Höfuðstöðvar Glitnis Fjöldi dómsmála hefur verið höfðaður gegn fyrrverandi stjórnendum Glitnis banka vegna aðgerða þeirra áður en bankinn féll.
Höfuðstöðvar Glitnis Fjöldi dómsmála hefur verið höfðaður gegn fyrrverandi stjórnendum Glitnis banka vegna aðgerða þeirra áður en bankinn féll. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Ólík mál og fjöldi félaga tengdist í gegnum Glitni banka • Nokkur mál hafa þann samnefnara að verið var að halda uppi verði á hlutabréfum bankans • Eignarhaldsfélagið Gnúpur var ekki sett í gjaldþrot þrátt fyrir milljarða skuldir •...

• Ólík mál og fjöldi félaga tengdist í gegnum Glitni banka • Nokkur mál hafa þann samnefnara að verið var að halda uppi verði á hlutabréfum bankans • Eignarhaldsfélagið Gnúpur var ekki sett í gjaldþrot þrátt fyrir milljarða skuldir • Hluthöfum félagsins bannað að afsala sér hlutafé

Fréttaskýring

Þorsteinn Ásgrímsson

thorsteinn@mbl.is

Þrátt fyrir að skulda yfir 13 milljarða og eiga aðeins eina milljón hefur fjárfestingafélagið Gnúpur ekki enn verið lýst gjaldþrota í þau tæplega níu ár síðan félagið fór í gegnum það sem kallað var fjárhagsleg endurskipulagning í janúar 2008. Við þá vinnu samþykktu helstu stjórnendur félagsins að gangast í 1,6 milljarða ábyrgð fyrir félagið, sem þó var vitað að væri ógjaldfært með öllu, en stjórnendum ber ekki að ábyrgjast persónulega skuldir einkahlutafélaga. Síðan þá hefur verið hljótt um félagið en það þó nokkrum sinnum skotið upp kollinum í tengslum við dómsmál sem kennd eru við hrunið, meðal annars Stím-, BK-44- og Aurum-málinu. Öll eiga þau það sameiginlegt að tengjast Glitni banka. Morgunblaðið skoðar hér þessar tengingar ólíkra mála sem hafa fljótt á litið sameiginlegan skurðpunkt í Glitni, en hafa talsvert meiri tengingar þegar þau eru skoðuð nánar.

Flaug hátt en brotlenti fljótt

Félagið Gnúpur var stofnað árið 2006 og var eitt af stærri eignarhaldsfélögum landsins á sínum tíma, en það var meðal stærstu hluthafa í Kaupþing banka og FL group (og þar með Glitni banka), auk þess að eiga bréf í Bakkavör og beint í Glitni. Í lok árs 2006 námu eignir félagsins um 57 milljörðum króna.

Það voru viðskiptafélagarnir Magnús Kristinsson og Kristinn Björnsson sem stóðu á bak við félagið ásamt Þórði Má Jóhannessyni, sem var forstjóri þess. Átti Magnús ásamt eiginkonu sinni og Birki Kristinssyni, bróður sínum, 46,5% í Gnúpi og Kristinn ásamt fjölskyldu sinni 46,4%. Þá átti Þórður 7,1%.

Gnúpur var strax komið í alvarleg vandamál í lok árs 2007 vegna lækkunar hlutabréfaverðs á íslenska markaðinum og mikillar skuldsetningar. Í desember seldi félagið alla hluti sína í Kaupþingi til eignarhaldsfélagsins Giftar, sem fékk til þess 20 milljarða lán hjá Kaupþingi, til að bæta lausafjárstöðu sína. Það dugði þó ekki til á móti lækkandi hlutabréfaverði hér á landi og í janúar var gert samkomulag milli lánardrottna Gnúps og stjórnenda þess varðandi afdrif félagsins.

