Jón Andrés Benediktsson fæddist að Steinadal í Fellshreppi í Strandasýslu 28. febrúar 1938. Hann lést 5. nóvember 2016 á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Sauðárkróki.

Foreldrar Jóns voru Benedikt Þorbjörnsson, f. 20. september 1898, d. 1948, og Aðalheiður Franklínsdóttir, f. 9. júní 1914, d. 2012. Systkini Jóns eru Þorbjörn Jón Benediktsson, f. 1934, Hallfríður Kristrún Benediktsdóttir, f. 1936, d. 2008, Franklín Andri Benediktsson, f. 1941, Sverrir Gunnar Benediktsson, f. 1943, og Stefán Heiðar Benediktsson, f. 1946.

Jón var kvæntur Sigurlaugu Ólafsdóttur, f. 3 júní 1941, en foreldrar hennar voru Ólafur Eiríksson, f. 20. júní 1888, d. 1982, og Sæunn Jónasdóttir, f. 27. mars 1903, d. 1994.

Börn Jóns og Sigurlaugar eru: 1) Guðbjörg Jónsdóttir, f. 30. desember 1963, var gift Reyni Axelssyni, f. 30. desember 1961, d. 2011. 2) Sævar Eiríkur Jónsson, f. 4. febrúar 1965, giftur Sigrúnu Guðjónsdóttur, f. 2. mars 1964. 3) Aðalheiður Valgerður Jónsdóttir, f. 22. nóvember 1966, gift Orra Þór Larsen, f. 5. ágúst 1973. 4) Jónas Líndal Jónsson, f. 1. júní 1968. 5) Rúnar Már Jónsson, f. 18. september 1973, giftur Heiðrúnu Guðmundsdóttur, f. 26. júlí 1973. 6) Nanna Andrea Jónsdóttir, f. 3. mars 1975, gift Guðmundi Kristjáni Hermundssyni, f. 22. júlí 1973.

Jón átti 16 barnabörn og níu barnabarnabörn.

Jón fluttist ungur maður til Akraness og starfaði þar um tíma við verkamannavinnu. Hann fór síðan að vinna hjá Rafveitum ríkisins við lagningu rafmagns víðs vegar um landið og meðal annars í Skagafirði, þar sem hann hóf búskap með eftirlifandi eiginkonu sinni. Fyrstu árin í Skagafirði starfaði hann meðal annars sem mjólkurbílstjóri í Hegranesi og í pakkhúsi Kaupfélags Skagfirðinga við að keyra út fóðurbæti og fleira. Þau fluttu síðan í júní 1976 að Kleif á Skaga og starfaði Jón sem skólabílstjóri í fjórtán ár með búskap. Jón bjó á Kleif á Skaga allt til dánardags.

Útför hans fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 19. nóvember 2016, klukkan 13.

Elsku pabbi

Þín ævi var ei alltaf blíð

og ert þú okkur farinn frá

á enda þetta árastríð.

Þín minning lifir okkur hjá

í hjörtum allra systkina þá.

Kveðja, börnin þín

Aðalheiður Valgerður Jónsdóttir, Nanna Andrea Jónsdóttir og Harpa Lind Larsen Orradóttir.

Elsku pabbi, þá er þrautum þínum lokið. Síðustu mánuðir hafa verið þér erfiðir en þú lést ekki deigan síga og kvaddir okkur með brosi.

Alla mína skólatíð varst þú skólabílstjórinn minn og á ég margar minningar tengdar þeim árum. Það var sjaldan sem féll úr skóladagur vegna veðurs eða ófærðar, þar sem þú vildir helst ekki aflýsa skólanum vegna þess að þú kæmist ekki. Ef hríðin var dimm og vegurinn sást varla keyrðir þú eftir minni, en í eitt skipti brást minnið og þú gleymdir beygju númer tvö frá Kleif og keyrðir út í skurð. Við fengum að vera heima þann daginn en það var einn af fáum dögum sem skóla var aflýst. Oft lá líka við að þú værir búinn að handmoka sköflunum af veginum til þess að koma okkur úr eða í skólann því ekki var mikið um mokstur þá.

