Slátrun Íslenska nautakjötið fer allt ferskt á markað og annar ekki eftirspurn. Samkeppnin mun aukast ef heimilt verður að flytja inn hrátt, ófrosið nautakjöt. Þótt tollar og kvótar séu óbreyttir mun það hafa áhrif á markaðinn.
Slátrun Íslenska nautakjötið fer allt ferskt á markað og annar ekki eftirspurn. Samkeppnin mun aukast ef heimilt verður að flytja inn hrátt, ófrosið nautakjöt. Þótt tollar og kvótar séu óbreyttir mun það hafa áhrif á markaðinn. — Morgunblaðið/Skapti
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Dómurinn er það afgerandi að við beinum þeim eindregnu skilaboðum til stjórnvalda að þau kasti hvíta handklæðinu inn í hringinn og lýsi yfir uppgjöf í málinu.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Dómurinn er það afgerandi að við beinum þeim eindregnu skilaboðum til stjórnvalda að þau kasti hvíta handklæðinu inn í hringinn og lýsi yfir uppgjöf í málinu. Og strax og nýtt Alþingi kemur saman verði gerðar nauðsynlegar breytingar á lögum til að fullnægja dómnum,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ). Héraðsdómur hefur komist að þeirri niðurstöðu að sérstakar reglur um innflutning á hráu kjöti samrýmist ekki reglum Evrópska efnahagssvæðisins.

„Mér kemur þessi niðurstaða býsna mikið á óvart. Það má velta því fyrir sér hvort héraðsdómur taki Evrópurétt fram yfir íslensk lög. Ég tel þetta óásættanlegt,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann tekur fram að enn sé verið að fara yfir dóminn í ráðuneytinu og óljóst sé hver viðbrögðin verði. „Persónulega myndi ég vilja gera allt annað en að afnema þetta ákvæði [frystiskylduna],“ segir ráðherrann.

Létu reyna á reglurnar

Lengi hefur verið deilt um hvort Íslendingum sé heimilt að hafa sérstakar reglur um innflutning á hráu kjöti til að draga úr hættu á að hingað berist sjúkdómar. Dróst að innleiða ákvæði matvælatilskipunar Evrópusambandsins af þeim sökum. Einar K. Guðfinnsson, þáverandi landbúnaðarráðherra, lagði tvisvar fram frumvarp um innleiðingu tilskipunarinnar á árunum 2007 til 2009. Þar var gert ráð fyrir að innflutningur á hráu, ófrystu kjöti yrði heimilaður.

Ný stjórnvöld undir forystu Jóns Bjarnasonar, þáverandi landbúnaðarráðherra, felldu út heimild til innflutnings á ófrystu kjöti. Áfram var við lýði og er enn sú regla að innflutt kjöt þurfi að hafa verið fryst í að minnsta kosti mánuð.

Kaupmenn hafa lengi barist gegn þessu undir forystu SVÞ. Að lokum var farið í prófmál þar sem eitt aðildarfélag þess, Ferskar kjötvörur, flutti til landsins lítið magn af fersku nautakjöti og neitaði að láta frysta það. Kjötið komst ekki í gegn um tollinn og var að lokum fargað. Þá fór fyrirtækið í skaðabótamál gegn ríkinu og er nú komin niðurstaða í það.

Vísvitandi og alvarlegt

Undir rekstri málsins var leitað ráðgefandi álits hjá EFTA-dómstólnum. Hann komst að þeirri niðurstöðu að íslensk stjórnvöld hefðu ekki haft frjálsar hendur um setningu reglna um innflutning á hrárri kjötvöru, þar á meðal um frystiskyldu.

Héraðsdómarinn styðst við þetta álit og bætir í. Vísar hann til fyrri tilrauna stjórnvalda til að innleiða tilskipun ESB og kvartana Eftirlitsstofnunar EFTA allt frá árinu 2011 og telur að íslensk stjórnvöld hafi vitað að tilskipunin hafi ekki verið innleidd í íslenskan rétt á fullnægjandi hátt. „Í þessu ljósi var um vísvitandi og alvarlegt brot á samningsskuldbindingum íslenskra stjórnvalda að ræða, sem leiddu til tjóns fyrir stefnanda [Ferskar kjötvörur], sem greitt hafði fyrir kjötið og flutning þess hingað til lands,“ segir í dómnum.

Niðurstaðan varð sú að íslenska ríkinu var gert að greiða Ferskum kjötvörum rúmar 300 þúsund krónur í skaðabætur fyrir nautakjötið sem var eyðilagt og 1.800 þúsund krónur í málskostnað.

Aukin samkeppni í sölunni

Þótt málið snúi að nautakjöti getur það átt við allar kjötvörur sem með góðu móti er hægt að flytja ferskar til landsins, til dæmis svínakjöt. Lögin eru enn í gildi og þótt þessi dómur hafi fallið er ekki búið að opna fyrir innflutning á ófrosnu kjöti. Búast má við því að ríkið áfrýi málinu til Hæstaréttar, þótt það hafi ekki verið ákveðið, til að fá endanlega niðurstöðu. Málið er fordæmisgefandi og varðar breytingar á íslenskum lögum.

Nýtt Alþingi tekur það væntanlega til skoðunar hvort brugðist verði við með því að afnema frystiskylduákvæðið eða hvort aðrar leiðir séu taldar færar.

Verði ákvæðið afnumið mun framboð af ferskum kjötvörum aukast og þar með samkeppni við íslenska kjötið. Innflutt ferskt kjöt verður við hlið íslenskra afurða í kjötborðum verslana. Innflutningstollar og kvótar eru óbreyttir og hafa áhrif á framboð og verð með sama hætti og áður. Þótt of snemmt sé að fullyrða um áhrif á verð á fersku kjöti má gera ráð fyrir að það lækki fremur en hækki.

Nauðsynlegt bann

„Þetta eru mikil vonbrigði. Við treystum því að málinu verði áfrýjað svo hægt verði að framfylgja íslenskum lögum,“ segir Erna Bjarnadóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.

Spurð um áhrif afnáms frystiskyldu á fersku kjöti segir Erna: „Við verðum þá komin í þá stöðu að flytja megi inn hrátt, ófrosið kjöt. Við höfum talið bannið nauðsynlegt til að verja íslenskan landbúnað, búfjárkyn, líffræðilegan fjölbreytileika, matvælaöryggi og lýðheilsu,“ segir Erna og vitnar til ályktunar síðasta Búnaðarþings.

Lögin standast ekki
» Frystiskylda á hráu kjöti var ekki afnumin þegar matvælatilskipun ESB var innleitt.
» Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við það.
» Stjórnvöld hafa varist með rökum um verndun búfjárstofna og lýðheilsu.
» EFTA-dómstóllinn taldi að stjórnvöld hefðu ekki haft heimild fyrir frystireglunni.