Góð blanda Pan, Magdalena og Ania hafa sett á laggirnar tónlistarhátíðina New Neighbourhoods Festival á KEX.
Góð blanda Pan, Magdalena og Ania hafa sett á laggirnar tónlistarhátíðina New Neighbourhoods Festival á KEX. — Morgunblaðið/Þórður
Laufey Rún Ketilsdóttir laufey@mbl.is „Þetta er ekki bara raftónlist heldur líka rokk og skemmtileg blanda.

Laufey Rún Ketilsdóttir

laufey@mbl.is

„Þetta er ekki bara raftónlist heldur líka rokk og skemmtileg blanda. Engin ein stefna ræður og það er líka áhugavert,“ segir Pan Thorarensen tónlistarmaður, en hann stendur að tónlistarhátíðinni New Neighborhoods Festival sem haldin verður í Reykjavík á Menningarnótt á KEX Hostel og hefst kl. 14.30.

Chimes-umboðsskrifstofan hefur haft veg og vanda að skipulagningu hátíðarinnar, sem verður einnig haldin með sama móti síðar í Varsjá í Póllandi. Hátíðin er hugsuð til að styrkja samböndin á milli Póllands og Íslands í tónlist og vídeólist, en listamennirnir eru jafnt frá báðum löndum.

Fram koma tónlistamennirnir Úlfur Úlfur, Beatmakin Troopa og Tonik Ensemble frá Íslandi og The Stubs, Baasch og Hatti Vatti frá Póllandi. Þá sýna sjónlistamennirnir Stanislaw Zaleski frá Póllandi og Guðmann Þór Bjargmundsson, öðru nafni Mummi, einnig listir sínar myndrænt undir tónaflóðinu.

Frekari upplýsingar má finna á vefsvæði hátíðarinnar: newneighborhoodsfestival.com

Brú á milli Íslands og Póllands

„Við vildum gera brú á milli og kynna íslenska tónlist í Póllandi og pólska tónlist á Íslandi,“ segir Pan, en Magdalena Jensen og Ania Kasperek frá Chimes-umboðsskrifstofunni höfðu samband við hann um að koma að gerð hátíðarinnar. „Þær eru pólskar og hafa verið lengi í þessum bransa en þær hafa einnig verið að hjálpa íslenskum böndum að fara til Póllands og spila,“ bætir hann við. Þær séu því engir nýgræðingar í íslensku tónlistarlífi.

Pan hefur einnig komið áður að því að tengja íslenska tónlist við önnur lönd, en hann hefur staðið að hátíðinni Berlín X Reykjavík sem fram fór síðast í janúar á þessu ári bæði í Reykjavík og Berlín.

„Ég hef heilmikinn áhuga á menningu og við höfum mikið verið að ræða að það þurfi að virkja betur tengslin þarna á milli,“ segir hann og á þar við að íslensk tónlist nái frekari útbreiðslu um heiminn. Þá sé einnig spennandi að fara til Póllands og kynna íslenska tónlist, en þar sé auðvelt að ferðast um og breiða út lögin.

„Gullmolinn í þessu öllu er tengslin og samböndin sem myndast,“ segir Pan einnig. Ekki sé hægt að segja að listamennirnir verði ríkir af þessu en þeir græði samböndin, sem nýtist alltaf seinna meir. Umgjörðin sem listamennirnir vinni innan á hátíðinni auðveldi einnig allt ferlið við að koma sér á framfæri.

Eitthvað nýtt og spennandi

Tónlistarmennirnir sem koma fram á hátíðinni eru af ýmsu tagi og spila ýmist rokk, rapp eða raftónlist. „Þetta er mjög góð blanda – bönd sem eru svolítið spennandi í dag,“ segir Pan en pólsku böndin séu stór úti þó að þau séu okkur Íslendingum síður kunn.

Spurður hvort íslenska hljómsveitin Úlfur Úlfur skeri sig ekki svolítið úr hópnum þar sem hún sé þekkt fyrir íslenskt rapp segir hann það hafa verið ætlunina. „Mér fannst fyndið að bjóða upp á íslenskt rapp í Póllandi og ég held að það verði mjög spennandi að fylgjast með því,“ segir hann léttur í bragði, en hinir tónlistarmennirnir séu að mestu í raf- og danstónlist og rokki.

„Það eru allir ánægðir að gera eitthvað nýtt og spennandi og það var því aldrei vandamál að fá fólk í svona verkefni,“ segir hann.

Hátíðirnar í Reykjavík og Póllandi eru mismunandi að því leytinu til að í Varsjá verður viðburðurinn stærri í sniðum, en því fylgja alls kyns útvarpstilkynningar, viðtöl og annað spennandi, að sögn Pans.

Sjónlistin í bland við tónlistina

„Svo fannst okkur flott að vera með eitthvað fyrir augun líka,“ segir Pan, en það er lifandi vídeólist sem fer fram á meðan hljómsveitirnar spila á hátíðunum. „Finnst það líka vera framtíðin – fólki finnst gaman að horfa á einhvern á sviðinu og hafa eitthvað sjónrænt fyrir aftan,“ segir hann, en stóru hljómsveitirnar út í heimi séu farnar að gera þetta í mun meiri mæli. „Þú notar tæknina og færð meiri vídd í upplifunina.“

Þegar stendur til að gera sambærilegar tónlistar- og sjónlistahátíðir með fleiri nágrannalöndum. „Þetta er rétt að fara af stað og verður bara stærra.“

Í hljómsveit með föður sínum

Pan kemur sjálfur fram á hátíðinni undir nafninu Beatmakin Troopa, sem er einstaklingsverkefni hans. Tónlistinni er lýst sem einstakri blöndu af hægri, afslappandi raftónlist og kröftugum djassi. „Ég hef verið með þetta í um tólf ár eða meira en svo er ég líka í Stereo Hypnosis með pabba (innsk. Óskari Thorarensen) og Þorkeli (innsk. Atlasyni), en það er svona „ambient organic“-tríó,“ segir Pan. Bandið hefur ferðast mikið um heiminn að undanförnu og gefið út fimm plötur á síðustu sex árum.

„Við ákváðum bara að prófa að vinna saman og svo var allt í einu komin plata og allt orðið rosa alvarlegt í þessu,“ segir Pan um það hvernig það kom til að hann sé með föður sínum í hljómsveit, en hann bætir við að samstarfið gangi afar vel. Þorkell Atlason hafi svo komið í bandið árið 2013. „Það var frábært að fá hann inn – hann er tónskáld og hefur komið með mjög góð innlegg og tekið þetta á annað stig.“

Pan hefur komið fram á Tallinn Music Week, Extreme Chill Berlin og á fleiri stöðum.

„Ég hef verið í tónlistinni frá því ég man eftir mér en byrjaði almennilega svona um 2004 og hef verið í ótal böndum í gegnum tíðina og verið með „showcase“ kvöld með Extreme Chill,“ segir Pan, en hann hafi einfaldlega verið með tónlistina í blóðinu og aldrei sest á tónlistarskólabekkinn.