Gunnlaugur Þröstur Höskuldsson fæddist í Reykjavík 17. október 1943. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Hornafirði, 16. ágúst 2016.

Foreldrar Þrastar voru Höskuldur Þórhallsson tónlistarmaður, f. 11. ágúst 1921, d. 19. febrúar 1979, og Ásdís Jónatansdóttir húsmóðir, f. 15. nóvember 1924, d. 3. júní 1984. Þau skildu. Seinni maður Ásdísar var Haukur Benedikt Runólfsson, skipstjóri og útgerðarmaður, f. 1. mars 1929, d. 26. apríl 2008. Systkini Þrastar eru: Jón Haukur Hauksson, f. 1956, Hulda Laxdal Hauksdóttir, f. 1959, Runólfur Jónatan Hauksson, f. 1960, Hrefna Jóhanna Hauksdóttir, f. 1963, d. 1996. Þröstur kvæntist 24. desember 1965 eftirlifandi eiginkonu sinni, Lindu Helenu Tryggvadóttur, f. 3. febrúar 1947. Hún er dóttir hjónanna Tryggva Sigjónssonar útgerðarmanns, f. 10. apríl. 1918, d. 26. janúar 2000, og Herdísar Rögnu Clausen húsmóður, f. 11. júlí 1924, d. 6. mars 2007. Börn Þrastar og Lindu eru: 1) Rannveig Ásdís Gunnlaugsdóttir, f. 14. nóvember 1964. Börn hennar eru: Þröstur Þór Ágústsson, f. 1988, Andri Már Ágústsson, f. 1991, Jónatan Magni Ágústsson, f. 1995. 2) Haukur Tryggvi Gunnlaugsson, f. 24. apríl 1967. Börn hans eru: a) Hulda Laxdal Hauksdóttir, f. 1988. Börn hennar eru: Daníel Örn Jónsson, f. 2006, Heiðrún Líf Jónsdóttir, f. 2008, Sandra Rós Ólafsdóttir, f. 2013. b) Ester Lind Hauksdóttir, f. 1991. c) Drífa Hrönn Hauksdóttir, f. 1994. d) Birkir Þór Hauksson, f. 1996. e) Markús Logi Hauksson, f. 2006. f) Bella Dís Hauksdóttir, f. 2014. 3) Drífa Hrönn Gunnlaugsdóttir, f. 14. mars 1971. Börn hennar eru: Linda Elín Kjartansdóttir, f. 1998, og Sölvi Reyr Magnússon, f. 2004.

Þröstur nam húsasmíði við Iðnskólann í Reykjavík, varð húsasmíðameistari 1971 og vann við það framan af. Einnig var hann smíða- og teiknikennari við Grunnskóla Hornafjarðar og stofnaði þá og stjórnaði þar blönduðum kór. Tónlistarferill Þrastar er bæði langur og fjölbreyttur; hann byrjaði 16 ára gamall að spila í danshljómsveitum, söng í Karlakórnum Jökli, var einn af stjórnendum Jazzklúbbsins, stofnaði Lúðrasveitina árið 1974 og stjórnaði henni í 20 ár, stjórnaði skólalúðrasveitinni í 19 ár, stjórnaði og spilaði í Harmonikkufélaginu í 16 ár, stofnandi og stjórnandi Jassbandsins, Dixielandshljómsveitar og Big-bandsins sem var honum sérstaklega hugleikið og var hann að undirbúa æfingar fram á síðasta dag.

Þröstur söng í kirkjukór Hornafjarðar og starfaði einnig í sóknarnefnd og sunnudagaskóla kirkjunnar um tíma ásamt því að vera fulltrúi leikmanna þjóðkirkjunnar sl. ár.

Hann starfaði sem tónlistarkennari við Tónskóla Hornafjarðar frá árinu 1972-2015 og hlaut Menningarverðlaun Hornafjarðar árið 2011.

Tónlistin var líf hans og yndi og vann hann mikið og óeigingjarnt sjálfboðastarf á þeim vettvangi.

Útför Þrastar fer fram í dag, 27. ágúst 2016, kl. 11 frá Hafnarkirkju, Höfn í Hornafirði.