Það hefur alltaf verið gott að geta sagst vera dóttir Jóns á Kleif ef ég var spurð hverra manna ég væri. Þú hafðir gott orð á þér alls staðar og naut ég góðs af því. Þú varst ákaflega félagslyndur og var alltaf jafn gaman að fara með þér á þorrablót, þar sem þú söngst hátt og dansaðir mikið. Þú vildir líka helst hafa okkur öll börnin þín hjá þér og hringdir oft til þess að athuga hvort við værum ekki að koma í sveitina ef þig var farið að lengja eftir okkur. Ef systkini mín voru að koma að austan eða vestan beiðstu eins og spenntur krakki á aðfangadag eftir því að þau kæmu og hringdir nokkrum sinnum í þau á leiðinni til að gá hversu langt þau væru nú komin. Þú hringdir líka oft ef þú vissir að við vorum á ferðinni til að athuga hvernig okkur gengi.

Þú varst alltaf barngóður og nutu börnin mín góðs af gæsku þinni og brölluðu margt með afa í sveitinni. Bæði Brynjar og Berglind fengu að leysa hey með þér og fara í dráttarvélina ásamt mörgu fleiru. Þið Bjartur áttuð líka ykkar sérstöku stundir saman þar sem þú söngst meðal annars fyrir hann þessa stöku:

Litla Jörp með lipran fót

labbar götu þvera.

Hún mun seinna á mannamót

mig í söðli bera.

Þú söngs margar fleiri vísur fyrir hann en þessa ætla ég að kenna honum til minningar um þig.

Elsku pabbi og afi, þín er sárt saknað en við vitum að þú ert kominn á betri stað og líður betur með Höddu frænku og Heiðu ömmu. Við elskum þig.

Nanna, Guðmundur, Brynjar, Berglind og Bjartur.

Í dag verður borinn til grafar Jón Andrés Benediktsson.

Ég var ekki há í loftinu þegar ég sá Jón fyrst. Hann var giftur Sigurlaugu frænku minni og kynnist ég honum þegar ég var þar í heimsóknum í sveitinni með foreldrum mínum. Brátt fékk ég að verða eftir í þessum heimsóknum og þó svo að barnahópurinn væri stór var alltaf pláss fyrir aukabörn eins og mig. Þetta þróaðist upp í að ég var hjá þeim í sveit hvert einasta sumar langt fram á unglingsaldur og síðan fór ég í heimsóknir á hverju ári eftir það, enda voru þau eins og mínir aðrir foreldrar.

Þegar ég hugsa til baka og rifja upp minnist ég Jóns með glettnisglampa í augum og stríddi hann okkur krökkunum óspart. Þar sem barnahópurinn taldi sex börn og ég þá það sjöunda var oft ansi fjörugt á heimilinu. Hans mottó var að hér væri nægur tími og nóg pláss. Ég man að eitt sumarið gáfu þau hjónin mér mitt fyrsta lamb. Lambið óx og dafnaði og gaf af sér hinar ýmsu afurðir. Alltaf var passað upp á að ég fengi að njóta þess og hjálpuðu þessi innlegg auralitlum menntaskólanema.

Velvildin sem ég fann og upplifði var veganesti út í lífið og vil ég minnast Jóns með eftirfarandi ljóði:

Hörpu þinnar, ljúfa lag

lengi finn í muna.

Því ég minnist þín í dag,

þökk fyrir kynninguna.

(Á.K.)

Okkar innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Elín, Guðjón og börn.

Það urðu mikil tímamót í gamla Skefilsstaðahreppi árið 1976 þegar nýir ábúendur settust að á fjórum bæjum. Ein þessara jarða var Kleif, svo það þótti heldur betur fréttnæmt þegar þangað fluttist átta manna fjölskylda úr Hegranesinu. Jón og Lauga voru bjartsýn og barnmörg þá og á þeim fjörutíu árum sem Jón bjó á Kleif var léttleikinn ávallt hans förunautur og barnalánið mikið. Sama haust og Kleif komst í ábúð að nýju var skólinn fluttur um set að Þorbjargarstöðum og þá vantaði skólabílstjóra. Og þá hófust kynni okkar Jóns, sem öll mín barnaskólaár sótti mig fyrstan og skilaði síðast að Hrauni. Vegalengdin er fljótfarin í dag en gat verið seinfarin að vetri til meðan vegir voru niðurgrafnir og snjórinn hafði tilhneigingu til að setjast þar og jafnvel hvergi annars staðar. Þá kom sér vel að þrátt fyrir lítil veraldleg efni framan af átti Jón ævinlega nógan tíma og skaflarnir undir Reiðhamrinum, Mallandsskarðinu og víðar máttu sín lítils gagnvart þolinmæði hans.

