Enska orðið „patronage“ er notað um úthlutun stjórnmálagæða, sérstaklega embætta og bitlinga, í skiptum fyrir fylgi. Íslenska orðið „valdabrask“ nær hugtakinu best.

Enska orðið „patronage“ er notað um úthlutun stjórnmálagæða, sérstaklega embætta og bitlinga, í skiptum fyrir fylgi. Íslenska orðið „valdabrask“ nær hugtakinu best. Í grein frá 2006 eftir þýska stjórnmálafræðinginn Wolfgang Müller um valdabrask stjórnmálaflokka (party patronage) var vestrænum lýðræðisríkjum skipt í fjóra flokka eftir umfangi valdabrasks. Í fyrsta flokknum, þar sem sáralítið slíkt brask fyrirfyndist, væru Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð. Ísland væri hins vegar í þriðja flokknum, þar sem valdabrask væri í meðallagi.

Eitthvað er bogið við þessa flokkun. Til dæmis höfðu jafnaðarmenn völd í Svíþjóð nær óslitið í 43 ár, frá 1932 til 1976. Allar opinberar stofnanir fylltust af flokksmönnum. Jafnaðarmannaflokkurinn notaði jafnvel leyniþjónustu hersins til að njósna um kommúnista, sem voru skæðir keppinautar þeirra um yfirráð yfir ýmsum verkalýðsfélögum, og varð úr mikið hneyksli, þegar upp komst 1973. Lagaprófessorinn Erik Anners skrifaði 1976 bókina Valdavefur jafnaðarmanna (Den socialdemokratiska maktapparaten).

Í Noregi höfðu jafnaðarmenn völd nær óslitið 1935-1965 og aftur 1976-1981. Sagnfræðiprófessorinn Jens Arup Seip flutti frægan fyrirlestur 1963 um þróunina í einsflokksríki (Fra embedsmannsstat til ettpartistat). Þar lýsti hann því, hvernig flokkur jafnaðarmanna hefði nánast gróið saman við ríkið. Var Seip þó sjálfur jafnaðarmaður. Hið sama gerðist þar og í Svíþjóð, að jafnaðarmenn beittu leyniþjónustunni fyrir sig, og samdi svokölluð Lund-nefnd um það skýrslu 1996.

Eitt sinn sagði framkvæmdastjóri norska Verkamannaflokksins, að flokkur sinn væri örninn í norskum stjórnmálum. Kári Willoch, leiðtogi hægri manna, svaraði þá hógværlega, að sér kæmi frekar annað stórt dýr í hug. Áheyrendur biðu í ofvæni. „Það er fíllinn,“ sagði Willoch. „Hann gleymir aldrei neinum á sínum vegum.“ Menn skellihlógu. En að öllu gamni slepptu kom valdabrask sennilega ekki eins ójafnt niður annars staðar á Norðurlöndum, þar á meðal á Íslandi, því að flokkarnir skiptust þar á um að hafa völd.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is