Laugardagsgátan var sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:
Gengur hann á hæla manns.
Hindrar birtu ljósgjafans.
Vofa, sem á sveimi er.
Sorg, er þig í hjartað sker.
Guðrún Bjarnadóttir á þessa:
Trítlað í takt við skuggann,
tanast í skugganum, varla.
Draugskugga dvelst við gluggann.
Depurð skyggði svip jarla.
Helgi Seljan leysir hana þannig:
Víða eru skuggaskil,
skugginn fylgir manni þó.
Varla er samt vofa til,
en vondur geigur hjartað smó.
Árni Blöndal svarar:
Alltaf Skugginn eftir mér
oft hann birtu frá mér tekur
eins og vofa víst hann er
vekur sorg og hjarta skekur.
Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:
Skuggi gengur fast á hæla hans.
Hindrar skuggi birtu ljósgjafans.
Skuggi er vofa á sveimi í heimi hér.
Í hjarta þínu skuggi sorgar er.
Þá er limran:
Hið ljósa sumar er liðið
og leika skuggar um sviðið,
ég bíð eftir gesti
á bleikum hesti,
það hringlar í beisli við hliðið.
Og síðan kemur Guðmundur með nýja gátu:
Upp nú rís ég eins og skot,
er í tímakrísu,
ýti Kjalars kugg á flot,
kveð svo gátuvísu:
Húnn það á siglutré heitir.
Hnappur, sem rafbirtu veitir.
Oft er það uppi á sumum.
Án þess lágt risið á gumum.
Á fimmtudaginn hlustuðu þau Helgi R. Einarsson og Táta á morgunútvarpið og þá varð þetta til:
Kennararnir kveðja brátt,
kaupið er til vansa.
Vonleysi á vissan hátt
að vera í þessum bransa.
og
Nú er Kötu komið að.
Hvað er nú til ráða?
Sú litla kann að leysa það,
samt líst mér ekki á 'ða.
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is