Sauðárkrókur Sveitarfélagið Skagafjörður vinnur að tillögum um hvernig megi byggja upp og vernda „gamla bæjarhlutann“ á Sauðárkróki.
Sauðárkrókur Sveitarfélagið Skagafjörður vinnur að tillögum um hvernig megi byggja upp og vernda „gamla bæjarhlutann“ á Sauðárkróki. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sveitarfélagið Skagafjörður hlaut nýverið tvo styrki úr húsafriðunarsjóði til undirbúnings á tillögum að verndarsvæðum í byggð. Styrkirnir snúa annars vegar að „gamla bæjarhlutanum“ á Sauðárkróki og hins vegar að kvosinni á Hofsósi.

Sveitarfélagið Skagafjörður hlaut nýverið tvo styrki úr húsafriðunarsjóði til undirbúnings á tillögum að verndarsvæðum í byggð. Styrkirnir snúa annars vegar að „gamla bæjarhlutanum“ á Sauðárkróki og hins vegar að kvosinni á Hofsósi. Viggó Jónsson, formaður skipulags- og byggingarnefndar Skagafjarðar, segir hugmyndir hafa legið í loftinu í nokkurn tíma. „Við höfum verið að velta þessum svæðum fyrir okkur. Hvernig við viljum skilgreina þau og hvernig við viljum að þau líti út til framtíðar.“

Viggó segir að tillögur verði unnar í samráði við íbúa en bæði svæðin eru hluti af gamalli byggð. „Við viljum byggja upp og vernda það sem fyrir er, þannig að það tóni við þessa gömlu mynd. Sauðárkrókur var einu sinni klofinn með Sauðá en ánni var breytt og nú fer hún í aðra átt. Bærinn hefur þar af leiðandi breyst en það eru örnefni og annað í bænum sem við viljum vinna með.“

Viggó segir verkefnin snúa bæði að íbúum sveitarfélagsins og ferðamönnum. „Við erum að reyna að kortleggja hvað það er sem er áhugavert við þessa staði. Þetta snýst líka um að horfa til ferðamannsins. Að hann vilji koma, staldra við hjá okkur og skoða.“