[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Sigmundur Sigurgeirsson Árborg Töluverð uppbygging íbúðarhúsnæðis á sér stað á Selfossi um þessar mundir, en verktakar ná þó ekki að anna eftirspurn. Mikill skortur er á eignum til sölu og hefur það ástand verið viðvarandi í nokkra...

Úr bæjarlífinu

Sigmundur Sigurgeirsson

Árborg

Töluverð uppbygging íbúðarhúsnæðis á sér stað á Selfossi um þessar mundir, en verktakar ná þó ekki að anna eftirspurn. Mikill skortur er á eignum til sölu og hefur það ástand verið viðvarandi í nokkra mánuði. Fasteignasali sem rætt var við segir allt seljast sem komi inn á sölurnar sem sé á ákveðnu verðbili, eins og hann orðar það. Stærri eignir seljast hægar en mikil eftirspurn sé eftir minni íbúðum. Leitað er eftir húsnæði fyrir ungt fólk og svo það elsta, og því sé það í raun fyrstu kaup fólks og þau síðustu sem eru hvað tíðust í þessum bransa. Fjórar fasteignasölur eru starfandi í Árborg og sama ástandið alls staðar, þær keppast um að fá eignir til sölu.

Verktakar eru að byggja húsnæði sem þeir eru búnir að selja, það húsnæði sem er að verða tilbúið núna var selt í maí. Þeir sem hyggjast kaupa nýtt húsnæði mega búast við að þurfa að bíða fram á næsta sumar. Lóðaframboð er ágætt þótt sveitarfélagið eigi ekki mikið af lóðum, en nokkur svæði í eigu einkaaðila og bankastofnana eru til staðar og framkvæmdir að hefjast þar um þessar mundir.

Gert er ráð fyrir 173,6 milljóna króna afgangi af rekstri samstæðu Sveitarfélagsins Árborgar á næsta ári, samkvæmt fjárhagsáætlun sem kynnt var á bæjarstjórnarfundi á miðvikudag. Er það nokkru betri rekstrarafkoma en á yfirstandandi ári. Heildartekjur A- og B-hluta eru ætlaðar rétt tæplega 8 milljarðar króna. Eins og víðar eru það fyrirtæki og stofnanir bæjarins sem stuðla að jákvæðri afkomu á meðan bæjarsjóður sjálfur stendur ekki undir sér. Í greinargerð með áætluninni er tiltekið að mikil óvissa sé með útgjaldaliði sveitarfélagsins vegna þess að samningar hafa ekki náðst um laun kennara. Ljóst er að skuldir sveitarfélagsins eru enn miklar, en lítillega verður unnið á þeim skuldum á árinu, en auknar tekjur valda því jafnframt að skuldahlutfall ætti að vera komið niður í 130 prósent við lok árs.

Skatttekjur af útsvari eru enn talsvert undir landsmeðaltali. Þannig eru útsvarstekjur á hvern íbúa um 465 þúsund krónur 2016, á meðan landsmeðaltal er 517 þúsund. Hið sama má segja um tekjur af fasteignaskatti, sem námu 81 þúsundi króna á íbúa en til samanburðar er landsmeðaltal rúmar 106 þúsund. Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, segir ýmissa leiða leitað til að bæta stöðu bæjarsjóðs, miðað sé við að hækka fasteignaskattinn lítillega á næsta ári og stöðugt unnið að því að draga úr kostnaði við rekstur. Vandinn liggi í lágum meðaltekjum. „Við værum betur stödd ef við værum þó ekki nema með meðalútsvarstekjur á hvern íbúa,“ segir hún.

Jólaljósin voru kveikt á götum Selfoss á fimmtudagskvöld, en þessi árlegi viðburður helst í hendur við nokkurskonar upphaf jólaverslunar hér í bæ. Langflest fyrirtæki og stofnanir hafa sett upp jólaljósin og skreytingar og má segja að ár frá ári sé meira lagt í glæsilegar útstillingar í gluggum verslana og þjónustufyrirtækja. Nokkuð blés úr norðvestri á fimmtudagskvöldið, sem hafði í för með sér nokkru minni umferð á þessu árlega kvöldi en verið hefur. Kaupmenn sem tíðindamaður blaðsins ræddi við voru sammála um að færri hafi verið á ferli, en engu að síður eru þeir nokkuð bjartsýnir á jólaverslunina að þessu sinni, en slíkt helst vissulega í hendur við efnahagsástandið, sem og færð og veður, því það getur haft mikil áhrif til hins verra ef veðurfar er erfitt, þar sem Selfoss er nokkurskonar þjónustustaður fyrir héraðið í heild.

Sveitarfélagið Árborg og Hveragerðisbær hafa auglýst eftir verkefnisstjóra sem fær það verkefni að hafa umsjón með móttöku flóttamanna frá Sýrlandi sem koma hingað til lands um næstu áramót. Munu sveitarfélögin hafa nána samvinnu um verkefnið, en alls kemur 21 flóttamaður í Árnessýsluna, 14 á Selfoss, og sjö í Hveragerði. Um er að ræða tvær fjölskyldur sem koma á Selfoss og hefur bærinn leigt tvö hús undir fólkið. Það kemur úr flóttamannabúðum í Líbanon en starfsmaður velferðarráðuneytisins fer utan og hittir það og undirbýr komu þess á næstu vikum. Verkefnið er samstarfsverkefni ríkisins og nokkurra sveitarfélaga, en ríkið greiðir útlagðan kostnað, svo sem fyrir verkefnisstjórann, framfærslu fólksins í ákveðinn tíma og annað sem til fellur.