— Morgunblaðið/hag
Kristján H. Johannessen khj@mbl.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Farið var yfir þetta mál á stjórnarfundinum [í gær] og fékk ég mjög jákvæð viðbrögð við því að ráðist verði í aðgerðir til að breyta þessu ástandi,“ segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, en á fundi stjórnar Strætó sem haldinn var 21. október síðastliðinn var kynnt minnisblað um stöðu farþegaþjónustunnar og símsvörun í þjónustuveri fyrirtækisins.

Þar kemur fram að símsvörun í þjónustuverinu hefur versnað verulega vegna niðurskurðar á yfirstandandi ári og var svörun sögð „óásættanleg“, en hún var í ágúst síðastliðnum 67,3% og 60% í september.

„Við erum vongóð um að ná þessu hlutfalli töluvert upp á næstu vikum,“ segir Jóhannes Svavar og bendir á að þessi litla símsvörun sé m.a. afleiðing þess að starfsfólki í þjónustuveri hafi verið fækkað.

Að sögn hans er nú stefnt að því að fjölga um einn starfsmann í verinu og ætti það að skila sér í „ásættanlegu“ svarhlutfalli.

Spurður hvað sé ásættanlegt svarhlutfall í þjónustuveri svarar Jóhannes Svavar: „Svarhlutfall í þjónustuverum er einhvers staðar á bilinu 75 til 80 prósent. Við viljum stefna þangað.“