Halldór Gunnarsson
Halldór Gunnarsson
Eftir Halldór Gunnarsson: "Við lækkun frítekjumarks úr um kr. 109.000 á mánuði í 25.000 er með svívirðilegum hætti komið aftan að eldri borgurum sem fá lífeyri frá TR."

Haukur Ingibergsson, formaður Landssambands eldri borgara, skrifaði fréttabréf 14.11. sl. til formanna félaga í landssambandinu, þar sem hann þakkaði nýsamþykktar breytingar á lögum um almannatryggingar, „til að einfalda almannatryggingakerfið, draga úr skerðingum og bæta kjör eldri borgara“.

Röng framsetning

Síðan sagði hann, að áætlað væri „að um 11 milljörðum króna hærri fjárhæð renni til almannatrygginga eldri borgara árið 2017“.

Þetta er því miður röng framsetning, því eldri borgarar eru sjálfir látnir greiða þessa 11 milljarða og reyndar mun hærri upphæð, með því að taka af grunnlífeyri, að hluta og öllu leyti til um 25.000 eldri borgara og að lækka frítekjumark úr kr. 109.000 á mánuði í kr. 25.000. Að formaðurinn segi síðan að baráttumál LEB um árabil hafi náðst um að draga úr skerðingum og bæta kjör eldri borgara er, miðað við þá stöðu sem sumir eldri borgarar eru í í dag, vægast sagt öfugmæli.

Lífeyriskerfið

Formaðurinn sagði að lífeyriskerfi eldra fólks væri eitt af grunnkerfum hverrar þjóðar og segir að það hafi verið afrek að ná fram breytingum á kerfinu.

Erfitt er að skilja hvaða afrek hann er að tala um, því þetta kerfi er misnotað af ríkisstjórn og stjórnendum lífeyrissjóða. Rekstur um 30 lífeyrissjóða kostar árlega a.m.k. 10 milljarða á ári. Lífeyrisgreiðslur til eldri borgara, sem eiga að njóta almannatrygginga, eru skertar krónu á móti krónu á móti greiðslum frá lífeyrissjóðum, þannig að skýr eignarréttur einstaklinga á lífeyri frá lífeyrissjóðum er hirtur af ríkissjóði. Að auki lætur ríkissjóður lífeyrissjóðina vera með skatt ríkissjóðs til ávöxtunar eða taps frá réttmætri inngreiðslu til einstaklings, sem hann ætti þá að greiða skatt af, allt fram að útgreiðslu úr sjóðnum, sem hann greiðir þá fyrst skatt af! Þetta fyrirkomulag um að lífeyrissjóðir geymi skattfé ríkissjóðs þekkist hvergi annars staðar í heiminum og hefur komið fram að ríkissjóður hefur tapað háum fjárhæðum á þessu fyrirkomulagi.

Helstu breytingar almannatrygginga um áramótin

Formaðurinn útskýrir í sérstökum kafla þessar breytingar og bætur með skatti, með villandi framsetningu, sem rétt er að útskýra:

Sameining á grunnlífeyri, tekjutryggingu og framfærsluuppbót í einn flokk, nefndur ellilífeyrir, þýðir hækkun fyrir þá sem lægstu greiðslur fá fyrir utan skatt um 15 til 20 þúsund á mánuði, fyrir þá sem búa einir. Fyrir hjón eða sambúðarfólk um 5 þúsund á mánuði. Þetta eru um 15.000 eldri borgarar af um 40.000 eldri borgurum. Um 25.000 eldri borgarar greiða sjálfir þessa hækkun með lækkun og/eða afnámi grunnlífeyris til þeirra! Eru það bætur? Er það ekki millifærsla á fjármunum hjá eldri borgurum, þar sem ríkissjóður leggur enga nýja fjármuni til? Hækkun launa æðstu embættismanna og alþingismanna á þessu ári, 400 til 800 þús. á mánuði, meira að segja að hluta með afturvirkum hætti, sýnir algjöra vanvirðingu við eldri borgara, sem sannarlega ekki er hægt að þakka fyrir. Líklega verða sumir eldri borgarar í hjónabandi eða sambúð að neyðast til að skilja, til að reyna að skrimta, miðað við samþykkt þessara laga.

Frítekjumarkið

Við lækkun frítekjumarks úr um kr. 109.000 á mánuði í kr. 25.000 er komið aftan að eldri borgurum sem fá lífeyri frá TR með svívirðilegum hætti ríkisstjórnarinnar og allra þeirra sem unnu að þessum breytingum og mæltu með þeim.

Formaðurinn skrifaði: „Frítekjumark verður 25.000 kr. á mánuði í heildartekjur (allar skattskyldar tekjur). 45% tekjutenging er eftir frítekjumark þannig að fyrir hverjar þúsund krónur sem farið er yfir frítekjumarkið (25.000 kr.) lækka greiðslurnar frá TR um 450 kr.“

Þarna miðar hann við kr. 1.000 og gleymir skattlagningunni, 370 kr., þannig að sá sem er í þessum sporum fær 180 kr. til sín, af hverjum 1.000 kr. sem hann vinnur sér inn! Hvers konar framsetning er þetta? Hver fer að vinna, frammi fyrir svona skerðingu og skatti? Þeir sem hafa reynt að bjarga sér með því að vinna fyrir um 109.000 kr. á mánuði eins og frítekjumarkið var fyrir lagabreytinguna, halda eftir skattgreiðslu og 45% skerðingu, 32.000 kr. á mánuði – jafnvel minna, því skerðingarnar ná yfir fleiri atriði en áður, að því er virðist til að tryggja Tryggingastofnun alla þá fjármuni, sem mögulegt er að ná í frá eldri borgurum, sem fá lífeyri frá stofnuninni. Svona eru „bæturnar“ – skerðingin miðað við frítekjumark eldri laga. Við þessa skerðingu eru þeir eldri borgarar, sem eru í dag að berjast fyrir því að hafa til hnífs og skeiðar, neyddir til að leita sér að vinnu með „svartri“ greiðslu.

Er þetta markmið laganna, eins og stendur skrifað í 1. grein þeirra: „...skal stuðlað að því, að þeir sem lögin taka til, geti framfleytt sér og lifað sjálfstæðu lífi“?

Höfundur er fyrrverandi sóknarprestur í Holti og formaður kjararáðs EB í Rangárvallasýslu.