Kallið er komið,
komin er nú stundin,

...
(Valdimar Briem)

Elsku Sturi bró, kveðjustundin er runnin upp. Söknuðurinn er mikill þegar við kveðjum þig hæfileikaríki og góðhjartaði bróðir minn en jafnframt er mér þakklæti í huga að lokastríðið varð ekki lengra en raun varð á. Við vissum öll hvert stefndi og þú betur en nokkur annar. Þú mættir þessu lokaverkefni lífsins af æðruleysi sem aðeins þeim er gefið sem eru sáttir við að takast á við ný verkefni í sumarlandinu.
Verkefnunum sem þú vannst í lifanda lífi verða ekki gerð skil í stuttum skrifum sem þessum en hæfileikum þínum virtust engin takmörk sett. Alla vega hefur mér og okkur systkinunum alla tíð fundist þú geta allt og ekki bara geta, heldur gera allt það sem þú tókst þér fyrir hendur af einstakri alúð og fagmennsku.
Á þínum yngri árum vannst þú við smíðar og lærðir til húsasmíðameistara. Fljótlega fólust þín verkefni í innréttingasmíð þar sem vandvirkni þinni var viðbrugðið. Þú gast líka teiknað og málað af list og man ég vel hvernig ég dáðist af öllu því sem þú hafðir skapað. Ég minnist þess að hafa verið send með nesti til þín frá mömmu út á Guðmundarverkstæði þegar þú vannst í smíðunum en þar var alltaf kveikt á útvarpinu og þú hækkaðir vel í græjunum þegar tónlist var á dagskrá Ríkisútvarpsins.
Tónlistinn var þín náðargáfa og þvílík gjöf sem þú gafst okkar samfélagi hér á Höfn með brennandi áhuga þínum og færni á því sviði. Mitt fátæklega takk elsku bróðir læt ég duga hér fyrir alla þá fjölbreyttu tónlistarupplifun og gleðistundir sem þú gafst samfélagi þínu með óeigingjörnu starfi þínu á sviði tónlistarinnar.
Þú áttir hin ýmsu hljóðfæri og man ég eftir þér æfa þig á m.a. trommur, harmonikku, gítar, píanó, fiðlu, trompet, píanó og saxafón. Kennsla við Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu, hljóðfæraleikur, vinna við útsetningar og hljómsveitastjórn margvíslegra hljómsveita voru starfsvettvangur og megin tómstundir þínar mörg undanfarin ár. Mínar fyrstu minningar af tónlistarhæfileikum þínum tengjast söng. Það var þegar þú dansaðir við mig og söngst Hulda spann og hjartað brann, aldrei fann hún unnustann. Mér fannst þetta afskaplega skemmtilegt þangað til ég fékk skilning á textanum og harðneitaði þá að dansa meira við þig þar til mörgum, mörgum árum seinna. Þrátt fyrir verulega takmarkaða hæfileika mína á tónlistarsviðinu náðir þú með ástríðu þinni og brennandi áhuga á að miðla til annarra, að kynna fyrir mér töfraheima tónlistarinnar. Þú meira að segja lagðir það á þig að sitja með mér við píanóið þitt og kenna mér nokkrar einfaldar laglínur úr sígildum verkum stórmeistaranna, það þótti mér alltaf stórmerkilegt framtak hjá þér.
Þú varst 16 árum eldri en ég og bjuggum við því ekki í mörg ár undir sama þaki. En sem betur fer fóruð þið Linda ekki langt þegar þið byggðuð ykkar heimili nánast í bakgarðinum okkar. Það var eins og heimili ykkar og heimili mömmu og pabba væri eitt, slíkur var samgangurinn. Seinna hagaði því svo til að ég fluttist aftur á æskuheimilið og fékk þá aftur að njóta nálægðarinnar við ykkur og enn eins áhugamáls þín, sem var garðræktin. Sköpunarkraftur þinn og listamannsaugað skilaði gullfallegum garði sem glatt hefur mig hvern sumardag síðan þá.
Garðurinn þinn kveður þig á þessum síðsumardegi í fullum skrúða elsku stóri bróðir, en tómlegt er að horfa heim til þín því þú ert ekki þar. Elsku Linda, Nanný, Haukur, Drífa og fjölskyldur, missir ykkar er mikill og sendi ég ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Hvar sem þitt sumarland er elsku Þröstur munu blómin þar taka á móti þér í allri sinni dýrð og þar ómar sveiflan, síkvik og lifandi. Njóttu dvalarinnar og hafðu þökk fyrir allt elsku bróðir.


Hulda.