Sigurbjörg Rannveig Guðnadóttir, eða Systa eins og hún var ævinlega kölluð, fæddist í Vestmannaeyjum 29. desember 1935. Hún lést á Dvalarheimilinu Hraunbúðum 2. nóvember 2016.

Foreldrar hennar voru Anna Eiríksdóttir, f. 24. okt. 1902 í Vestmannaeyjum, d. 4. jan. 1988, og Guðni Jónsson, f. 6. júní 1903 í Vestmannaeyjum, d. 12. febrúar 1944.

Systkini Systu voru Eiríkur Ágúst, f. 1933, d. 1987, Jón Bergur, f. 1934, d. 1935, Gylfi, f. 1937, og Hjálmar, f. 1940, d. 2006.

Systa ólst upp á Vegamótum, húsi sem stóð við Urðarveg en er nú horfið undir hraun. Gagnfræðaprófi lauk hún í Reykjavík frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar.

Að því loknu fór hún aftur heim til Eyja og fór að vinna í Vinnslustöðinni þar sem hún vann næstu 53 árin. Hún byrjaði í bókhaldi, varð svo gjaldkeri og skrifstofustjóri í mörg ár.

Systa giftist 29. des. árið 1956 Guðmundi Herði Þórarinssyni, sem oftast var nefndur Týssi, húsasmið, frá Háeyri í Eyjum, f. 10. des. 1936, d. 1997. Þau voru barnlaus.

Systa og Týssi bjuggu alla tíð í Eyjum, lengst af á Brekkugötu 5, húsi sem þau byggðu sér á sjöunda áratugnum.

Þau stunduðu ferðalög, fóru heimsálfa á milli, fljúgandi og siglandi, léku bæði golf og voru í Golfklúbbi Vestmannaeyja en þar var Systa formaður árin 1989-91, eina konan sem hefur gegnt því starfi.

Systa tók átt í ýmsum öðrum félagsstörfum, m.a. í Oddfellowstúkunni Rebekku nr. 3, Vilborgu, þar sem hún var í stjórn og yfirmeistari um tíma. Hún sat í stjórn Slysavarnadeildarinnar Eykyndils og var í Skátafélaginu Faxa.

Útför hennar fer fram frá Landakirkju í dag, 19. nóvember 2016, og hefst athöfnin klukkan 14.

Systa stóra! Systa systir heitir eftir henni, þannig að það varð okkur systkinunum svo eðlilegt að kalla Systu frænku stóru til að greina á milli þeirra. Hún var ekki bara sú stóra í huga okkar, heldur hafði hún svo stórt hjarta að margir áttu þar stað. Systa stóra og Týssi mættu alltaf í afmælin og gáfu stóra pakka, það var bara alltaf svo gaman í kringum þau, glaðværðin, smitandi hláturinn og uppátækin. Þeir voru margir bíltúrarnir sem þau tóku okkur með í og ísilmurinn fyllti gjarnan bílinn. Það er blessun að eiga svona margar og góðar minningar um hana frænku sem alltaf tók manni vel og varla fór maður út úr húsinu öðruvísi en að eitthvert góðgæti fyllti munninn á leiðinni niður tröppurnar á Brekkugötunni. Það yljaði mér að mæta brosinu hennar þegar við hjónin birtumst á Hraunbúðum, hún hafði gaman af því að vera hugguleg til fara og naut sín vel með starfsmönnum og nábúendum sínum þar. Við kveðjum Systu stóru með söknuði og ekki síður þakklæti fyrir ótal minningar og gefandi samleið í lífinu.

Guðni.

Ég var að leita mér að vinnu með skólanum, þá táningur að aldri, þegar mamma stakk upp á að ég talaði við Systu frænku, því hún starfaði sem skrifstofustjóri hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Ég hringdi og kynnti mig og bað um Systu stóru. Tvær systur mínar sprungu úr hlátri og gerðu gys að óformlegheitunum. Ég fór hjá mér og skellti á og varð af hugsanlega starfinu.

