Í Turni Trumps Jeff Sessions á leið til fundar við Donald Trump í New York.
Í Turni Trumps Jeff Sessions á leið til fundar við Donald Trump í New York. — AFP
Donald Trump skýrði í gær frá því að hann hygðist tilnefna Jeff Sessions, íhaldssaman þingmann, í embætti dómsmálaráðherra og þingmanninn Mike Pompeo sem yfirmann leyniþjónustunnar CIA.

Donald Trump skýrði í gær frá því að hann hygðist tilnefna Jeff Sessions, íhaldssaman þingmann, í embætti dómsmálaráðherra og þingmanninn Mike Pompeo sem yfirmann leyniþjónustunnar CIA.

Sessions er 69 ára og hefur átt sæti í öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Alabama í tuttugu ár. Öldungadeildin þarf að staðfesta tilnefningu hans í embættið.

Ronald Reagan, þáverandi forseti, tilnefndi Sessions í dómaraembætti árið 1986 en öldungadeildin hafnaði tilnefningunni vegna ásakana um kynþáttafordóma. Sessions hafði þá m.a. sagt að hvítur lögmaður væri „kynþætti sínum til skammar“ vegna þess að hann varði blökkumann. Hann viðurkenndi að hann hefði sagt þetta en kvaðst ekki hafa meint það.

Sessions hefur verið andvígur því að óskráðir innflytjendur í Bandaríkjunum fái ríkisborgararétt og hefur stutt loforð Trumps um að reisa múr á landamærunum að Mexíkó.

Mike Pompeo er 52 ára og hefur átt sæti í fulltrúadeild þingsins fyrir Kansas frá árinu 2011. Hann hefur notið stuðnings íhaldsmanna í teboðshreyfingunni svonefndu í Repúblikanaflokknum.