Guðrún Helgadóttir segist alla ævi hafa verið með halarófu af börnum á eftir sér. Hér er hún með langömmubörnunum Maríu Dóru Hrafnsdóttur, Arnari Páli Haukssyni og Kára Hrafnssyni.
Guðrún Helgadóttir segist alla ævi hafa verið með halarófu af börnum á eftir sér. Hér er hún með langömmubörnunum Maríu Dóru Hrafnsdóttur, Arnari Páli Haukssyni og Kára Hrafnssyni. — Morgunblaðið/Ásdís
Guðrún Helgadóttir, einn ástsælasti barnabókahöfundur Íslands, er heiðursgestur á barnabókmenntahátíðinni Úti í mýri í Norræna húsinu og mun hún fara yfir ferilinn í dag, sunnudag.

Guðrún Helgadóttir, einn ástsælasti barnabókahöfundur Íslands, er heiðursgestur á barnabókmenntahátíðinni Úti í mýri í Norræna húsinu og mun hún fara yfir ferilinn í dag, sunnudag. Guðrún hefur lifað tímana tvenna, alin upp í fátækt í stórum systkinahópi, verið þingkona, rithöfundur, móðir, amma og langamma. Guðrún rifjar upp gamla tíma og talar um æskuna, pólitíkina og drauminn um gott líf sem rættist. Mynd og texti: Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Haustið minnir á sig með slagviðri en það er notalegt og hlýtt í stofunni hjá Guðrúnu Helgadóttur. Á langri ævi hefur hún látið til sín taka í stjórnmálum á ýmsum sviðum. Hún sat bæði í borgarstjórn og á Alþingi fyrir Alþýðubandalagið og varð síðar fyrsta konan til að gegna starfi forseta Alþingis. Meðfram vinnu fann hún tíma til að skrifa fjöldann allan af bókum sem glatt hafa íslensk börn í gegnum árin. Undirrituð er sannarlega eitt af þessum börnum.

Með halarófu af börnum

Guðrún er sögumaður af guðs náð og það stendur ekki á henni þegar ég forvitnast um æskuna. Hún er alin upp í Hafnarfirði, fyrsta barn foreldra sinna. „Pabbi var aldrei heima, hann var alltaf úti á sjó og mamma var, eins og ég segi stundum, barnflesta einstæða móðirin sem ég þekki,“ segir Guðrún og hlær.

Börnin urðu tíu og eru fædd á tuttugu árum. „Ég er elst af tíu systkinum. Ég hef alltaf verið með halarófu af börnum á eftir mér. Frá því að ég man eftir mér,“ segir Guðrún. Þegar hún eignaðist svo sitt fyrsta barn fannst henni það ekki mikið mál. „Ég get lýst því þannig að þegar ég eignaðist mitt elsta barn þá fannst mér ég vera að eignast tíunda barnið, satt að segja,“ útskýrir Guðrún en hún var auðvitað vön að passa yngri systkinin sín.

„Yngsti bróðir minn varð til þegar ég var í fimmta bekk í menntaskóla og ég var ægilega spæld yfir því, mér fannst þetta bara ekki hægt!“

Var bara komið nóg?

„Já, guð minn góður, að eiga ólétta mömmu og vera komin í menntaskóla, mér fannst þetta hryllilegt,“ segir hún. „En hann er sætastur og skemmtilegastur af okkur öllum.“

Guðrún segir það sjálfsagt hafa verið erfitt fyrir móður sína að eiga öll þessi börn. „Maður skyldi halda það, en það var ekkert verið að ræða erfiðleika í þann tíð.“

Fátækt vond fyrir sálina

Guðrún man vel eftir tíðarandanum sem ríkti þegar hún var að alast upp. „Ég er fædd þarna rétt áður en seinna stríð skellur á og þetta voru mjög merkilegir tímar og allt að breytast. Frá því að fólk hafði aldrei séð peninga í að fólk óð í peningum. Allir að vinna fyrir Bretann. Þetta voru miklir byltingartímar satt að segja,“ segir Guðrún.

