Þorbjörn Bergsteinsson fæddist að Ási í Fellum 1. desember 1926. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Dyngju Egilsstöðum 10. nóvember 2016.
Foreldrar hans voru hjónin Margrét Jónsdóttir (1894-1969) og Bergsteinn Brynjólfsson, bóndi á Ási í Fellum (1891-1973). Þorbjörn var annar í röð átta systkina, eftirlifandi er Jón (1932), en látin eru; Rósa (1924-2016), Brynjólfur (1928-2014), Ragnar (1929-1932), Þorbjörg (1931-2016), Einar Óskar (1934-1941) og Ragnheiður (1939-1946).
Þorbjörn ólst upp á Ási hjá foreldrum, systkinum og frændsystkinum fram á fullorðinsár. Árið 1962 var lagður af búskapur á Ási og fluttust þau Þorbjörn og Þorbjörg þá með foreldrum sínum í Egilsstaði, þar sem þau byggðu húsið að Selási 18. Þar bjuggu þau Þorbjörg lengst af, fyrstu árin með foreldrum sínum meðan þeir lifðu, en síðan héldu þau systkinin þar heimili. Árið 2003 fluttu þau síðan að Miðvangi 18, en síðustu árin dvaldist Þorbjörn á hjúkrunardeildunum á Egilsstöðum.
Þorbjörn gekk í farskóla sem barn, veturna 1945-1947 stundaði hann nám á Bændaskólanum á Hvanneyri og veturna 1967-1969 við Iðnskóla Fljótsdalshéraðs á Egilsstöðum og lauk þaðan sveinsprófi í húsasmíði.
Meðan búið var á Ási sinnti Þorbjörn þeim sveitastörfum sem til féllu eins og venja var. Hann stundaði einnig ýmsa vinnu utan heimilis, m.a. við endurbyggingu Lagarfljótsbrúarinnar 1956. Eftir að hann flutti í Egilsstaði vann hann ýmis störf, var m.a. í vegavinnuflokki Helga Gíslasonar á Helgafelli og vann fyrir sveitunga sinn Grétar á Skipalæk við byggingu söltunarstöðva á Seyðisfirði. Eftir að hafa lokið sveinsprófi 42 ára gamall hóf hann að störf við húsasmíðar og vann við þær til starfsloka, lengst af hjá fyrirtækinu Brúnás hf.
Útför Þorbjörns fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 19. nóvember 2016, og hefst athöfnin kl. 11. Jarðsett verður í grafreitnum á Ási.
Heiðursmaður er fallinn frá. Þorbjörn föðurbróðir var hæglátur maður sem bar ekki tilfinningar sínar á torg. Hann var afar bókhneigður, stálminnugur og fróður, ættfræðingur, góður briddsspilari, hafði fastmótaðar skoðanir á flestum hlutum. Hafði gaman af rökræðum en ekki endilega til í að gefa eftir sína skoðun enda oft vel ígrunduð. Hann var fastur fyrir, þrjóskur.
Þorbjörn var bóndasonurinn frá Ási sem lærði búfræði en ól sinn aldur lengst af á Selásnum á Egilsstöðum þar sem hann og Tobba systir hans, sem lést fyrir nokkrum vikum, héldu sitt heimili. Hann lærði húsasmíðar á fullorðinsaldri og vann lengst af við þá iðn.
Menntskælingurinn, sem á sínum tíma naut þeirra forréttinda að búa á heimili þeirra systkina í þrjú sumur, minnist Þorbjörns sem strangheiðarlegs manns, sem var skýrt mótaður af uppruna sínum og æsku í sveitinni á Ási.
Manns sem vildi öllum vel og sinnti störfum sínum af samviskusemi, í hljóði. Manns sem vildi miðla af fróðleiksbrunni sínum til unglingsins, vildi rökræða, vildi kannski tengja hann við uppruna sinn og rætur.
Heimili þeirra systkina á Selásnum varð, fyrrum menntskælingnum og fjölskyldu hans alla tíð síðan, fastur, fagnandi, áfangastaður á Héraðinu.
Hinn hægláti heiðursmaður hefur nú fengið þráða hvíld eftir langa lífsgöngu. En minningin um mætan mann mun lifa.
Jón Steinar Jónsson.
Þegar Bjössi er kvaddur er margt sem kemur upp í hugann. Hann var bókhneigður, sílesandi jafnt skáldskap, ævisögur og annan þjóðlegan fróðleik, blöð og tímarit. Hann átti myndarlegt bókasafn og leitaði ég oft í það til að seðja lestrarfýsnina. Merkilegastar held ég að mér hafi samt þótt ævintýrabækur um baráttu indíána og landnema í Ameríku, sem ég fann neðst í koffortinu hans eitt sinn, og held að ég hafi lesið upp til agna! Hann fylgdist alla tíð vel með því sem efst var á baugi hér heima og erlendis og hafði sterkar skoðanir á því sem gerðist í heimi hér hverju sinni. Það var því auðvelt fyrir pólitískan og þrætugjarnan ungan mann eins og mig að lenda í botnlausu þrasi við hann um landsins gagn og nauðsynjar, því ekki vorum við nú alltaf sammála.
Við áttum sem sagt víða samleið; í smalamennsku að hausti við húsasmíðar að sumri og ekki síst í spilamennsku að kvöldi. Þar áttum við sameiginlegt áhugamál. Við vorum par í briddssveit eina tvo vetur. Við vorum nú engir snillingar en að hætti Ásmanna stigum við varlega til jarðar og fórum ekki fram úr okkur með vafasömum geimum eða slemmum. Útkoman varð sú að við gerðum ekki stórar gloríur en misstum kannski af einum og einum toppi. Þetta, og góðir meðspilarar, skilaði okkur í úrslit í Austurlandsmóti í sveitakeppni eitt sinn fyrir margt löngu, og öllum til undrunar, og ekki síst okkur sjálfum, stóðum við uppi sem sigurvegarar. Mér er minnisstætt hvernig síðustu spilin tóku á frænda minn, hann var alveg gáttaður á því hvað spilin lágu illa og ég sagði vitlaust, en að lokum enn gáttaðri þegar hann sigldi síðasta spilinu í höfn og þar með sigrinum. Ég hafði vit á að hætta þarna á toppnum en Bjössi spilaði alla tíð af miklum krafti meðan heilsa og kraftar entust. Ég held svei mér þá að ég verði að finna verðlaunagripinn og hengja hann upp á vegg til heiðurs frænda mínum.
Þau systkinin lifðu langa ævi og má segja að þau hafi öll látist södd lífdaga. Á þessari kveðjustund finnst mér eins og við séum að kveðja þau öll, og hryggð okkar þeirra sem eftir lifa er ekki bara hryggð vegna lífs sem er lokið heldur einnig söknuður eftir því umhverfi sem þau systkinin mótuðu eitt sinn í svo ríkum mæli.
Óli Grétar Metúsalemsson.
Það er alltaf erfitt að þurfa að þiggja af öðrum hjálp við daglegar athafnir, en gott að vita að til sé fólk sem leggur sig fram um að gera það sem þarf. Þessi síðustu ár hef ég séð hversu gott starf er unnið á heimilum fyrir fólkið sem ekki getur lengur séð um sig sjálft.
Ég vil senda starfsfólki Dyngju á Egilsstöðum bestu þakkir fyrir góða umönnun og hlýhug í garð Þorbjörns. Þá vil ég þakka þeim Guttormi og Snædísi sérstaklega fyrir hversu óþreytandi þau hafa verið við að sinna þeim systkinum báðum, Bjössa og Tobbu, þau hafa svo sannarlega lýst upp tilveruna hjá þeim þessi síðustu ár.
Blómin falla bleik í dá,
bylgjuhallir rjúka,
breiðist mjallarblæja á
bera fjallahnjúka.
(Jón Sigfússon Bergmann)
Hafðu þökk fyrir allt, frændi minn,
Margrét Brynjólfsdóttir.