Davíð Oddsson forsætisráðherra talar í Ráðherrabústaðnum að kvöldi 26. ágúst 1991. Aðrir frá vinstri: Algirdas Saudargas frá Litháen, Lennart Meri frá Eistlandi og Friðrik Sophusson fjármálaráðherra.
Davíð Oddsson forsætisráðherra talar í Ráðherrabústaðnum að kvöldi 26. ágúst 1991. Aðrir frá vinstri: Algirdas Saudargas frá Litháen, Lennart Meri frá Eistlandi og Friðrik Sophusson fjármálaráðherra.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Hannes Hólmstein Gissurarson: "„Eystrasaltsþjóðirnar urðu þó ekki frjálsar af þeirri ástæðu einni að þær hefðu viljað það því að þær þráðu frelsið allan hernámstímann. Aðstæður breyttust þeim hins vegar í hag.“"

Nú er merkisdagur í sögu smáþjóða því að þennan dag fyrir réttum aldarfjórðungi, 26. ágúst 1991, varð Ísland fyrst ríkja til að endurnýja fyrri viðurkenningu sína á sjálfstæði Eystrasaltslandanna þriggja, Eistlands, Lettlands og Litháens, en þessi ríki urðu öll fjögur fullvalda 1918. Af því tilefni endurútgefur Almenna bókafélagið tvær bækur, sem komu út á sínum tíma um örlög Eystrasaltsþjóðanna og sýna, að áhugi Íslendinga á sér djúpar rætur: Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras frá 1955 og Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir Andres Küng frá 1973. Verða bækurnar kynntar á samkomu, sem Almenna bókafélagið og ræðismenn Eystrasaltsríkjanna í Reykjavík efna til á Litlatorgi í Háskóla Íslands í dag klukkan fimm til sjö. Að loknum ávörpum þeirra Davíðs Oddssonar og Tunne Kelams verða bornar fram veitingar. Eru allir velkomnir.

Ants Oras

Bókin Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum kom fyrst út á ensku 1948, Baltic Eclipse, og þýddi séra Sigurður Einarsson í Holti hana. Var hún fyrsta útgáfurit Almenna bókafélagsins, sem frjálslyndir lýðræðissinnar höfðu stofnað 17. júní 1955 til mótvægis við hin miklu áhrif kommúnista í íslensku menningarlífi: Nutu kommúnistar hárra styrkja úr sjóðum Kremlverja, ráku öflug bókafyrirtæki og gáfu út ýmis blöð og tímarit, og gátu kommúnistar í röðum menntamanna jafnan gengið þar að lofinu vísu, en ýmist var þar gert lítið úr rithöfundum andstæðum hinu austræna alræði eða þeir beinlínis níddir niður. Oras var Eistlendingur, sem hafði verið prófessor í enskum bókmenntum í háskólunum í Helsinki og Tartu, en flúið undan þýskum nasistum til Svíþjóðar 1943. Komst hann þaðan til Bandaríkjanna og var lengi prófessor í enskum bókmenntum í Flórída-háskóla í Gainesville.

Í bók sinni segir Oras frá hinum dapurlegu endalokum eistneska lýðveldisins. Í ágúst 1939 skiptu Hitler og Stalín með sér Mið- og Austur-Evrópu í svokölluðum griðasáttmála. Eystrasaltslönd komu í hlut Stalíns. Þegar hann taldi sér óhætt í júní 1940, skipaði hann þar leppstjórnir, setti á svið kosningar og lét ríkin þrjú ganga inn í Ráðstjórnarríkin. Einsflokksríki var stofnað, leynilögregla hóf starfsemi, ritskoðun hófst, fyrirtæki voru þjóðnýtt. Eftir strangleynilegan undirbúning voru tugþúsundir frammámanna í löndunum þremur handteknar ásamt fjölskyldum sínum aðfaranótt 14. júní 1941 og reknar inn í gripavagna á járnbrautarstöðvum, sem síðan var lokað. Þar beið fólkið án þess að fá vott eða þurrt í nokkra daga, en var síðan flutt til Síberíu, og dóu margir á leiðinni. Skömmu síðar hernámu Þjóðverjar löndin og voru engu betri, en Rauði herinn rússneski lagði þau aftur undir sig 1944, og kúgun kommúnista hófst á ný.