Mátti ekki fara í gjaldþrot

Í þessu samkomulagi, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, er gengið að öllum tryggingum Gnúps, öllum skipta- og gjaldmiðlasamningum félagsins lokað, reiðufé notað til innágreiðslu á skuldum, en aðrar skuldir felldar niður. Félagið hafði samtals tapað 11,8 milljörðum árið áður og var uppsafnað óinnleyst tap 26,1 milljarður. Þá er það margoft ítrekað í samkomulaginu að aðilar þess megi ekki fara fram á gjaldþrot á því, „þrátt fyrir að eiginfjárstaða félagsins sé eða verði neikvæð“.

Eins og ljóst má vera þegar samningar sem þessir eru gerðir stendur félagið illa þegar þarna er komið sögu og er í raun ógjaldfært. Þrátt fyrir það er að finna í samkomulaginu klausu um ábyrgð stjórnenda og eigenda félagsins. „Jafnframt ábyrgjast Kristinn Björnsson, Magnús Kristinsson og Þórður Már Jóhannesson gagnvart Glitni að til staðar í félaginu séu eignir sem eru að verðmæti að minnsta kosti 1.600.000.000 kr.“ Ábyrgð Þórðar er þó sögð hlutfallsleg miðað við eignarhlut hans í félaginu, en ábyrgð hinna er in solidum. Þá er tekið fram að Landsbankinn og Glitnir muni falla frá mögulegum skaðabótum á hendur stjórnendum félagsins.

Einnig er tekið fram að hluthafarnir megi ekki afsala sér hlutafé í félaginu. Á þessum tíma var Gnúpur stór hluthafi í FL Group sem var svo stærsti einstaki eigandi Glitnis. Með gjaldþroti hefði því fjöldi bréfa í FL Group getað farið á markað, en samkvæmt grunnreglum hagfræði veldur mikið framboð því jafnan að verð tekur að lækka. Glitnir hafði þó öll yfirráð yfir félaginu og stýrði því eftir endurskipulagninguna.

Með því að banna hluthöfunum að afsala sér hlutafénu, en um leið banna gjaldþrot félagsins komst Glitnir því hjá því að mikill fjöldi bréfa í öðru stóru eignarhaldsfélagi, FL Group færi á markað sem hefði getað valdið snjóboltaáhrifum á markaðinum. Eða eins og segir í rannsóknarskýrslu Alþingis: „Ef bankarnir gengju að félaginu [Gnúpi] og seldu eignir þess fyrir skuldum þýddi það að hlutabréf bankanna og FL Group lækkuðu verulega í verði.“

Þá stjórnaði Glitnir þessum eignarhlut þrátt fyrir að í pappírum væri hann enn skráður á fyrri hluthafa sem ekkert gátu gert til að stjórna félaginu. Þetta getur til dæmis skipt máli þegar um háar lánveitingar til tengdra aðila er að ræða, sem varð niðurstaðan með Gnúp og Glitni.

Dótturfélagið Stapi stofnað

Í framhaldi af samningnum var svo dótturfélagið Stapi stofnað og þangað fluttar verðlausar eignir Gnúps og skuldbindingar tengdar þeim eignum. Um er að ræða eignir Gnúps í Mosaic Fashion og Landic Property ásamt skuld upp á á annan tug milljarða. Stærsti hluthafi í báðum félögum var fjárfestingafélagið Baugur. Fjárfestingafélagið Fons hafði selt bréf sín í Landic fyrir um 10 milljarða til Glitnis sem svo fóru áfram í Stapa.

Í rannsóknarskýrslu Alþingis kom fram að skuldir Stapa hafi verið 17 milljarðar, en við uppgjör búsins árið 2013 kom fram að skuldirnar væru 30 milljarðar. Engar eignir fundust upp í skuldirnar, en Mosaic hafði farið í gjaldþrot 2009 og aðeins 1,27% fengist upp í kröfur félagsins. Farið var fram á gjaldþrot Landic árið 2009, en þá skuldaði félagið 120 milljarða. Einhverjar eignir eru þó í því félagi.

