Hagnaður Reita á þriðja ársfjórðungi nam 757 milljónum króna, að því er fram kemur í afkomutilkynningu Reita til Kauphallar. Er hagnaðurinn aðeins þriðjungur þess sem hann var á sama tímabili í fyrra, en þá nam hann 2.312 milljónum.

Hagnaður Reita á þriðja ársfjórðungi nam 757 milljónum króna, að því er fram kemur í afkomutilkynningu Reita til Kauphallar. Er hagnaðurinn aðeins þriðjungur þess sem hann var á sama tímabili í fyrra, en þá nam hann 2.312 milljónum.

Mestu ræður um þennan mun að svonefnd matsbreyting fjárfestingareigna, sem er breyting á verðmæti fasteigna félagsins, var neikvæð um 68 milljónir á fjórðungnum en var jákvæð um rúmlega 2,3 milljarða á sama tíma í fyrra.

Leigutekjur voru 2,6 milljarðar króna í þriðja ársfjórðung en voru 2,3 milljarðar í sama fjórðungi fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu var liðlega 1,8 milljarðar en var tæplega 1,7 milljarðar í fyrra.

Á fyrstu 9 mánuðum ársins var hagnaður Reita 1,5 milljarðar króna en hann var 5,2 milljarðar á sama tíma í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu var hins vegar 5,2 milljarðar á tímabilinu en var 4,6 milljarðar fyrstu 9 mánuðina í fyrra.

Eignir Reita hafa vaxið nokkuð frá fyrra ári. Þannig nema fjárfestingareignir 128 milljörðum en voru 111 milljarðar um síðastliðin áramót. Skuldir félagsins hafa einnig aukist, voru 87 milljarðar í lok tímabils en námu 66 milljörðum um áramót.

Eigið fé Reita var í septemberlok 45,2 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 34,3%. jonth@mbl.is