Það er föstudagur, mjólk og kex í maga og nemendur bíða heimferðar eftir vikudvöl í skólanum. Blái landróverinn kemur heim afleggjarann á Þorbjargarstöðum í léttu blámóðuskýi. Jón stoppar drjúga stund og segir fréttir utan fyrir. Svo er bíllinn fylltur af börnum og dóti svo framendinn rís og þreytuleg áreynslustuna heyrist frá vélinni þegar Jón setur í fyrsta. Á leiðinni upp heimreiðina tekur Jón upp pípuna, treður í með annarri, stingur henni upp í sig á hvolfi og tendrar í. Og síðan hófst það sem í minningunni var órofa hluti heimferðarinnar – söngurinn. Alla leiðina heim eða á meðan einhver tók undir var sungið hástöfum og þar söng Jón manna hæst. Kenndi okkur jafnvel ný lög og vísur. Bláu skólaljóðin sitja því með hjálp Jóns betur í okkur Skagakrökkum þessarar kynslóðar en mörgum öðrum vil ég trúa. Og þó að Jón drykki kaffi á nokkrum bæjum á leiðinni út eftir man ég aldrei eftir því að mér hafi leiðst, til þess var hann bara allt of glaðlyndur og kátur.

Á fyrsta þorrablóti Skagamanna á Fossi veturinn 1977 var fluttur sem oft síðar heimagerður bragur um sveitungana eftir Bjarna á Hvalnesi hvar hann, Brynja og Didda sungu í „allar ráttir“ á miðhæðinni á Fossi. Einhverja hluta vegna eftir þennan fjörutíu ára gamla flutning situr í mér ein vísan og bara ein.

Kleifar Nonni kátur vaskur

kæti ber í sérhvert bú.

Við allan akstur er hann naskur

einnig á oft sögustúf.

Síðar meir þegar ég fór að reyna að hafa ofan fyrir fólki var það ávísun á gleðskap að hafa Jón í salnum, en hann hló jafnan manna hæst sínum smitandi hlátri og dró ekki af sér í söngnum né almennu spjalli enda vinsæll og vinmargur, hjálpsamur og heiðarlegur.

Það var ljóst að hverju stefndi hjá Jóni á réttardaginn í haust. Við áttum þá einlægt spjall þar sem dauðann bar á góma. Æðruleysið var eftirtektarvert og enn til staðar fáum dögum fyrir andlátið þegar við kvöddumst hinsta sinni, hann ugglaust vitandi meira en ég. Hann var sáttur og kveið ekki því sem beið.

Gömlum sveitungum fækkar og ljósin á bæjunum dofna. En fyrir okkur sem trúum á líf eftir dauðann þarf ekki að kvíða ládeyðunni þegar kallið kemur með Jón, Lárus, pabba og öll hin í hópnum. Og ég skal ábyrgjast að þetta verða ekki síðustu línurnar sem settar verða niður á blað um Jón á Kleif.

Megi Guð blessa minningu Jóns og fjölskylduna alla.

Gunnar Rögnvaldsson.

Mig langar að minnast Jóns vinar míns á Kleif í nokkrum orðum.

Jón var maður sem ég sá fyrstu viku lífs míns þar sem Lauga og mamma lágu samtímis á sæng. Næst lágu leiðir okkar saman er ég hóf skólagöngu mína og var Jón skólabílstjórinn, þá nýfluttur í sveitina. Alla mína skólagöngu keyrði Jón mig, föstudaga heim og sunnudaga að heiman. Við þessi kynni bundumst við vinaböndum þótt aldursmunur væri nokkur. Jón var barngóður og hafði óskaplega gaman af því ef maður svaraði honum fullum hálsi. Margt var því skrafað í skólabílnum og sjaldnast hljóð. Ekki var alltaf fljótfarið milli bæja í þá daga, ein eftirminnilegasta ferðin endaði með gistingu á Gauksstöðum og haldið var heim daginn eftir og verið níu tíma, þó með hjálp ýmissa dráttarvéla sveitarinnar. Ferð sem tekur svona 20 mínútur á góðum sumardegi.

Jón var alla tíð góður granni; var það ekki til sem hann vildi ekki aðstoða mann með ef hann gat og var þá allt gert á takk-taxtanum einum.

Fyrir mína litlu sveit er stórt skarð ófyllt með fráfalli Jóns. Jón var félagslyndur maður og hrókur alls fagnaðar á samkomum sveitarinnar og gátu hlátursrokur hans smitað heilan sal af fólki, t.d. á þorrablótum sveitarinnar. Verður hans sárt saknað af þeim er þekktu hann.

Laugu, krökkunum og afkomendum þeirra votta ég samúð.

Halldóra Björnsdóttir.