Hvalur Ferðamenn njóta hvalaskoðunar.
Hvalur Ferðamenn njóta hvalaskoðunar. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
„Við höfum notið góðs af góðu tíðarfari í haust og náð að sigla flesta daga,“ segir Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar á Húsavík.

„Við höfum notið góðs af góðu tíðarfari í haust og náð að sigla flesta daga,“ segir Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar á Húsavík. Þótt ekki sé komið fullt vetrarríki á Húsavík var ekki nógu gott í sjóinn í gær og fyrradag til þess að ferðafólk gæti notið hvalaskoðunar.

Eftir frekar erfiðan september hefur verið mjög góð tíð til náttúruskoðunar á sjó á Skjálfanda. Varla hefur fallið úr ferð, að sögn Guðbjarts, en fyrirtækið er með eina ferð á dag yfir vetrarmánuðina, til næstu mánaðamóta. Nóg hefur verið af hval til að sýna, að sögn framkvæmdastjórans, hnúfubakar hafa haldið sig í flóanum. Vegna birtuskilyrða verður ekki boðið upp á hvalaskoðun í desember en þráðurinn tekinn upp að nýju í byrjun janúar. Þá verða kvöldferðir þar sem stílað er inn á norðurljósaskoðun.

Ferðamannatíminn lengist stöðugt og segir Guðbjartur að ferðafólk komi til Húsavíkur allan veturinn. Eru það bæði ferðamenn sem hafa pantað fyrir fram og fólk sem er á eigin vegum og leitar eftir þjónustu á staðnum. „Þeir sækja í íslenskt veður og líkar ekkert illa þótt það sé slydda eða snjókoma,“ segir hann. helgi@mbl.is