Stóra fjölskyldan í Hafnarfirði óð ekki í peningum en Guðrún segir að þau hafi alltaf átt fyrir mat og haft það betra en margur annar. „Sannleikurinn var nú sá að sjómenn voru að sumu leyti betur staddir heldur en t.d. verkamennirnir. Pabbi var aldrei atvinnulaus, það þekkti ég aldrei. Hann var alltaf á sama togaranum alla tíð. Við vorum ekki svöng og hann var duglegur að kaupa föt á okkur þegar hann var að sigla. En auðvitað vorum við hundfátæk og þetta var ekkert spennandi líf, það væri synd að segja það. Ég fann mjög fyrir því og hafði snemma mjög ákveðnar væntingar um að ég ætlaði að lifa skemmtilegra lífi,“ segir Guðrún. „Ég fór óskaplega ung að reyna að koma garði í kringum húsið, þetta var bara órækt,“ segir Guðrún sem vildi hafa fínt í kringum sig. „Mér fannst til stórra bóta að kveikja á kerti til dæmis, því það þurfti ekki að kosta nein ósköp. Það sem ég er sannfærð um og hafði áhyggjur af mjög snemma er að fátækt gerir fólk ekki bara efnislega fátækt heldur andlega líka. Fólk gefst upp fyrir fátæktinni. Það orkar ekki einu sinni að kveikja á kerti. Það leggst einhver óskaplegur doði yfir fólk,“ segir Guðrún.

Fjölskyldan bjó í litlu húsi við þröngan kost og segir Guðrún að þau hafi næstum öll sofið í sama herbergi. „Guð almáttugur, maður þótti góður ef maður fékk hálfa kommóðuskúffu,“ segir hún og hlær. „Við vorum bókstaflega alltaf öll í sama herbergi, það var ekkert annað pláss. Svo voru amma og afi á heimilinu líka og þau höfðu herbergi út af fyrir sig en það voru alltaf tveir, þrír krakkar inni hjá þeim.“

Þótti greindur krakki

Guðrún gekk í katólskan skóla og naut sín þar hjá systrunum sem kenndu henni meðal annars handavinnu. „Ég er svo óskaplega þakklát fyrir það að ég fékk að ganga í Sankti Jósepsskóla. Systurnar kenndu mér alveg óskaplega mikið í því að hafa fallegt í kringum mig,“ segir hún.

Síðar fór Guðrún í Flensborg sem þá var gagnfræðaskóli. „Ég held ég hafi verið fremur greindur krakki satt að segja og varð svo heppin að það var alls konar fólk sem tók mig upp á sína arma. Á Jófríðarstaðavegi 15 bjó Eyjólfur Kristjánsson og kona hans Guðlín. Þau áttu fjögur börn og Guðný dóttir þeirra, sem var yndisleg manneskja, tók ástfóstri við mig og ég var þar meira og minna. Þetta var heimili sem var mikið betur stætt en okkar, Eyjólfur vann í Sparisjóðnum og Guðný hafði lært hattasaum í Reykjavík, sem þótti ægilega fínt í „den“. Þetta fólk var mér afskaplega gott. Það má sjá margt af þessu fólki í Sitji guðs englar,“ segir hún.

Guðrún segir að margir kennarar í Flensborg hafi reynst henni afskaplega vel og nefnir Benedikt Tómasson skólameistara og dr. Bjarna Aðalbjarnarson. „Það er þessum mönnum að þakka að ég fór í menntaskóla. Ég ætlaði ekkert að gera það, ég ætlaði fyrst og fremst að komast í vinnu og þéna peninga og ætlaði að koma skikk á Jófríðarstaði 7,“ segir hún. „En þessir herrar tóku ráðin af foreldrum mínum og sögðu bara ekkert vit í öðru en að ég færi í skóla og guði sé lof að svo fór.“

Draumur um heimsfrægð

Guðrún segir að hún hafi snemma ákveðið hvað hún vildi verða þegar hún yrði stór. „Það fór ekkert á milli mála að ég ætlaði að verða heimsfræg kvikmyndaleikkona. Því ég las í blöðunum að þær væru svo ægilega ríkar og þá ætlaði ég að vera svo góð og gefa peninga út og suður öllu fátæka fólkinu í Hafnarfirði. Mikið lifandi skelfing var ég nú ákveðin í þessu. Beið dag hvern eftir að verða uppgötvuð. En svo fór það nú þannig að ég var aldrei uppgötvuð,“ segir hún og hlær en hún lék í skólaleikritum í Hafnarfirði og síðar í menntaskóla.

Hvað kom í veg fyrir að þú yrðir leikkona?

„Sko, það kom smá babb í bátinn. Þær voru allar þessar stjörnur, Betty Grable og Audrey Hepburn og þessar skvísur svo asskoti hávaxnar. Og það ætlaði bara ekkert að tosast úr henni Rúnu litlu. Og ég tók þá ákvörðun að þetta myndi aldrei ganga, ég væri bara of lágvaxin. Ég ætlaði ekkert að vera einhver lágvaxin gamanleikkona, ég ætlaði að verða alvöru dramatísk leikkona. Þannig fór um sjóferð þá,“ segir Guðrún og brosir að minningunni.

