Vitað er um tvo Íslendinga, sem áttu orðastað við rússneska byltingarmanninn Vladímir Íljítsj Úljanov, sem kallaði sig Lenín og var einn mesti örlagavaldur 20. aldar. Annar var dr.

Vitað er um tvo Íslendinga, sem áttu orðastað við rússneska byltingarmanninn Vladímir Íljítsj Úljanov, sem kallaði sig Lenín og var einn mesti örlagavaldur 20. aldar.

Annar var dr. Jón Stefánsson, sem lagði fyrir sig enskar bókmenntir og sat um aldamótin 1900 og lengi eftir það á Bretasafni í Lundúnum við margvíslegt grúsk. Árin 1902-1903 bjó Lenín í Lundúnum, sat þá iðulega á safninu í næsta sæti við Jón og gekk undir dulnefninu Richter, þótt Jón þekkti hann strax af myndum. „Ennið var hátt og kúpt, hann var nærri alsköllóttur með leifar af rauðbirknu hári, alskeggjaður. Hann yrti á engan mann, og enginn þorði að yrða á hann,“ sagði Jón. Eitt sinn missti Lenín skrifað blað í gólfið. Jón tók það upp og rétti honum, og sagði Lenín þá „Thanks“ með þýskum hreim. Ekki fór þeim Jóni fleira á milli.

Hinn viðmælandi Leníns var blaðamaðurinn Hendrik S. Ottósson, sem var 22 ára, þegar honum var boðið ásamt Brynjólfi Bjarnasyni á annað þing Alþjóðasambands kommúnista, Kominterns, í Moskvu 1920. Hendrik var kallaður á fund framkvæmdastjórnar sambandsins til að segja frá Íslandi. Þar var Lenín, og lýsti Hendrik honum svo: „Hann var í lægra meðallagi, herðabreiður og virtist við fyrstu sýn hafa herðakistil. Höfuðið var stórt, hárið hafði verið ljósjarpt, en var nú að mestu horfið. Skegghýjung hafði hann á efri vör og höku.“ Hendrik lét þau orð falla, að sennilega vissu fæstir fundarmenn mikið um land sitt. Lenín greip þá fram í og kvað framverði verkalýðsins vel að sér. Ísland yrði hernaðarlega mikilvægt í framtíðarstyrjöld, einkum vegna flug- og kafbátahernaðar.

Löngu síðar efaðist Brynjólfur Bjarnason um, að Hendrik hefði skipst á orðum við Lenín. Hefði hann misminnt um það. En prentuð gögn fundarins staðfesta, að Hendrik flutti skýrslu fyrir framkvæmdastjórn Kominterns um Ísland, og er ástæðulaust að rengja frásögn hans. Sjálfur sagðist Brynjólfur hafa hlustað á allar fimm ræður Leníns á þinginu. Það getur þó ekki verið, því að þeir Hendrik voru ekki komnir til þingsins, þegar Lenín flutti þrjár af þessum fimm ræðum. Þær hafa því sennilega vitrast Brynjólfi.

Á efri árum reyndi Brynjólfur að sameina andatrú og kommúnisma. Ef til vill hófst sú viðleitni miklu fyrr en marga grunaði.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is