Reynt að girða fyrir verðlækkun

Í nóvember árið 2007, þegar óveðurskýin voru byrjuð að hlaðast upp í kringum Gnúp hófust önnur viðskipti sem hafa fengið mikla umfjöllun eftir hrun, Stím-viðskiptin svokölluð. Þar lánaði Glitnir 20 milljarða sem enduðu hjá félaginu Stím sem keypti stóra hluti í bæði Glitni og FL Group. Reyndar lánaði einnig félagið Fons, í gegnum dótturfélag sitt FS38, talsverðar upphæðir í þau viðskipti.

Þennan sama mánuð keypti Glitnir hlutabréf í bankanum sjálfum af Gnúpi og seldi þau áfram til Birkis Kristinssonar, en eins og fyrr segir er hann bróðir Magnúsar, sem var annar aðaleigandi Gnúps á þessum tíma. Þessi viðskipti eru grunnurinn í BK-44-málinu svokallaða, en Birkir var sakfelldur fyrir sinn hluta málsins í Hæstarétti.

Eins og fram hefur komið í dómum í Stím- og BK-44-málinu misnotuðu starfsmenn bankans aðstöðu sína til lánveitinga í málunum. Í bæði skiptin lánaði bankinn einkahlutafélögum til stórra kaupa í bankanum sjálfum og kom þannig í veg fyrir að bréfin færu á markað og orsökuðu þannig verðlækkun, ekki ósvipað og í tilviki Gnúps. Munurinn þar á er þó að í tilfelli Gnúps átti félagið í Glitni fyrir. Tilgangurinn virðist þó alltaf vera að halda við verði bréfa Glitnis og FL Group sem var stærsti eigandi í Glitni, auk þess að losa fyrrnefnd bréf af veltubók Glitnis.

Vildu selja Aurum til tveggja stórskuldugra félaga

Milli Gnúps annars vegar og Stíms hins vegar er svo tenging yfir í þriðja málið, en það er nú til meðferðar dómara eftir aðalmeðferð í síðasta mánuði. Það er Aurum-málið svokallaða. Í því máli er deilt um lánveitingar Glitnis til félagsins FS38 til kaupa á bréfum í skartgripakeðjunni Aurum. Bréfin voru í eigu móðurfélags FS38, Fons. Auk þess fóru 2 milljarðar til Pálma Haraldssonar, eiganda Fons, og þaðan einn milljarður áfram á persónulegan reikning Jóns Ásgeirs Jóhannessonar fjárfestis sem með því greiddi upp yfirdrátt sinn við bankann.

Aurum-viðskiptin og aðdragandi þeirra áttu sér stað yfir stóran hluta ársins 2008, en um mitt ár kom það þó tvisvar til umræðu innan Glitnis að notast við annaðhvort Gnúp eða dótturfélagið Stapa til að kaupa Aurum-bréfin af Fons. Á þessum tíma voru bæði Gnúpur og Stapi stórskuldug og Gnúpur nýbúinn að fara í gegnum þvottavélina eftir að hafa verið ógjaldfært. Var eigið fé félagsins mjög neikvætt. Það vekur því spurningar um hvernig það hafi komið til að starfsmenn Baugs og Glitnis hafi talið það raunhæft að lána slíkum félögum milljarða til að fara í áhættusöm hlutabréfaviðskipti. Bæði Magnús og Þórður Már sögðu í samtali við Morgunblaðið að öll stjórn Stapa og Gnúps á þessum tíma hafi verið á hendi Glitnis.

Stím og Aurum tengd saman og ruslakistan Gnúpur

Á þessum tímapunkti hafði Glitnir komið Stapa yfir í eigu bókasalans Tómasar Hermannssonar. Samkvæmt frétt Vísis frá árinu 2010 virðist hann þó hafa gert sér grein fyrir því að í félaginu væru verðlitlar eða verðlausar eignir en skuldir sem voru í árslok 2008 17 milljarðar. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2008 er Gnúpur aftur á móti enn þarna skráður á fyrri eigendur, þótt félagið væri undir stjórn Glitnis.

