Hola Hola-leikhópurinn flytur verkið Kólumbus í Norðurhöfum á íslensku.
Hola Hola-leikhópurinn flytur verkið Kólumbus í Norðurhöfum á íslensku.
Leikritið Kólumbus í Norðurhöfum, sem sýnt verður í Borgarbókasafninu Gerðubergi kl. 15 á morgun, sunnudaginn 20. nóvember, er verkefni á vegum Hola - félags spænskumælandi á Íslandi.

Leikritið Kólumbus í Norðurhöfum, sem sýnt verður í Borgarbókasafninu Gerðubergi kl. 15 á morgun, sunnudaginn 20. nóvember, er verkefni á vegum Hola - félags spænskumælandi á Íslandi. Leikritið fjallar um Kristófer Kólumbus og félaga hans, sem ætla að sigla til Indlands en fara óvart í norður og enda á Íslandi. Þar hitta þau innfædda og kynnast meðal annars sérkennilegri matarmenningu þeirra.

Markmið verkefnisins er að efla samfélag spænskumælandi fólks á Íslandi og að finna fjölbreyttar leiðir til að læra íslensku. Leikritið er flutt á íslensku. Félagið hlaut styrk frá Reykjavíkurborg til þess að vinna fjölmenningarlega leiksýningu og fékk til liðs við sig Ólaf Guðmundsson, leikara og leikstjóra, til að halda utan um verkefnið ásamt formanninum Maríu Sastre.

Síðastliðið vor var haldið leiklistarnámskeið með spænskumælandi fólki á Íslandi, sem Ólafur stýrði. Á námskeiðinu var hristur saman leikhópur sem síðan vann að hugmyndum og efni fyrir leiksýninguna. Ólafur tók að sér að halda hugmyndum hópsins saman og skrifa stutt verk sem hópurinn æfði síðan. Hópurinn fékk svo til liðs við sig Múltíkúltíkórinn til sjá um söngatriði í sýningunni, undir stjórn Margrétar Pálsdóttur. Kórinn hefur æft lög sem tengjast efni sýningarinnar og mun taka fullan þátt í henni.

Leikritið var frumflutt sl. föstudag á ráðstefnu Móðurmáls, samtaka um tvítyngi.