„Taktu til hendinni“

Þegar Guðrún rifjar upp æskuna viðurkennir hún að stundum hafi henni liðið illa. „Mér leið ekkert sérstaklega vel sem barni en leiðina út úr því fékk ég frá Ingibjörgu ömmu minni. Ef hún sá að mér leið ekki vel, eða að einhverjum leið ekki vel, sagði hún gjarnan: taktu til hendinni. Og ég gerði það gjarnan. Og það hefur enst mér alla ævi. Það er alþekkt í minni fjölskyldu að ef Rúna mamma fór að taka til í geymslunni þá var eitthvað sem var að angra hana!“ segir hún og hlær dátt. „Það var mín leið til að lifa af. Og ég fékk margar ánægjustundir út úr því. Elskaði að vinna í lóðinni heima og fékk plöntur hjá nunnunum í Klaustrinu,“ segir Guðrún sem einnig naut þess að standa á sviði. „Ég var nú notuð svolítið á alls konar skemmtunum í Hafnarfirði því ég var svo snemma læs. Ég held ég hafi verið þriggja, fjögurra ára þegar ég varð læs. Svona lítil og skrítin stelpa sem var meira að segja svolítið sæt, ég sé það nú bara á gömlum myndum að ég var laglegur krakki, þá var það nú upplagt að láta mig koma fram í taftkjól sem mamma hafði saumað og lesa upp. Þetta var ægilega vinsælt. Þannig að ég var orðin sviðsvön,“ segir Guðrún sem var snemma bókaormur og las allt sem hún komst yfir. „Elskan mín, ég las Strandarkirkju eftir Elínborgu Lárusdóttur þegar ég var sjö ára.“

Að þið skulið vera að þessu

Guðrún segir að æskan hafi alls ekki verið alslæm þrátt fyrir fátækt og basl. „Þetta samfélag hafði ákveðna kosti sem kannski sum börn njóta ekki lengur. Mamma var alltaf heima og gjarnan einhverjar kellur í heimsókn. Maður heyrði fólk mikið tala saman og maður lærði óskaplega mikið í málinu. Ég bý enn að því. Amma og afi töluðu mjög fallegt og kjarnyrt mál. Maður kom aldrei að kuldalegu tómu húsi. Það var alltaf einhver heima og alltaf hlýtt í minningunni og alltaf eitthvað að borða. En það var ekkert verið að sinna andlegheitunum,“ segir hún.

Guðrún segir að vitaskuld hafi verið nóg að gera á stóru heimili og ekki mikill tími til að sinna hverjum og einum. „Mamma mín ávarpaði okkur alltaf: ÞIÐ. Vegna þess að það var ekki til þú. ÞIÐ eigið að hegða ykkur vel, og ÞIÐ eigið að skipta um föt. Þess vegna lét ég yfirskriftina að samkomu sem var haldin í Borgarbókasafninu fyrir tveimur árum í tilefni af 40 ára rithöfundarafmæli mínu vera: Að þið skulið vera að þessu . Af því að þegar ég var komin með Jón Odd og Jón Bjarna í prentun hringdi ég í mömmu og sagði, veistu mamma, það getur vel verið að það komi út bók eftir mig. Og þá sagði hún þessa dásamlegu setningu sem hefur svifið yfir vötnum í fjölskyldunni æ síðan: „Að þið skulið vera að þessu“,“ segir hún og hlær.

Skrifaði bók þrettán ára

Guðrún var strax farin að fikta við skriftir á unga aldri þó það hafi svo æxlast þannig að fyrsta bókin kom ekki út fyrr en hún var um fertugt.

„Ég skrifaði mikla skáldsögu þegar ég var þrettán ára, auðvitað um fátæk börn sem björguðu sér. Ég meira að segja fór með það til útgefanda. Ég hef nú oft sagt frá þessu, en ég er ekki viss um að þetta hafi verið mikið skáldverk. Ég fór með Hafnarfjarðarstrætó til útgefanda og bankaði upp á hjá honum. Ég held að hann hafi ekki treyst sér til að gefa það út en ég held að handritið gæti hafa farið í eldi en það kviknaði í skrifstofu hans,“ segir hún.

Kommúnisti í næsta húsi

Eftir menntaskóla tóku við barneignir og starfaði Guðrún lengi á skrifstofu Menntaskólans í Reykjvík, þar sem hún hafði áður numið fræðin. Seinna leiddist hún út í pólitík en hafði frá unga aldri samkennd með fólki og sterka réttlætiskennd.

Var pólitík rædd á þínu æskuheimili?

„Það voru ósköp hreinar línur í því. Mamma og pabbi og afi og amma voru Sjálfstæðisfólk, Sigrún besta vinkona mín í næsta húsi og hennar fólk voru Alþýðuflokksmenn og svo var bara einn kommúnisti í næsta húsi en það var Jón Vídalín, frændi minn,“ segir Guðrún en sá maður skírði son sinn Karl Marx.

