Atvinna Erlendir starfsmenn vinna margvísleg störf hérlendis.
Atvinna Erlendir starfsmenn vinna margvísleg störf hérlendis. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Atvinnuástandið versnar yfirleitt í nóvember vegna árstíðabundinna áhrifa.

Atvinnuástandið versnar yfirleitt í nóvember vegna árstíðabundinna áhrifa. Helgi Eysteinsson, framkvæmdastjóri starfsmannaþjónustunnar Elju, segist finna fyrir þessu en á móti komi að leitað sé í auknum mæli eftir erlendum starfskröftum til lengri tíma í störf sem ekki eru bundin árstíðasveiflum.

Á vef Vinnumálastofnunar kemur fram að alls voru 772 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok október. Þar af voru 114 síðast starfandi í gistinga- og veitingastarfsemi, 108 í ýmissi sérhæfðri þjónustu og 94 í verslunargreinum.

Helgi segir að á þessum tíma sé til dæmis minna að gera í ferðaþjónustunni en á nýliðnum mánuðum, samdráttur sé í störfum sem tengist bílum, eins og til dæmis í akstri og bílaþrifum, og í byggingargeiranum. Flestir starfsmenn á vegum Elju koma frá Litháen og Póllandi en þar á eftir eru Ungverjaland, Rúmenía og Búlgaría. Helgi segir að meirihlutinn komi í afmörkuð verkefni og algengt sé að menn vinni hérlendis í sex til níu mánuði í senn, fari síðan í frí og komi svo gjarnan aftur.

Í fyrra voru tæplega 18.000 erlendir ríkisborgarar í vinnu á Íslandi. Í október sl. voru tæplega 1.000 virkir starfsmenn skráðir hjá starfsmannaleigum, samkvæmt upplýsingum á vef Vinnumálastofnunar.