Flug Alls verða um 500 flugmenn við störf hjá Icelandair á næsta ári.
Flug Alls verða um 500 flugmenn við störf hjá Icelandair á næsta ári. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Stóru flugfélögin leita grimmt að mannskap og fólk með réttindi fær vinnu mjög fljótt,“ segir Örnólfur Jónsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna.

„Stóru flugfélögin leita grimmt að mannskap og fólk með réttindi fær vinnu mjög fljótt,“ segir Örnólfur Jónsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Fjölgun ferðamanna sem til Íslands koma og aukin umsvif flugfélaganna birtast í því að flugmenn vantar til starfa. Icelandair réði á dögunum alls 64 nýja flugmenn til starfa sem koma til starfa á vormánuðum, en starfsþjálfun þeirra fyrstu er þegar hafin. Í fyrra réð félagið 62 nýja flugmenn.

„Að taka inn 126 nýja flugmenn á tveimur árum er mikil viðbót og það stefnir í að næsta sumar verði flugmenn hjá Icelandair um 500 talsins. Er nú reyndar svo komið að félagið hefur verið að ráða til sín flugmenn frá útlöndum, til dæmis Skandinavíu og víðar. Slíkt hefur ekki gerst áður. Annars má segja að flugmenn leiti þangað sem vinna býðst hverju sinni,“ segir formaður FÍA.

Til viðbótar framansögðu hafa Flugfélag Íslands, Ernir og Mýflug einnig verið að ráða nýja flugmenn til starfa, í sumum tilvikum í stað þeirra sem ráðið hafa sig í nýja vist og á stærri flugvélar. Einnig hefur WOW air verið að bæta flugmönnum í sinn hóp, en þess ber að geta að þeir eiga ekki aðild að FÍA.

„Atvinnuástand flugmanna hefur aldrei verið jafn gott. Raunar hefur verið uppsveifla alveg frá 2012,“ segir Örnólfur. sbs@mbl.is