshafi og síldarsmugunni svokölluðu. Karfastofninn þar hefur verið að rétta úr kútnum eftir tveggja áratuga niðursveiflu. Norðmenn og Rússar hafa einkum veitt úr stofninum, en einnig Færeyingar og Evrópusambandið.

Hvað étur hrefnan við Jan Mayen?

Fram kom fyrr í vikunni að mikið hefði fundist af hrefnu við Jan Mayen í hvalatalningu Norðmanna í byrjun mánaðarsins. Hugsanlega er þar komin hrefna sem áður hélt sig á grunnslóð við Ísland.

Spurður hvort æti hrefnunnar við Jan Mayen geti verið loðna frá Íslandi segir Þorsteinn engar upplýsingar liggja fyrir um fæðu hrefnunnar, þar sem eingöngu hafi verið um talningu hvala að ræða. Í haustleiðöngrum til að mæla loðnustofninn hafi loðna ekki verið við Jan Mayen, en hvalatalning Norðmanna hafi verið gerð í byrjun ágúst.

Þorsteinn ítrekar að í leiðangrinum í september verði lögð áhersla á að ná utan um útbreiðslusvæði loðnunnar.