Borgarbyggð 3.637 manns búa í þessu víðfeðma sveitarfélagi.
Borgarbyggð 3.637 manns búa í þessu víðfeðma sveitarfélagi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Gert er ráð fyrir að afgangur í rekstri A- og B-hluta sveitarsjóðs Borgarbyggðar á næsta ári verði 131 milljón króna.

Gert er ráð fyrir að afgangur í rekstri A- og B-hluta sveitarsjóðs Borgarbyggðar á næsta ári verði 131 milljón króna. Þetta kom fram þegar fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár, svo og þriggja ára áætlun tímabilsins 2018 til 2020, var til fyrri umræðu í sveitarstjórn í síðustu viku. Ekki er gert ráð fyrir lántöku á næsta ári, frekar en undanfarin ár. Skuldir Borgarbyggðar fara því lækkandi og er áætlað að skuldahlutfall verði 125,8% á næsta ári.

Hagur vænkast

Staða sveitarsjóðs hefur vænkast verulega á undanförnum árum og uppfyllir Borgarbyggð nú ríflega lágmarksviðmið Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga um skuldaviðmið og rekstrarjöfnuð, segir í fréttatilkynningu.

Skatttekjur Borgarbyggðar hækka um 213 millj. kr. á milli áranna 2016 og 2017 og verða 2.993 millj. kr. sem er 7% hækkun miðað við útkomuspá fyrir árið 2016. Heildartekjur verða 3,3 ma.kr. sem stendur nánast á pari við fyrra ár. Heildarútgjöld eru áætluð 3.060 ma.kr. en verða 2.952 ma.kr. á árinu 2016 skv. útkomuspá. Útsvarstekjur á næsta ári verða um 1,6 ma. kr. og fasteignaskattur mun skila um 450 millj. kr. Áætlað er að framlög Jöfnunarsjóðs nemi 891 millj. kr.

Frístundakort í fyrsta sinn

Á næsta ári áforma forystumenn Borgarbyggðar framkvæmdir fyrir 275 milljón króna kr. Bætt rekstrarafkoma og eignasala gerir að verkum að ekki verður þörf á lántöku. Af áherslumálum næsta árs má tiltaka að frístundakort verður nú tekið upp í Borgarbyggð í fyrsta sinn. Framlag fyrir hvert barn á aldrinum 6-18 ára verður 20 þúsund kr. á ári.

Af framkvæmdum má nefna viðbyggingu við grunnskólann í Borgarnesi, flutning á leikskóla á Kleppsjárnsreykjum, malbikun og endurnýjun gangstétta í Borgarnesi og lagningu ljósleiðara um sveitir Borgarfjarðar. sbs@mbl.is