Sjötíu ár liðin frá því að Oddakirkja á Rangárvöllum var reist Kirkja í Odda frá kristnitöku Var í öndverðu helguð heilögum Nikulási, verndardýrlingi sæfarenda Hellu ­ Sunnudaginn 23. október var þess minnst við hátíðarmessu í Oddakirkju að 70 ár eru...

Sjötíu ár liðin frá því að Oddakirkja á Rangárvöllum var reist Kirkja í Odda frá kristnitöku Var í öndverðu helguð heilögum Nikulási, verndardýrlingi sæfarenda Hellu ­ Sunnudaginn 23. október var þess minnst við hátíðarmessu í Oddakirkju að 70 ár eru síðan núverandi kirkja var reist í Odda. Kirkjan var vígð hinn 9. nóvember 1924 sem var 21. sunnudagur eftir þrenningarhátíð og bar hátíðarmessuna sl. sunnudag upp á sama dag kirkjuráðsins.

Talið er að Oddakirkja hafi staðið á svipuðum stað allt frá því sú fyrsta reis þar af grunni, að öllum líkindum skömmu eftir kristnitöku. Talið er að sr. Loðmundur Svartsson, afi sr. Sæmundar Sigfússonar fróða, hafi látið reisa þá kirkju. Kirkjan í Odda mun í öndverðu hafa verið helguð heilögum Nikulási sem var sérstakur verndardýrlingur sæfarenda.

Núverandi kirkja var sem fyrr segir reist 1924 að hluta til úr efniviði kirkju sem sr. Matthías Jochumsson lét reisa, en hann var prestur í Odda á sex ára tímabili á seinni hluta 19. aldar. Yfirsmiður kirkjunnar var Tómas Tómasson frá Reyðarvatni á Rangárvöllum og var hún vígð af Jóni Helgasyni biskupi, en sóknarprestur á þeim tíma var sr. Erlendur Þórðarson.

Miklar endurbætur voru gerðar á kirkjunni 1953, m.a. var hún máluð og skreytt af þeim Jóni og Grétu Björnsson. Á árunum 1986­1990 var lítið safnaðarheimili byggt og margvíslegar viðgerðir og endurbætur gerðar á kirkjunni. Árið 1992 var svo vígt 10 radda pípuorgel sem smíðað var af Björgvin Tómassyni.

Við hátíðarmessuna á sunnudaginn prédikaði sr. Sigurður Sigurðarson vígslubiskup, sóknarpresturinn, sr. Sigurður Jónsson, þjónaði fyrir altari og ritningarlestra lásu sr. Arngrímur Jónsson og sr. Stefán Lárusson, fyrrum sóknarprestar í Odda. Vandað var til tónlistarflutnings en á orgel kirkjunnar lék Halldór Óskarsson ásamt Guðmundi Sigurðssyni en Halldór stjórnaði einnig kirkjukórnum sem naut aðstoðar söngvara úr nágrannasóknum og frá Selfossi. Við athöfnina léku einnig Lárus Sveinsson og dóttir hans, Hjördís Elín, á trompet. Að messu lokinni bauð sóknarnefndin til kaffisamsætis í Hellubíói sem Kvenfélag Oddakirkju annaðist.

ALLIR sóknarprestar Rangárvallasýslu komu til hátíðarmessunnar í Odda, ásamt vígslubiskup, sr. Sigurði Sigurðarsyni.

SR. Sigurður Sigurðarson vígslubiskup og sóknarpresturinn, sr. Sigurður Jónsson, kveðja kirkjugesti.