Hljóðfærahúsið Starfsmenn í búðinni f.v.: Arnar Freyr Gunnarsson, Guðmundur Benediktsson, Arnar Gíslason, Jóhann Rúnar Þorgeirsson, Jón Kjartan Ingólfsson og Sindri Már Heimisson framkvæmdastjóri.
Hljóðfærahúsið Starfsmenn í búðinni f.v.: Arnar Freyr Gunnarsson, Guðmundur Benediktsson, Arnar Gíslason, Jóhann Rúnar Þorgeirsson, Jón Kjartan Ingólfsson og Sindri Már Heimisson framkvæmdastjóri. — Morgunblaðið/Eggert
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Í tilefni af 100 ára afmæli Hljóðfærahússins verður boðið til tónlistarveislu í versluninni að Síðumúla 20 í dag, laugardag, milli klukkan 14 og 17. Allir eru velkomnir.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Í tilefni af 100 ára afmæli Hljóðfærahússins verður boðið til tónlistarveislu í versluninni að Síðumúla 20 í dag, laugardag, milli klukkan 14 og 17. Allir eru velkomnir.

Fram koma Skólahljómsveit Kópavogs, Soffía Björk, Sálin og Mugison og þá munu félagarnir Einar Valur Scheving, Þórir Baldursson og Sigurður Flosason leika djass.

Hljóðfærahúsi Reykjavíkur tók til starfa í Templarasundi 3 í Reykjavík þann 21. nóvember 1916. Stofnandi var dönsk kona, Anna Ellen Christense-Hejnæs, sem tók upp nafnið Anna Friðriksson þegar hún giftist Ólafi Friðrikssyni, ritstjóra og bæjarfulltrúa, sem var þekktur maður á sinni tíð. Tónlistin var henni eðlislæg í æsku enda lærði hún að spila á píanó sem fylgdi henni þegar hún flutti til Íslands.

Í fróðlegri samantekt Jónatans Garðarssonar er m.a. vitnað í eftirfarandi auglýsingu í Morgunblaðinu 1. desember 1916: Ég hefi einkasölu fyrir hinar alþekktu hljóðfæraverksmiðjur Petersen & Steenstrup og T.M. Hornung & Sönner. Nokkur piano, harmonium og gitarar til sýnis. Pósthússtræti 14 (hornið á Templarasundi). Anna Friðriksson. Opið kl. 1-4 og 7-8. Anna hóf síðar að selja hljómplötur og leðurvörur. Einnig hóf hún starfsemi tónleikamiðlunar 1926 og á hennar vegum komu margir merkir tónlistarmenn til landsins fram að seinni heimsstyrjöldinni. Anna lést árið 1960 og var hennar hlýlega minnst, m.a. af Páli Ísólfssyni tónskáldi.

Hljóðfærahúsið hefur starfað á mörgum stöðum í borginni á löngum starfstíma. Á sjöunda áratug síðustu aldar keyptu bræðurnir Árni og Jóhann Ragnarssynir reksturinn. Þeir ráku Hljóðfærahús Reykjavíkur allt þar til Jón Ólafsson í Skífunni keypti verslunina árið 1988. Hljóðfærahúsið var rekið sem deild innan Skífunnar allt til ársins 2006 er reksturinn var seldur Lyfjum og heilsu og Sindra Má Heimissyni, sem eru núverandi eigendur. Fyrirtækið keypti Tónabúðina á Akureyri 2008 og sameinaði rekstri sínum í Reykjavík en Tónabúðin er áfram á Akureyri og fagnar fimmtíu ára afmæli sínu, er stofnuð 1966.