Við aðalmeðferð Aurum-málsins voru svo sýndir póstar meðal annars frá Pálma í Fons til Jóns Ásgeirs og Lárusar Welding, bankastjóra Glitnis, þar sem Pálmi sagði ósanngjarnt að hann tæki einn á sig „FS38 ævintýrið“ og vísar þar væntanlega til um tveggja milljarða taps sem hann varð fyrir af Stím-viðskiptunum. Í öðrum pósti segir Jón Ásgeir við samstarfsmann sinn að með Aurum-málinu sé mál Pálma leyst án þess að hann tapi, en 2,2 milljarðar áttu að renna til hans. Spurði saksóknari sérstaklega hvort þarna væri tenging milli Stím- og Aurum-málsins, en Jón Ásgeir sagðist ekki þekkja það.

Það er þó ekki bara Gnúpur og Glitnir sem tengja saman þessi fyrrgreindu mál, því Gnúpur virðist stundum eiga að enda sem eins konar ruslakista fyrir bréf sem voru í eigu Fons. Þannig fóru Landic bréf Fons inn í félagið og horft var til þess að koma Aurum-bréfunum þangað. Samkvæmt gögnum Aurum-málsins virðist Jón Ásgeir hafa verið talsvert viðriðinn málefni Fons og fékk meðal annars senda tryggingarstöðu félagsins frá Glitni, jafnvel þótt Pálmi hefði sagt fyrir dómi að það hefði ekki verið að sinni beiðni.

Jón Ásgeir sem skuggastjórnandi

Í Aurum-málinu er Jón Ásgeir ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum og þótt þetta sé eina málið sem hann er ákærður í af héraðssaksóknara kemur hann til tals í öðrum málum eins og Stím-málinu. Meðal annars virðist hann ganga nokkuð hart eftir því að það mál gangi í gegn, en starfsmaður Glitnis sagði í símtali sem lagt var fyrir dómstóla að Jón Ásgeir væri „á djöflamergnum“.

Þá er minnst á afskipti Jóns Ásgeirs af ákvörðunum Glitnis gagnvart félögum sem hann átti hlut í í rannsóknarskýrslu Alþingis. Þar eru rifjuð upp samskipti milli hans og framkvæmdastjóra Glitnis eftir að Glitnir ákveður að senda Landic Property bréf um aðgerðir bankans vegna slæmrar stöðu Landic.

Svar kom fyrir hönd Landic frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni sem hófst á orðunum: „Sæll Magnús. Sem aðaleigandi Stoða sem er stærsti hluthafi í Glitni langar mig að vita hvernig svona bréf á að þjóna hagsmunum bankans.“

Í tölvubréfinu setti Jón Ásgeir fram nokkrar spurningar um málið til Magnúsar. Sú síðasta var eftirfarandi „Gera stjórnendur sér grein fyrir því að Stoðir aðaleigandi Landic er jafnframt með leyfi FME að fara með ráðandi eignarhlut í Glitni hvernig heldur að þetta bréf líti út frá því sjónarmiði?“

Ekki er annað að sjá en að Jón Ásgeir hafi talið sig bæran um að koma fram bæði af hálfu stjórnar FL og Baugs. Í því ljósi verður ekki annað séð en félögin hafi verið tengd í þeirri merkingu sem hér er miðað við. Bréfið ber einnig vitni því umboði sem fulltrúar stærstu hluthafa bankans, sem ekki sátu í bankaráði, töldu sig hafa til að hlutast til um daglegan rekstur bankans.

Um þetta er meðal annars deilt í Aurum-málinu, þ.e. hvort Jón Ásgeir hafi verið einskonar skuggastjórnandi, sem stærsti eigandi FL group í gegnum Baug og þar með stærsti einstaki eigandi Glitnis. Nefndi verjandi Jóns Ásgeirs það meðal annars í málflutningsræðu sinni:

„Því er mótmælt. En líka bent á að það er ekki refsivert að vera það sem kallað er skuggastjórnandi á Íslandi.“