Guðrún var á barnsaldri send á skrifstofu Einars Þorgilssonar að sækja laun föður síns. „En oft var lítið eftir af þeim því útgerðin rak verslun á neðri hæðinni og þar var mamma í reikingi,“ útskýrir Guðrún. „Mér fannst þetta alltaf hið mesta óréttlæti að þessir karlar sem sátu fyrir innan borðið og dýfðu aldrei hendi í kalt vatn, á meðan ég þrælaði úti á reit að breiða út saltfisk og pabbi alltaf úti á sjó – að við ættum aldrei grænan eyri. Versta óréttlæti,“ segir Guðrún.

Eftir menntaskóla fór hún að „blanda sér í ameríska sjónvarpið“ sem hún segist hafa haft miklar áhyggjur af. „Að við myndum bara týna þjóðmenningunni í Keflavík. Við fórum í mótmælagöngur til Keflavíkur,“ segir hún og var þá flokksbundin í Alþýðubandalaginu. „Þau plötuðu mig svo að fara í borgarstjórn og þaðan inn á þing og þannig gerðist þetta allt einhvern veginn. Ég var nú svolítið stjórnsöm og sumir myndu kannski segja að ég hafi verið frek. En það verður nú stundum að hafa stjórn á hlutunum. Þegar ég fór út í pólitík sagði Viðar bróðir minn: Alltaf vissi ég það að þegar við systkinin færum að heiman og Rúna systir þyrfti ekki að vera að ráðskast með okkur þá myndi hún fara að fara að ráðskast með alla þjóðina,“ segir hún og hlær.

Pólitíkin vanþakklátt starf

Guðrún sat í næstum tuttugu ár á þingi fyrir Alþýðubandalagið og naut sín í starfi þingmanns og forseta þings. „Mér fannst það óskaplega gaman. Einhver allra skemmtilegustu ár sem ég hef lifað, þegar ég var á þingi. Við komum alls konar málum í gegn og mér gekk vel að koma mínum málum í gegn. Mörg af mínum málum hafa reynst vel og eru enn í dag til bóta,“ segir hún og telur að oft mætti þakka fyrir þau störf sem þar séu unnin. „Það eru engin störf eins vanþakklát og pólitísk störf. Það er alltof sjaldan að menn virða og þakka það sem hefur gerst í pólitík. Á öldinni sem er nú liðin þá reis Ísland úr kröm yfir í heim siðaðra þjóða og gerði það með glans og elegans. Og það er eins og fólk hafi ekki tekið eftir þessu.“

Ljótar og leiðinlegar bækur

Upphafið af barnabókaskrifum Guðrúnar má rekja til skorts á góðum bókum fyrir börn. Guðrún las alltaf mikið fyrir sín börn en líkaði ekki alltaf úrvalið sem til var. „Ég sótti bækur í haugum á bókasafnið. Þetta voru illa þýddar og sumar ljótar og leiðinlegar bækur, auðvitað með undantekningum. En stundum gekk svo fram af mér ábyrgðarleysið í útgáfu að ég hugsaði með mér að ég gæti nú eins sagt börnunum einhverjar sögur sjálf. Og þá fóru þeir af stað í munnlegri geymd, Jón Oddur og Jón Bjarni,“ segir Guðrún sem endaði á að skrifa söguna niður. Silja Aðalsteinsdóttir bað Guðrúnu að fá að lesa söguna upp í útvarpi og síðar var hún gefin út. „Svo rúllaði boltinn bara,“ segir Guðrún sem settist niður í fríum sínum næstu árin og skrifaði bækur sem flest íslensk börn þekkja.

Þurfa athygli „úmmu“

Það er langt liðið á eftirmiðdaginn og dyrabjallan hringir í gríð og erg. Inn streyma börn, barnabörn og langömmubörn sem komin eru til „úmmu“ sinnar, eins og Guðrún kallar sig. Lítill langömmudrengur með fjólubláa kúlu á enninu þarf nú að fá athygli og það er kominn tími á að blaðamaður drífi sig. Ég spyr að lokum hvernig sé að horfa til baka yfir langt líf. Guðrún segist sátt. „Ég hef fengið allt sem mig dreymdi um sem krakka. Að fá fallegt og skemmtilegt líf. Auðvitað hef ég fengið mína skelli eins og allir en þegar ég lít til baka finnst mér ég hafa átt merkilegt og skemmtilegt líf. Virkilega. Og kannski orðið einhverjum að gagni. Og svo á ég hóp af dásamlegum börnum. Getur maður beðið um meira?“