Oras segir þessa raunasögu af mælsku og ástríðuþunga. Kristmann Guðmundsson skrifaði í Morgunblaðið að þetta væri „hljóðlát og hógvær bók, rituð af fáguðum menningarmanni, – en þrátt fyrir það verkar hún á lesandann eins og örvæntingarhróp og blóði drifin aðvörun“. Eftir að Ragnar Jónsson í Smára hafði lesið bókina sagði hann um Eystrasaltsþjóðirnar að frá þeim hefði „miskunnarlaust verið hrifsað flest það, sem skapar fagurt mannlíf“. En íslenskir kommúnistar skrifuðu skýrslur til miðstjórnar kommúnistaflokksins í Moskvu og báðu um aukið fé til að vinna gegn „níðritum“ eins og bók Oras.

Andres Küng

Bókin Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds kom fyrst út á sænsku 1971, Eistland: En studie i imperialism, og þýddi Davíð Oddsson hana. Küng fæddist í Svíþjóð, sonur eistnesks flóttafólks. Hann lauk hagfræðiprófi en gerðist útvarps- og sjónvarpsmaður. Hann ólst upp við eistnesku á heimilinu, fór tvisvar til Eistlands sumarið 1970 og samdi bókina eftir það. Küng kom oft til Íslands, var vinur Matthíasar Johannessens, skálds og ritstjóra, og skrifaði iðulega um alþjóðamál í Morgunblaðið. Endurskoðaði hann bókina sérstaklega fyrir íslensku þýðinguna. Meginstefið í henni var að Eistlendingar væru sérstök þjóð sem ætti sér tilverurétt en að henni steðjaði hætta af tilraunum stjórnvalda í Moskvu til „rússneskjunar“ eins og þýðandinn kallaði það. Vegna stórfelldra flutninga Rússa til landsins, sem stjórnvöld ýttu undir, væru Eistlendingar að lenda í minni hluta sums staðar í eigin landi.

Sjálfur var Küng þó bjartsýnn. Hann rakti hversu sterk og lífseig sjálfstæðisþrá Eistlendinga væri, þótt þeir hefðu ekki verið fullvalda þjóð nema í tuttugu og tvö ár. Þeir veittu hernámsyfirvöldunum þögla en sívirka mótspyrnu og þótt þeir hefðu orðið að beygja sig fyrir ofureflinu hefðu þeir aldrei gefist upp fyrir því. Landið hefði verið hertekið, ekki þjóðin. Küng benti á að Bandaríkin hefðu aldrei viðurkennt hernám Eistlands sem hefði einnig verið brot á alþjóðasamningum og alþjóðalögum. Þótt mörg önnur ríki hefðu viðurkennt innlimun Eistlands í Ráðstjórnarríkin í verki, de facto, hefðu þau fæst gert það að lögum, de jure.

Bjartsýni Küngs smitaði út frá sér. Eistnesk útgáfa bókarinnar gekk um í ljósritum í Eistlandi. Í formála að æviminningum Küngs segir Mart Laar, fyrsti forsætisráðherra hins frjálsa Eistlands, að sagnfræðingurinn Tunne Kelam hefði lánað sér unglingi eitt slíkt ljósrit. „Ég veit, að ég var ekki einn um að verða fyrir áhrifum af bókinni. Hið sama var að segja um marga aðra Eistlendinga heima fyrir og í útlegð. Davíð Oddsson, sem þá var stúdentaleiðtogi á Íslandi og síðan forsætisráðherra í mörg ár, þýddi bók Küngs á íslensku og hefur síðan verið staðfastur vinur Eistlands.“ Sjálfur lifði Küng það ólíkt Oras, að Eistland yrði aftur frjálst.

Davíð og Kelam

Eystrasaltsþjóðirnar urðu þó ekki frjálsar af þeirri ástæðu einni að þær hefðu viljað það því að þær þráðu frelsið allan hernámstímann. Aðstæður breyttust þeim hins vegar í hag á níunda áratug, þegar Ráðstjórnarríkjunum reyndist um megn að halda í við Vesturlönd undir traustri forystu Ronalds Reagans og Margrétar Thatcher. Smám saman veiktist vilji og máttur Kremlverja og það skynjuðu hinar mörgu smáþjóðir undir oki þeirra. Þegar Litháen lýsti yfir sjálfstæði um miðjan mars 1990, reyndu Kremlverjar þó að hindra að hinni nýju stjórn yrði vært. Íslendingar fylgdust gaumgæfilega með og Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram þingsályktunartillögu í lok mars um að Ísland viðurkenndi sjálfstæði landsins. Hann fór einnig til Litáens og Eistlands haustið 1990. Þótt Jón Baldvin Hannibalsson, sem þá var utanríkisráðherra, væri eindreginn stuðningsmaður Eystrasaltsríkjanna taldi hann ekki nauðsynlegt að samþykkja tillögu Þorsteins því að fyrri viðurkenning Íslands hefði aldrei verið afturkölluð. Í stuðningi sínum við Eystrasaltslöndin hafði Jón Baldvin eflaust orðið fyrir áhrifum frá bróður sínum, Arnóri, sem eignast hafði marga vini frá Eystrasaltslöndum á námsárum sínum í Moskvu og var ötull að tala máli þeirra.