Við kölluðum hana þetta alltaf heima og fyrir mér var hún aldrei önnur en Systa „Stóra“ rétt eins og um millinafn væri að ræða, með stóru S-i. Ekki nóg með að hún væri yfir meðalhæð, heldur var hún mjög göfuglynd með stórt bros og stórt hjarta og sérlega gjafmild. Það var eiginlega skrítið að kalla hana eitthvað annað. Hún bar reyndar mjög fallegt nafn, Sigurbjörg Rannveig, í höfuðið á móðurömmu sinni, en hún var stóra systir pabba og ein systir mín hét í höfuðið á henni, svo við systkinin kölluðum hana alltaf Systu stóru.

Pabbi og hún voru svolítið lík, glaðleg og fríð. Hláturinn hennar er mér mjög minnisstæður, svo dillandi með örlitlu flissi inni á milli.

Þegar við systkinin vorum yngri fylltumst við eftirvæntingu þegar til stóð að fara í heimsókn til Systu og ekki skemmdi fyrir stríðnin í Týssa heitnum. Gestrisnin var einstök og alltaf eitthvað skemmtilegt að bralla. Hún var uppáhaldsfrænka, ein af fyrirmyndunum, skaraði fram úr í því sem hún tók sér fyrir hendur. Það geta ekki margir státað af Íslandsmeistaratitli í golfi, en það gat hún. Hún ferðaðist víða, ekki síst út af golfinu og færði okkur oft og iðulega nammi þegar heim kom, jafnvel gjafir frá stöðunum sem hún og Týssi heimsóttu.

Hún átti sína harma, hún missti föður sinn ung að aldri og hjálpaði til við að hugsa um tvo yngri bræður sína. Sjálf fékk hún berkla sem barn, þar af leiðandi varð henni og Týssa ekki barna auðið. Kannski þess vegna var hún svo natin við okkur og mörg önnur frændsystkini, börn systkina sinna og hans.

Hún var eiginlega upphafsmaður „bökunarfríanna“ fyrir jólin, líkt og Reykjavíkurborg veitir nú starfsmönnum sínum, en hún bauð okkur systkinunum stundum heim einn laugardag í desember til að föndra, sem gaf mömmu þá svolítið rými til að baka eða kaupa jólagjafir. Þá vantaði ekki nokkurn hlut, hún var búin að kaupa nýjustu jólaföndurblöðin og allt efni sem til þurfti til að gera kramarhús, fléttaða nammipoka á jólatréð, servíettuhringi og alls kyns skraut. Ekki klikkuðu veitingarnar heldur og fengum við ávexti, smákökur, nammi og gos eins og við gátum í okkur látið. Góðgætið var nýtt til fullnustu sem kostaði stundum uppköst um nóttina hjá sumum systkinanna. Þegar við vorum vaxin úr grasi sendi hún jólagjafir og sængurgjafir til barnanna okkar þegar þau fóru að koma í heiminn og var með puttann á púlsinum hvað tísku snerti.

Síðustu árin þegar ég var að heimsækja hana á elliheimilið í Eyjum, síðast í sumar, var hún sama yndislega Systa stóra, með sinn dillandi hlátur.

Nú er ævi hennar á enda og ég á þá von að hitta hana aftur hjá Guði, föður okkar á himnum. Blessuð sé minning hennar.

Ásta Hjálmarsdóttir.

Í dag kveðjum við elskulega föðursystur mína, hana Systu, hinstu kveðju.

Á æskuheimili mínu, Vegamótum, var hún ávallt kölluð Systa stóra, til aðgreiningar að eitt af okkur systkinunum ber nafnið hennar. Stóra gat líka átt við, að allt sem hún var okkur krökkunum var stórt. Hvort sem það var hlýjan, góðmennskan eða móttökurnar á Brekkugötunni, sama hvar bar niður. Allt var stórt.

