Kristín Marja „Saga kvennanna er mikil og áhugaverð og höfundur nær að skila andanum í þorpinu til lesandans sem finnst hann verða hluti af því,“ skrifar rýnir um nýja skáldsögu höfundarins og segir hana vel skrifaða.
Kristín Marja „Saga kvennanna er mikil og áhugaverð og höfundur nær að skila andanum í þorpinu til lesandans sem finnst hann verða hluti af því,“ skrifar rýnir um nýja skáldsögu höfundarins og segir hana vel skrifaða. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristínu Marju Baldursdóttur. JPV 2016. Innbundin, 381 bls.
Svartalogn er ellefta ritverk Kristínar Marju Baldursdóttur. Þekktust þeirra eru sögurnar um listakonuna Karitas og í Svartalogni má segja að hún færi Karitas í nútímabúning að vissu leyti. Það er samsvörun með sögunum þó aðalpersónan sé ekki listakona né listræn en hún kann að njóta lista og greiðir leið listafólksins svo aðrir geti gert það líka. Málningarvinna verður líka örlagavaldur í lífi hennar og einskonar sáluhjálp.

Í Svartalogni segir frá Reykvíkingnum Flóru Garðarsdóttur sem er fráskilin og atvinnulaus kona á sextugsaldri. Sagan hefst þar sem hún kemur í þorp á Vestfjörðum í kafaldssnjó. Hún hefur samþykkt að mála þar gamalt hús sem tengdaforeldrar sonar hennar eiga. Nokkrum mánuðum áður er Flóru sagt upp vinnunni, yfirmönnunum fannst hún svolítið innrömmuð og losuðu sig við hana fyrir yngri starfskraft. Áfallið yfir atvinnumissinum er mikið og ekki bætir úr skák að hún fær hvergi aðra vinnu en konur á hennar aldrei þykja ekki eftirsóttir starfskraftar. Þegar hún áttar sig á því sækir á hana mikil reiði sem verður til þess að sonur hennar útvegar henni verkefni fyrir vestan.

Flóra hefur málningarvinnuna í þröngu búri hússins sem lýsir þeim stað sem hún er þá á í lífinu. Hún nýtur þess að velta sér upp úr atvinnumissinum og leyfir sér að detta í neikvæðar hugsanir svo hún þarf að hverfa frá málningarvinnunni og skríða undir sæng. Flóra er kona kynslóðar sem var alin upp við að vera alltaf stillt og prúð. Hún er mótuð af uppeldinu og viðhorfi samfélagsins til kvenna. Hún er fyrirmyndarhúsmóðir í ömurlegu hjónabandi og góður starfskraftur á vinnustað sem kann ekki að meta hana. Hún tekur öllu þegjandi og hljóðalaust og lætur vaða yfir sig. En dvölin í þorpinu, sem virðist í upphafi ætla að vera áframhald á ömurlegheitunum, verður til þess að Flóra kynnist sér betur og fer að blómstra. Hún málar sig út úr búrinu og yfir í stærra rými og það er skemmtilegt hvernig málningarvinna Flóru er látin endurspegla hugarlíf hennar. Í þorpinu fær Flóra ekki að kúldrast undir sæng, þar er gerð krafa til hennar sem virks þjóðfélagsþegns.

Örlagarík búðarferð verður til þess að Flóra kynnist Petru sem er organistinn í kirkjunni og tónskáld. Draumur Petru er að flytja stórt tónverk um páskana en til þess þarf hún söngkonur. Þær bestu eru þrjár útlenskar konur sem vinna í frystihúsinu. Petra fær Flóru til að kenna þeim íslensku svo þær geti borið söngtextann rétt fram. Verða kynni þessara kvenna; Flóru, Petru, Juane, Aniu og Evu til þess að líf þeirra allra breytist til betri vegar. Konurnar fimm tilheyra hópum kvenna sem lítið fer fyrir og saman brjótast þær áfram og láta í sér heyra. Þetta er saga um það hverju samstaða og kraftur kvenna getur áorkað. Þegar Flóra kemst smám saman út úr búrinu fær lesandinn að kynnast hvað í henni býr og hvernig hún getur verið örlagavaldur í lífi sínu og annarra, hún er allt í einu orðin ein af driffjöðrum þorpsins.

Persónusköpun kvennanna er sannfærandi en karlarnir, sem koma annars lítið við sögu, eru klisjukenndir. Einn er feitur og einfaldur og hugsar bara um mat, annar ofbeldisfullur, þriðji ríkur skíthæll og annar lauslátur og svo mætti áfram telja. Þó um kvennasögu sé að ræða þarf ekki að hafa alla karlana ömurlega og það er helsti annmarki sögunnar. Eini almennilegi karlinn er Bandaríkjamaður sem Flóra kynnist í Boston, þau tengja vel en hann er eiginlega of fullkominn til að vera sannur.

Heiti verksins, Svartalogn, vísar til veðrafyrirbrigðis. Þegar það er svo mikið logn í fjörðum að fjallskugga slær á sjóinn. Kaflaheitin tengjast líka veðrinu og vísa til þess sem koma skal, veðraheiti lýsa svo mörgu öðru en veðrinu sjálfu.

Svartalogn er vel skrifuð og sannfærandi samtímasaga sem heldur lesandanum við efnið þrátt fyrir að vera hátt í 400 blaðsíður. Saga kvennanna er mikil og áhugaverð og höfundur nær að skila andanum í þorpinu til lesandans sem finnst hann verða hluti af því, maður vill taka þátt í samfélaginu og leggja sitt af mörkum til lífsins eftir lesturinn og það eru góðar skáldsögur sem hafa slík áhrif.

Ingveldur Geirsdóttir