Næstu misseri gekk hvorki né rak því að Kremlverjar, sem enn réðu voldugu ríki, gátu ekki sætt sig við sjálfstæði Eystrasaltslanda. Margir kunnu þó að meta það að Jón Baldvin heimsótti löndin þrjú í janúar 1991 og ítrekaði stuðning Íslands við sjálfstæði þeirra. En tækifærið kom skyndilega í ágúst, þegar harðlínukommúnistar gerðu misheppnaða valdaránstilraun í Rússlandi og Borís Jeltsín, sem var tiltölulega frjálslyndur, náði undirtökum. Nú var Davíð Oddsson, sem þýtt hafði bókina um Eistland átján árum áður, orðinn forsætisráðherra og voru þeir Jón Baldvin samstiga um að endurnýja eftirminnilega fyrri viðurkenningu Íslands á sjálfstæði Eystrasaltslanda og nú á þann veg að tekið væri upp stjórnmálasamband við þau. Hröðuðu utanríkisráðherrar landanna þriggja sér til Íslands og var yfirlýsing um málið undirrituð í Höfða 26. ágúst 1991.

Um kvöldið hélt Davíð ráðherrunum veislu í Ráðherrabústaðnum og vitnaði þar í fræg orð Shakespeares:

Í mannlífinu gætir flóðs og fjöru:

sé flóðsins neytt, er opin leið til gæfu.

Víkverji Morgunblaðsins, sem eflaust var Styrmir Gunnarsson, skrifaði: „Davíð Oddsson forsætisráðherra flutti frábæra ræðu í kvöldverði, sem hann efndi til fyrir utanríkisráðherra Eystrasaltsríkjanna og fylgdarlið þeirra sl. sunnudagskvöld. Yfirleitt eru slíkar borðræður efnislitlar og raunar innantómar, en sú lýsing á síst af öllu við þessa ræðu forsætisráðherra, enda vakti hún mikla athygli gesta, og hafði utanríkisráðherra Litháens sérstaklega orð á því, hve áhrifamikil ræða Davíðs hefði verið.“ Á samkomunni nú í dag mun Davíð segja nokkur orð um aðdraganda málsins og eftirleik og væntanlega líka frá sögulegum samtölum sínum um það við ráðamenn austan hafs og vestan.

Tunne Kelam, sem flytur einnig ávarp á samkomunni, fæddist 1936. Eftir að hann lauk sagnfræðiprófi gerðist hann skjalavörður. En þegar stjórnvöld uppgötvuðu að hann samdi á laun andófsrit var hann rekinn úr starfi og sendur í erfiðisvinnu. Hann varð einn af forystumönnum sjálfstæðishreyfingar Eistlendinga í lok níunda áratugar og forseti eistneskrar fulltrúasamkomu sem kosið var til fram hjá opinberum stjórnvöldum 1990. Samkomulag náðist þó milli þessarar samkomu og Æðsta ráðs Eistlands, sem Moskvustjórnin hafði skipað, um friðsamlega leið til sjálfstæðis. Kelam var kjörinn á stjórnlagaþing 1991 og sat síðan á ríkisþinginu frá 1992 til 2004. Þá var hann kjörinn á Evrópuþingið og hefur setið þar síðan. Kona hans, Mari-Ann, var upplýsingafulltrúi eistneska utanríkisráðuneytisins og hefur setið á ríkisþinginu.

Blikur á lofti

Nú hafa Eystrasaltsþjóðirnar notið frelsis í 25 ár. Hafa þær svo sannarlega reynst vandanum vaxnar. Sérstaka athygli vekur hversu vel þeim tókst að leysa úr erfiðleikunum vegna hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu 2007-2009, en hún kom enn harðar niður á þeim en Íslendingum. En blikur eru á lofti. Hinn voldugi granni í austri skekur vopnin og hefur til dæmis ekki enn staðfest samkomulag um landamæri Eistlands og Rússlands. Undir forystu Davíðs Oddssonar beitti Ísland sér fyrir aðild Eystrasaltsríkjanna að Atlantshafsbandalaginu sem varð að veruleika 2004. En góðum óskum Íslands fylgir ekki mikið afl. Úrslitum ræður hvort þjóðirnar beggja vegna Norður-Atlantshafs bera gæfu til að standa saman og með Eystrasaltsþjóðunum.

Höfundur er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands.