[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigrúnu Pálsdóttur. Smekkleysa, 2016. 166 bls.

Ný bók Sigrúnar Pálsdóttur, Kompa , er fyrsta skáldsaga hennar en tvær fyrri bækur Sigrúnar byggðust báðar að stórum hluta á sagnfræðilegum heimildum.

Fræðimennskan er þó ekki víðs fjarri, því sagan fjallar um unga fræðikonu sem gerir merkilega uppgötvun á 365 ára gömlu handriti sem verður efni í margra ára rannsókn og 600 blaðsíðna doktorsverkefni. Doktorsverkefni sem hún á síðustu metrunum hættir við að ljúka þegar hún uppgötvar að henni yfirsást mikilvægt atriði í handritinu, sem gjörbreytir þeim forsendum sem hún gaf sér fyrir niðurstöður sínar, vinnan virðist hafa verið unnin til einskis.

Fræðikonunni er fylgt eftir, hvernig hún í örvæntingu reynir að fresta vandanum með því að grípa til örþrifaráða, hún frestar námslokum sínum í Bretlandi og flytur til Íslands með eiginmanni sínum þar sem tilveran verður undirlögð af martraðarkenndri og yfirvofandi ógn um að upp komist um hana.

Þetta stef; að lesa eins mikið og hægt er úr litlu í sagnfræðinni og leggja eins og framast er unnt út af fáum vísbendingum færist yfir á allt líf sögupersónunnar. Hún les í umhverfi sitt, fjölskyldu og vini með því að ímynda sér mikið út frá litlu. Lesandanum verður það smám saman ljóst að sjónarhorn fræðikonunnar er ekki endilega heilagur sannleikur, án þess að vera lygi, því eins og vitni eru ekki óskeikul, er okkar sjónarhorn alltaf aðeins okkar sjónarhorn. Okkar upplifun af ákveðnum atburði er ekki endilega sú sama og upplifun annarra af sama atburði. Magnaðast er það þegar lesandinn uppgötvar að aðrar persónur sögunnar hafa gjarnan verið útmálaðar á ósanngjarnan hátt af fræðikonunni. Sú sem var sögð lævís er í raun sú sem býr yfir mestu gæskunni. Inn í þetta spila líka veikindi konunnar, mígreni, sem einangra hana og kalla fram sterkar myndrænar skynjanir.

Kompa er óvenjuleg saga, með spennuþrungnu ívafi, afar sérstöku og nostursamlegu handbragði í texta, sem gerir hann fágaðan og fallegan. Sumir kaflar draga upp sérlega magnaðar og óhugnanlegar sviðsetningar sem minna á efnismiklar leikmyndir. Á einstaka stað er stundum eins og fullmikið sé nostrað við einstök smáatriði, lesandinn þarf að vera eftirtektarsamur svo hann detti ekki af baki og fylgi höfundi eftir. Á móti kemur að þetta er bók sem lesendur geta eflaust hugsað sér að lesa aftur með tilliti til alls þess sem er hægt að taka eftir í annarri yfirferð. Eftirvæntingin eftir því sem er yfirvofandi ætti þó að halda honum vel vakandi.

Kompa er magnþrungin saga sem færir lesandanum afar eftirminnilega lestrarupplifun og þrátt fyrir alvarlegan undirtón er í honum hárfínn lágstemmdur húmor.

Júlía Margrét Alexandersdóttir