Ég vil þakka þér, elsku Systa, fyrir samferðina og fyrir það sem þú varst mér og mínum. Þú varst okkur svo kær. Blessuð sé minning þín.

Kveðja,

Anna Kristín.

Kynni okkar Systu hófust þegar við Hjalli, maðurinn minn og bróðir hennar, fórum að vera saman. Alla tíð var hún einstök vinkona, kærleiksrík og góð. Hún var í miklu uppáhaldi hjá börnunum okkar, það var alltaf gaman að koma á Brekkugötuna til hennar og Týssa, þau höfðu alltaf tíma. Ein dóttir okkar Hjalla ber nafnið hennar, sem veitti henni mikla gleði. Blessuð sé minning hennar.

Kristjana (Dadda).

Í dag kveð ég elskulega föðursystur mína Sigurbjörgu R. Guðnadóttur, sem oftast var kölluð Systa.

Ég hef alltaf verið stolt af því að bera nafnið hennar Systu frænku vegna þess hve vænt mér þótti um hana og hve góð hún var mér alla tíð. Á yngri árum okkar systkinanna kölluðum við hana alltaf Systu stóru til að greina okkur nöfnurnar í sundur. Það var sannarlega réttnefni vegna þess hve stórt hjarta hún hafði og var svo einstaklega gjafmild og hlý.

Æskuárin mín eru lituð af ótal yndislegum minningum um Systu og Týssa. Þau voru á háum stalli í huga okkar systkinanna og í miklu uppáhaldi enda sýndu þau okkur sanna væntumþykju og tóku okkur ævinlega fagnandi. Það var ósjaldan á sunnudagsmorgnum sem við systkinin röltum upp á Brekkugötu því við vissum að þar kæmum við ekki að tómum kofanum. Eflaust hafa þau stundum viljað sofa ögn lengur en alltaf tóku þau á móti okkur með opinn faðminn og breitt bros. Var okkur þá boðið inn í stofu þar sem Systa dró fram ýmislegt góðgæti og Týssi sagði skemmtilegar sögur, sýndi töfrabrögð eða við litum í myndaalbúm af mörgum ferðalögum þeirra.

Í desember á hverju ári bauð Systa okkur í jólaföndur og var það orðinn fastur liður á aðventunni og þess ávallt beðið með mikilli eftirvæntingu hjá okkur systkinunum. Var þá á boðstólum alls kyns föndur og kruðerí eins og smákökur og konfekt sem féll vel í kramið hjá okkur krökkunum. Afraksturinn var svo alls kyns jólapokar, jólasveinar og annað skraut. Gjafmildi þeirra Systu og Týssa sýndi sig vel á afmælum og jólum og glöddu þau okkur svo margoft með veglegum og fallegum gjöfum. Dúkkuvagninn sem ég fékk frá þeim í sex ára afmælisgjöf er gott dæmi um það enda var hann sá flottasti sem ég hafði séð og margar litlar vinkonur sem litu hann hýru auga.

Í dag segi ég börnunum mínum sögur af uppáhaldsfrænku minni þegar ég var á þeirra aldri og hafa þau sjálf fengið að njóta gjafmildi hennar. Í þau skipti sem við höfum heimsótt hana á Elló nú í seinni tíð í ferðum okkar til Eyja hefur hún iðulega gaukað að þeim pening eða náð í litlar styttur úr hillunni hjá sér til að gefa þeim.

Það eru ótal minningar um hana Systu frænku sem munu ylja okkur um ókomin ár. Þó að heimsóknirnar hafi verið færri í seinni tíð þá á hún alltaf sérstakan stað í hjarta mér.

Elsku Systa, ég kveð þig með þakklæti fyrir einstakan kærleika þinn og gjafmildi. Farðu í friði og góður Guð þig geymi.

Þín frænka og nafna,

Sigurbjörg R.

Hjálmarsdóttir.

