Sigurleikur Ingunn Embla Kristínardóttir á ferðinni í sigrinum frækna gegn Ungverjum í Laugardalshöll síðasta vetur. Það er eini sigur Íslands í undankeppni EM til þessa en framundan eru leikir við Slóvakíu og Portúgal.
Sigurleikur Ingunn Embla Kristínardóttir á ferðinni í sigrinum frækna gegn Ungverjum í Laugardalshöll síðasta vetur. Það er eini sigur Íslands í undankeppni EM til þessa en framundan eru leikir við Slóvakíu og Portúgal. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
EM 2017 Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Einn leikmanna íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta spilar gegn Slóvakíu í dag með skothönd sína vel vafða í umbúðir, því hún hefur ekki jafnað sig af úlnliðsbroti frá því á æfingu í síðasta mánuði.

EM 2017

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Einn leikmanna íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta spilar gegn Slóvakíu í dag með skothönd sína vel vafða í umbúðir, því hún hefur ekki jafnað sig af úlnliðsbroti frá því á æfingu í síðasta mánuði. Leikurinn fer fram í Slóvakíu kl. 16 í dag og er sá næstsíðasti hjá Íslandi í undankeppni EM.

Ingunn Embla Kristínardóttir, sem leikur með Grindavík í Dominos-deildinni, er í 12 manna landsliðshópnum sem Ívar Ásgrímsson valdi í vikunni, þrátt fyrir að geta ekki beitt sér að fullu. Hún hefur spilað síðustu leiki með Grindavík en finnur að sjálfsögðu fyrir verkjum í hendinni, og þarf væntanlega að fara í aðgerð eftir tímabilið:

„Jú, þetta er mjög vont, en skánar með hverjum degi. Þetta er ekkert sem ég mæli með,“ sagði Ingunn Embla við Morgunblaðið á æfingu landsliðsins í DHL-höllinni í vikunni, degi áður en liðið hélt utan.

„Ég veit alveg hvað ég get og hvað ég má gera, og passa mig mjög mikið þegar ég er að spila. Ég er ekki að skjóta mikið, sérstaklega á æfingum, og set ekki neina pressu á sjálfa mig um að gera meira en ég þarf að gera. Ívar þjálfari veit af þessu og ég spila bara á æfingum eins og ég get. Ég er bara mjög ánægð með að hafa fengið að vera með þrátt fyrir þetta,“ sagði Ingunn Embla.

„Ég geri þetta í samráði við lækni, er vel teipuð og tek ekki neina áhættu þannig séð. Ef þetta grær allt vel þarf ég svo ekki að fara í neina aðgerð. Ég mun klára tímabilið með Grindavík og sjá svo til,“ bætti hún við.

Íslenska liðið mætir nú til leiks án Helenu Sverrisdóttur og Margrétar Köru Sturludóttur sem báðar eru barnshafandi. Helena hefur verið potturinn og pannan í sóknarleik Íslands um árabil, besti leikmaður þjóðarinnar, og ljóst að hún skilur eftir sig stórt skarð. Í 12 manna hópnum núna eru tveir nýliðar úr Keflavík; þær Emelía Ósk Gunnarsdóttir og Thelma Dís Ágústsdóttir, báðar aðeins 18 ára. Hin 16 ára Birna Valgerður Benónýsdóttir, einnig úr Keflavík, hefur auk þess æft með landsliðinu sem og Ragnheiður Benónísdóttir sem er fjórði nýliðinn í 15 manna æfingahópi.

Kunna körfubolta betur en við sem erum eldri

„Ég er mjög spennt. Við erum náttúrlega með algjörlega nýtt lið, og hlutverkin dreifast mjög mikið núna. Við erum að fá mjög góðar, ungar stelpur inn í liðið. Við komum pressulausar inn í þennan leik, það er ekki búist við neinu af okkur og ég held að það muni róa okkur. Við höfum engu að tapa,“ sagði Ingunn Embla, ánægð með hvernig ungu stelpurnar hafa staðið sig:

„Þær standa sig ótrúlega vel. Þær eru hörkuduglegar og koma náttúrlega úr Keflavík, þar sem best þjálfuðu yngri flokkarnir eru. Þær kunna körfubolta betur en við allar sem erum eldri. Þær passa mjög vel inn og hafa staðið sig ótrúlega vel,“ sagði Ingunn Embla. Hún veit hins vegar vel hve öflugan leikmann vantar þegar Helena er ekki með, gegn sterku liði Slóvakíu sem vann Ísland 72:55 fyrir ári:

„Helena er náttúrlega búin að gera ótrúlega mikið fyrir landsliðið. Hún hefur verið að skjóta, dripla og gera langflest fyrir okkur. Núna eru því komin ný hlutverk fyrir margar sem geta alveg staðið undir því, en hafa kannski ekki fengið tækifæri. Ég hef fulla trú á að nú stígi aðrir leikmenn upp.“

EM 2017
» Ísland mætir Slóvakíu ytra í dag og Portúgal heima á miðvikudag í síðustu leikjum sínum í undankeppni EM.
» Ísland hefur unnið 1 af 4 leikjum sínum og þarf að vinna bæði Slóvakíu og Portúgal til að eiga von um að komast í lokakeppnina í Tékklandi á næsta ári.