Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, fjallaði í Morgunblaðinu í gær um réttlætiskennd borgarstjóra.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, fjallaði í Morgunblaðinu í gær um réttlætiskennd borgarstjóra.

Furðar hún sig á að borgarstjóri segi hækkun þingfararkaups hafa gengið fram af réttlætiskennd sinni þegar heildarlaun hans sjálfs hafi hækkað um svipaða fjárhæð í sumar þegar hann tók launað stjórnarsæti á vegum borgarinnar.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur að sögn Sveinbjargar þegið frekari aukagreiðslur og hafa Framsókn og flugvallarvinir lagt fram fyrirspurn um heildarlaunagreiðslur hans í borgarráði.

Og Sveinbjörg veltir því upp hvort svörin muni ganga „fram af réttlætiskennd meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata? Eða skiptir máli í hvaða vasa krónurnar renna?“

Ekki er að efa að borgarfulltrúum þessara flokka mun þykja það skipta máli.

Ekki þarf heldur að efast um að þessir flokkar eru jafn sannfærðir og fyrr um að réttlætanlegt sé að auka heildarlaunagreiðslur til borgarfulltrúa um meira en helming með því að fjölga þeim úr 15 í 23.

Væri ekki nær að halda fjöldanum hóflegum og greiða bærileg laun fyrir starfið en fara í staðinn fram á að borgin sé rekin af meiri ábyrgð en gert hefur verið á liðnum árum?