Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson
Eftir Guðmund Karl Jónsson: "Allir þingmenn Norðvesturkjördæmis vita vel að sjúkraflugvél staðsett á Ísafjarðarflugvelli er öryggistæki."

Fyrir meira en fjórum áratugum var stofnað vestur í Bolungarvík Flugfélagið Ernir, sem sinnti öllu póstflugi, farþega- og sjúkraflugi frá Ísafjarðarflugvelli, í tæp 26 ár og bjargaði mörgum mannslífum við erfiðar aðstæður á Norðvestursvæðinu. Allt frá árinu 1970 stundaði félagið sjúkraflug fyrir Vestfirði og jafnvel fleiri landshluta, þegar það kom illa slösuðum og veikum sjúklingum undir læknishendur. Á milli byggðanna norðan Hrafnseyrarheiðar og Ísafjarðar voru snjómokstrar á Breiðadals- og Botnsheiðum, mjög erfiðir og stundum óframkvæmanlegir þegar vonlaust var að treysta veðurspánum, eins og mörg dæmi voru til um.

Aðsetur sitt hafði Flugfélagið Ernir á Ísafjarðarflugvelli, þegar flugmenn félagsins voru alltaf tilbúnir að sinna öllum neyðartilfellum, sem þoldu enga bið. Í Súgandafirði, Önundarfirði og Dýrafirði gátu sjúklingar sem urðu að komast hið snarasta undir læknishendur verið í hættu, ef ekki var hægt að lenda á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri, vegna hliðarvinds.

Á fyrstu árunum eftir stofnun Ernis viðurkenndu starfandi læknar við Fjórðungssjúkrahúsið, að öruggara væri að hafa vel útbúna sjúkraflugvél staðsetta á Ísafirði, þegar neyðartilfelli kæmu upp sem enn erfiðara hefði orðið að sinna frá Reykjavík og Akureyri, eftir klukkan fimm yfir vetrarmánuðina. Fyrrverandi starfsmenn Flugmálastjórnar á Vestfjörðum sem börðust gegn stofnendum Ernis á Ísafirði, þoldu það mjög illa þegar starfandi læknar við Fjórðungssjúkrahúsið settu traust sitt á þetta heimafélag, sem þjónaði íbúum Norðvestursvæðisins vel í heilan aldarfjórðung. Þessi framkoma segir ekkert að fyrrverandi starfsmenn Flugmálastjórnar á Ísafirði hafi staðið uppi sem sigurvegarar, eftir brotthvarf Flugfélagsins úr fjórðungnum.

Óbreytt ástand í samgöngumálum Vestfjarða réttlætir ekki að hámenntaðir embættismenn geti komið í veg fyrir, að sjúkraflugvél sé staðsett á Ísafjarðarflugvelli sem hefur ekki haft næturflugsheimild, síðan í febrúar 1987. Í stað þess að leggja meiri áherslu bættar samgöngur í formi jarðganga á öllu Norðvestursvæðinu, kusu andstæðingar Ernis á Ísafirði frekar að afskræma allar staðreyndir, í þeim tilgangi að magna upp pólitískan hrepparíg á milli byggðanna. Svona eyðileggja menn öll áform um bættar samgöngur í formi jarðganga, sem gagnast Vestfirðingum. Framkoma Pósts og síma, sem sagði upp samningi um póstflugið við Flugfélagið Erni, undir því yfirskini að búið væri að rjúfa alla vetrareinangrun byggðanna í fjórðungnum, var sem blaut tuska í andlit Vestfirðinga, sem enn búa við erfiðar samgöngur. Gagnvart stofnendum og flugmönnum Flugfélagsins sem brugðust alltaf vel við þegar neyðartilfelli komu upp, með stuttu millibili var þessi framkoma til háborinnar skammar. Þessi vinnubrögð snerust fyrst og fremst um að andstæðingar Ernis gætu séð til þess að flugmönnum félagsins tækist aldrei að flytja póst til heimamanna á sunnanverðum- og norðanverðum fjörðunum, þegar vonlaust var vegna illviðris og snjóþyngsla að halda öllum heiðunum opnum, á milli Vesturbyggðar, Barðastrandar og Ísafjarðar.

Allir þingmenn Norðvesturkjördæmis vita það ósköp vel að sjúkraflugvél staðsett á Ísafjarðarflugvelli er öryggistæki, sem íbúar Norðvestursvæðisins þurfa að treysta á, þegar neyðartilfelli koma upp. Ekki gekk það alveg hávaðalaust þegar byrjað var að tala um gerð vegamótaganga undir Breiðadals- og Botnsheiðar, sem gerbreyttu samgöngunum á svæðinu norðan Hrafnseyrarheiðar. Hjá andstæðingum Flugfélagsins féllu þessar hugmyndir í grýttan jarðveg. Án Vestfjarðaganganna hefðu heimamenn á Norðvestursvæðinu áfram þurft að treysta á Flugfélagið Erni, sem sinnti öllu farþegaflugi, póstflugi- og sjúkraflugi frá Ísafjarðarflugvelli, við erfiðar aðstæður.

Á þessum árum voru til menn fyrir vestan sem höfðu ánægju af því að afskræma allar staðreyndir tengdar sjúkrafluginu, þegar neyðartilfelli komu upp. Allir þingmenn Norðvesturkjördæmis áttu að berjast gegn kröfunni, sem læknar við stóra Fjórðungssjúkrahúsið á norðanverðum Vestfjörðum settu fram 2008, um að engin sjúkraflugvél yrði næstu áratugina á Ísafjarðarflugvelli. Mestu máli skiptir að þeir sem halda þessari kröfu til streitu hugsi frekar um öryggi íbúanna á Norðvestursvæðinu, en ekki gróðasjónarmið.

Höfundur er farandverkamaður.