Íþróttamaður ársins 1991 Ragnheiður Runólfsdóttir með bikarinn.
Íþróttamaður ársins 1991 Ragnheiður Runólfsdóttir með bikarinn. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnheiður Runólfsdóttir fæddist á Akranesi 19. nóvember 1966. Hún ólst þar upp í Krókatúninu sem er gata sem liggur við Krókalónið. „Útsýnið er magnað yfir sjóinn út á Snæfellsnes.

Ragnheiður Runólfsdóttir fæddist á Akranesi 19. nóvember 1966. Hún ólst þar upp í Krókatúninu sem er gata sem liggur við Krókalónið.

„Útsýnið er magnað yfir sjóinn út á Snæfellsnes. Jökullinn gaf okkur fagurt sólarlag og útsýnið var eins og málverk. Leiksvæðið hjá okkur krökkunum var fjaran og klettarnir. Mikill krakkaskari var í hverfinu og þess vegna mikið brasað og brallað. Ég átti áhyggjulaus og hamingjurík æskuár á Skaganum með vinum og vandamönnum.

Íþróttir áttu hug minn allan og stundaði ég þær flestar sem voru í boði á Akranesi. Síðan á sumrin fór ég í íþróttaskóla hjá Sigga á Leirá og ég fékk líka að fara aðeins í sveitina á Kalastaði í Hvalfjarðarsveit. Sumarstörfin voru að sjálfsögðu í frystihúsinu hjá Haraldi Böðvarssyni og síðar í Sementsverksmiðju ríkisins og að passa börn að sjálfsögðu.

Ég gekk í Barnaskóla Akraness sem nú heitir Brekkubæjarskóli. Síðar fór ég til Svíþjóðar og var þar í menntaskóla. Tók próf þaðan ásamt þess að æfa sund af fullum krafti.

Ég kom heim til að æfa fyrir Ólympíuleikana 1988 og æfði þá suður með sjó og kláraði einnig stúdentspróf hérna heima frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Eftir það lá leiðin til Bandaríkjanna þar sem ég æfði sund ásamt því að vera í námi. Kláraði námið í íþróttalífeðlisfræði við Háskólann í Alabama sama ár og Ólympíuleikarnir í Barcelona voru, 1992. Mér fannst það góður tímapunktur til að ljúka ferlinum í sundinu og fara að lifa venjulegu lífi.“

Ragnheiður varð önnur konan til að hljóta sæmdarheitið íþróttamaður ársins árið 1991. Hún var í fremstu röð íslenskra sundkvenna í um áratug. Á Ólympíuleikunum í Seúl 1988 náði hún meðal annars 23. sæti í 100 m bringusundi, sem var þá besta sæti sem íslenskur sundmaður hafði náð á Ólympíuleikum. Hún náði fimmta sæti í 100 m bringusundi á Evrópumeistaramótinu innanhúss á Spáni árið 1989 og varð sjöunda í 100 m bringusundi á EM í Aþenu 1991 og níunda í 200 m bringusundi. Hún komst ekki í úrslit á Ólympíuleikunum í Barcelona eins og hún hafði stefnt að.

„Árangur í sundinu var ágætur og Íslandsmetin voru nokkur hundruð. Ég var valin íþróttamaður Akraness í nokkuð mörg skipti og stærsti titillinn hér á Íslandi kom 1991 þegar ég var valin íþróttamaður ársins. Það var mikill heiður.

Eftir Ólympíuleikana 1992 byrjaði ég að þjálfa ásamt því að kenna um haustið. Ég hef verið að gera það meira og minna síðan þá. Ég vann einnig við útgerðina hjá foreldrum mínum. Sundið hefur alltaf verið mér mikilvægt og starfa ég núna sem yfirþjálfari hjá Óðni á Akureyri.

Krakkarnir hafa allir æft sund og þau tvö eldri hafa einnig verið að kenna og þjálfa með mér. Sá elsti hefur einnig starfað hjá sundfélaginu Ægi eftir að hann byrjaði í háskólanum í Reykjavík.

Áhugamál eru enn tengd íþróttum. Ég hef unun af því að stunda allar íþróttir. Eftir að ég flutti hingað norður á Akureyri þá hef ég getað stundað skíðin mikið. Fjöllin hérna eru rétt við bæjarmörkin svo að þau eru nýtt vel. Hjólreiðar eru stundaðar og blak.“

Fjölskylda

Börn Ragnheiðar eru Birgir Viktor, f. 17.10. 1994, nemi í HR; Anna Sara, f. 11.10. 2001, og Sigurjóna, f. 22.5. 2003.

Systkini Ragnheiðar eru Gísli Runólfsson, f. 31.8. 1958, skipstjóri og hestamaður; Sigurveig Runólfsdóttir, f. 9.9. 1959, sjúkraliði; Sigurjón Runólfsson, f. 1.9. 1961, stýrimaður; Runólfur Runólfsson, f. 30.6. 1964, skipstjóri. Þau eru öll bús. á Akranesi.

Foreldrar Ragnheiðar voru Runólfur Óttar Hallfreðsson f. 26.3. 1931, d. 30.8. 2003, skipstjóri og útgerðarmaður á Akranesi, og k.h. Ragnheiður Gísladóttir, f. 15.11. 1935, d. 3.3. 2016, útgerðarkona. Þau bjuggu lengst af á Krókatúni á Akranesi.