[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Í dag eru nákvæmlega þrjár vikur síðan Íslendingar gengu að kjörborðinu og kusu nýtt Alþingi.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Í dag eru nákvæmlega þrjár vikur síðan Íslendingar gengu að kjörborðinu og kusu nýtt Alþingi. Enn hefur nýtt þing ekki verið kallað saman enda standa nú yfir stjórnarmyndunarviðræður og óvíst hvaða flokkar muni mynda nýja ríkisstjórn. En aðeins er rúmur mánuður er til jóla og því hefur myndast þrýstingur á að kalla þing saman til að taka fjárlagafrumvarp ársins 2017 til afgreiðslu. Fjárlagafrumvarpið mun vera svo gott sem tilbúið til prentunar en óvíst er á þessari stundu hvort Bjarni Benediktsson leggur frumvarpið fram eða fjármálaráðherra nýrrar ríkisstjórnar.

Í 25. grein laga um þingsköp Alþingis, þ.e. starfsreglur þingsins, segir að fjárlagafrumvarp fyrir næsta fjárlagaár skuli leggja fram á fyrsta fundi haustþings og samkvæmt stjórnarskránni skal í frumvarpinu fólgin greinargerð um tekjur ríkisins og gjöld.

Í þingskapalögunum segir að stefnt skuli að því að 3. umræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár skuli lokið eigi síðar en við lok fyrstu heilu viku desembermánaðar en litlar líkur eru á því að það takist.

Kosning í fastanefndir þingsins gildir allt kjörtímabilið

Á Alþingi starfa átta fastanefndir, að jafnaði skipaðar níu mönnum hver. Ein þessara nefnda er fjárlaganefnd. „Fastanefndir skal kjósa á þingsetningarfundi Alþingis að afloknum alþingiskosningum og gildir kosningin fyrir allt kjörtímabilið,“ segir í þingskapalögunum. Nefndirnar kjósa sér formann og varaformenn á fyrsta fundi hverrar nefndar nefndirnar. Nefnd getur hvenær sem er kosið að nýju formann eða varaformenn ef fyrir liggur beiðni meiri hluta nefndarmanna og fellur þá hin fyrri kosning úr gildi er ný kosning hefur farið fram.

Mikið kapp er lagt á að afgreiða fjárlög hvers árs fyrir áramótin enda segir í 41. grein stjórnarskrárinnar að ekkert gjald megi reiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.

En sú staða getur komið upp að ekki tekst að afgreiða fjárlög fyrir áramót og í nýlegu bloggi sínu rifjar Eiður Guðnason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, upp slíkt tilvik.

Gefum Eiði orðið: „Rétt er að minnast þess að þrjú fjárlagafrumvörp komu fram fyrir fjárlög ársins 1980. Fyrsta frumvarpið lagði Tómas Árnason, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar, fram strax í þingbyrjun. Svo sprakk sú ríkisstjórn og við tók minnihlutastjórn Alþýðuflokksins þar sem Sighvatur Björgvinsson var fjármálaráðherra. Hann lagði fram fjárlagafrumvarp, sem borin von var að yrði samþykkt, en það var skylda hans sem fjármálaráðherra að leggja frumvarpið fram. Þegar sýnt var að það yrði ekki samþykkt fyrir áramót voru samþykkt lög um heimild til fjármálaráðherra til að greiða lögbundnar og samningsbundnar greiðslur úr ríkissjóði um áramót, en ekki mátti stofna til nýrra fjárskuldbindinga. Þetta var samþykkt. Þegar svo ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen var mynduð í byrjun febrúar á árinu 1980 lagði nýr fjármálaráðherra, Ragnar Arnalds, fram þriðja fjárlagafrumvarpið fyrir árið 1980 sem svo var samþykkt. Molaskrifara (Eiður, innskot) er þetta minnisstætt vegna þess að hann lenti í þeirri sérkennilegu stöðu að vera formaður fjárveitinganefndar – sem nú heitir fjárlaganefnd – en í minnihluta – formannskjörið fór fram áður en ríkisstjórn var mynduð. Það gekk allt bærilega, ekki síst vegna góðrar samvinnu við Geir Gunnarssonar, þingmann Alþýðubandalags, sem fór fyrir meirihlutanum. Með honum var einstaklega gott að vinna og lærdómsríkt. Þetta er rifjað hér upp að gefnu tilefni.“