Nú er ég kveð Systu í hinsta sinn er mér efst í huga þakklæti og gleði að hafa átt hana að. Ég var lánsamur að hafa fengið að búa hjá Systu og Týssa á mínum unglingsárum í Vestmannaeyjum og minnist ég þess tíma með gleði í hjarta. Á þeim árum stundaði ég fótbolta af kappi og var hvatning þeirra og stuðningur ómetanlegur. Það var alltaf svo bjart yfir þeim Systu og Týssa og mikil gleði á heimilinu og leið mér ávallt vel hjá þeim. Golfið átti hug þeirra allan og má segja að golfáhugi minn hafi kviknað í kringum þau og áttum við þetta áhugamál alltaf sameiginlegt. Systa var alltaf tilbúin að gera allt fyrir alla og var ég þar engin undantekning. Því mun ég aldrei gleyma. Eins erfitt og það er að kveðja hana þá yljar það að vita af henni hjá elsku Týssa. Að leiðarlokum þakka ég elsku Systu fyrir allt sem hún var mér.

Sofðu, hvíldu sætt og rótt,

sumarblóm og vor þig dreymi!

Gefi þér nú góða nótt

guð, sem meiri' er öllu' í heimi.

(G. Guðmundsson)

Hvíl í friði, elsku Systa.

Samúel (Sammi).

Fyrirtæki er og verður aldrei annað en fólkið sem þar vinnur. Starfsfólkið skapar í sameiningu menningu vinnustaðarins og fátt er eftirsóknarverðara í fyrirtæki en lipurð, gott viðmót og dugnaður. Einmitt þetta einkenndi Systu, Sigurbjörgu R. Guðnadóttur, starfsmann Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum í 52 ár. Eftirminnileg nærvera hennar leitar mjög á hugann á kveðjustundu. Hún hóf störf á skrifstofu fyrirtækisins 18 ára gömul og hætti þegar hún varð sjötug. Systa var andlit Vinnslustöðvarinnar í liðlega hálfa öld, tók einkar hlýlega á móti fólki, svaraði í síma með þýðri rödd og vann að bókhaldi, launamálum og öðrum skrifstofustörfum.

Það voru erfiðir tímar í Vinnslustöðinni fyrst eftir að undirritaður tók við sem framkvæmdastjóri. Starfsfólk upplifði óvissu og öryggisleysi um störf sín og skynjaði reyndar vel að ekki væri gefið mál að sjálft félagið lifði af erfiðleikana sem að steðjuðu. Ekkert fékk hins vegar haggað ró Systu, þótt undir niðri hafi óvissa eflaust nagað hana líka. Hún hugsaði vel um alla og í morgunkaffinu á föstudögum tók hún til hliðar væna sneið af hefðbundinni köku dagsins fyrir þann sem ekki hafði tök á að mæta í kaffið á réttum tíma. Þeirra sneiða fékk ég oft að njóta.

Systa var trú sínu fólki og vinnustaðnum sínum ævina á enda. Í sumar var tekið við hana óbirt viðtal í tilefni sjötugsafmælis Vinnslustöðvarinnar núna í desember.

Þá kvaðst hún eingöngu eiga góðar minningar frá starfsferlinum og yljaði sér við þær. Aldrei hefði hvarflað að sér að skipta um vinnustað.

Það er lán hvers fyrirtækis og samstarfsmanns að njóta starfskrafta fólks eins og Systu. Hún var sannkölluð kjölfesta sem tók breytingum sem eðlilegum hlut og vann að þeim af heilum hug. En nú er hún öll og fyrir hönd Vinnslustöðvarinnar og samstarfsmanna þakka ég henni samfylgdina. Hún sagði í sumar að bjart væri yfir Vinnslustöðinni. Við segjum á móti: Það mun alltaf ríkja mikil birta og hlýja í kringum minningu okkar um Systu.

Sigurgeir B. Kristgeirsson.