[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson Sigurður Bogi Sævarsson „Öll orka okkar og tími fer í þetta mál.

Ómar Friðriksson

Sigurður Bogi Sævarsson

„Öll orka okkar og tími fer í þetta mál. Það er algjört forgangsverkefni hjá okkur að reyna að leysa það,“ sagði Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, fyrir sáttafundinn með samninganefnd grunnskólakennara sem hófst kl. 13 í gær hjá Ríkissáttasemjara.

Fundað er stíft í kjaradeilunni þessa dagana, bæði við samningaborðið og í vinnuhópum í sitt hvoru lagi.

Inga Rún sagði það öllu máli skipta að menn töluðu vel saman og færu vel ofan í málin. ,,Allir eru að leggja sig fram um að finna lausnir. Þá er von til að það beri einhvern árangur á endanum,“ segir hún.

Samningsstaðan er mjög þröng. Grunnskólakennarar hafa í tvígang fellt gerða samninga; í júní og september. Mjög mikill óróleiki er meðal kennara vegna launakjaranna og mjög ákveðnar kröfur gerðar um tafarlausa hækkun grunnlauna til jafns við aðra hópa með sambærilega menntun og ábyrgð.

Samningurinn sem var felldur í september gerði m.a. ráð fyrir 3,5% launahækkunum frá 1. ágúst, 3% hækkun á næsta ári og 3% á því þarnæsta. Og kveðið var á um eingreiðslu upp á 35.000 krónur í upphafi samningsins og aðra 52 þúsund kr. greiðslu við lok samningstíma.

Bundin af launaramma Salek

Kennarar eru ekki aðilar að Salek-rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins, sem setur launahækkunum ákveðnar skorður til ársloka 2018. Sveitarfélögin eru það hins vegar og sögðu talsmenn þeirra í september þegar kennarasamningur var felldur öðru sinni að samninganefnd sveitarfélaganna hefði teygt sig eins langt og hægt væri í að koma til móts við kröfur kennara og hann hefði reynt mjög á þolmörk sveitarfélaganna. Erfitt væri að bæta enn frekar í.

Spurð hvort þetta hefði eitthvað breyst sagði Inga Rún að þetta væri sá rammi sem sveitarfélögunum væri settur. ,,Við erum bundin af því. Þetta er flókin staða,“ sagði hún.

Samið var um verulegar kauphækkanir í prósentum talið í samningum grunnskólakennara 2014 en þar var þó ekki nema að hluta til um hreinar kauphækkanir að ræða. Á móti gáfu kennarar ýmislegt eftir og samið var sérstaklega um innleiðingu vinnumats.

Í útreikningum á meðaldagvinnulaunum kennara í Reykjavík og á Akureyri sem birtust í fréttabréfi FG í fyrra, þegar ár var liðið af samningstímanum, kom fram að meðaldagvinnulaunin væru um 366.000 kr. fyrir gildistöku samnings sem gerður var 2014 en hefðu tekið breytingum sem næmu 29% í maí 2015 og voru komin í um 472.000 á mánuði. Þau hefðu svo hækkað um 10 þús. kr. þegar samningarnir runnu út í lok maí sl.

Skýrsla heildarsamtaka vinnumarkaðarins um launaþróun launþegahópa sem kom út í sumar leiddi í ljós að regluleg laun félagsmanna í Kennarasambandi Íslands sem starfa hjá sveitarfélögunum voru að meðaltali 460 þúsund á mánuði í nóvember í fyrra og heildarlaunin 484 þúsund. Laun 55% kennaranna voru undir þessu meðaltali.

Ekki hafa orðið aðrar launahækkanir skv. samningum grunnskólakennara síðan þá nema 2% hækkun í janúar á þessu ári. Þessar tölur ættu því að endurspegla launin að nokkru eins og þau eru í dag. Athugun á launadreifingu allra launþegahópa sýndi að regluleg laun voru að meðaltali nær 20% hærri hjá ríkinu en sveitarfélögum og regluleg heildarlaun um 30% hærri.

Skref fyrir skref

„Samningaviðræðurnar nú eru verkefni sem fólk tekur skref fyrir skref,“ sagði Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. Eins og fram hefur komið eru launamál og vinnutími stóru ágreiningsefnin í deilunni nú – og ýmsar tölur og staðreyndir eru þar í deiglunni. Sagði Ólafur að nú um helgina ætluðu fulltrúar samningsaðila, hvor í sinnum ranni, að fara yfir þær upplýsingar sem fyrir lægju og vinna úr þeim. Afrakstur helgarvinnunnar yrði veganesti inn á næsta samningafund hjá Ríkissáttasemjara, sem yrði á mánudagsmorgun.