Demókratar sagðir fjáröflunarvél, ekki hreyfing í gagnrýni innan frá

Þótt fáir hafi spáð fyrir um sigur Donalds J. Trump í forsetakosningunum í Bandaríkjunum hafa ófáir tjáð sig um hvernig á því stóð að hann sigraði. Einn þeirra er Robert Reich, sem verið hefur demókrati í hálfa öld og þjónað tveimur ríkisstjórnum, var þar á meðal ráðherra í forsetatíð Bills Clinton.

Hann leitar ekki langt yfir skammt að ástæðum fyrir tapi Hillary Clinton í grein sem birtist á vef The Guardian í gær, heldur beinir spjótum sínum að Demókrataflokknum og segir að hann þurfi að gerbreytast. Nú sé flokkurinn „í grunninn risavaxin fjáröflunarvél, sem allt of oft endurspeglar markmið og gildi þeirra peningalegu hagsmunaafla sem leggja til megnið af fjárframlögunum“.

Hann segir hins vegar hæpið að nokkuð muni breytast. Hinir innmúruðu hagsmunahópar vilji fæstir breytingar. Þá endi féð í vösum pólitískra ráðgjafa, skoðanakönnuða, pólitískra ráðgjafa, lögmanna, auglýsingaráðgjafa og auglýsenda, sem margir hafi orðið ríkir af þessu fyrirkomulagi og vilji því viðhalda því.

Ætli flokkurinn að hafa eitthvað að segja verði hann að breytast úr fjáröflunarvél í hreyfingu. Takist það ekki muni eitthvað annað koma í staðinn.