Ágústa Guðmundsdóttir fæddist 5. janúar árið 1937 í Vestmannaeyjum. Hún lést á HSV 3. nóvember 2016.

Foreldrar Ágústu voru einnig frá Vestmannaeyjum, en þau voru Guðmundur Óskar Ólafsson frá Arnardrangi, verslunarmaður og skrifstofustjóri, f. 1914, d. 1981, og Sigríður Haraldsdóttir frá Garðshorni, f. 1916, d. 1993. Fósturfaðir Ágústu var Jón Hlöðver Johnsen frá Suðurgarði í Vestmannaeyjum, f. 1919, d. 1997.

Ágústa, eða Dúddý í Miðbæ, átti sjö yngri systkini sem öll eru á lífi en þau eru, sammæðra, Margrét, f. 1942, Sigríður, f. 1948, Anna Svala, f. 1955, Haraldur Geir, f. 1956, og Svava Björk, f. 1959.

Samfeðra: Sylvía, f. 1946, og Hallgrímur Óskar, f. 1948.

Hinn 3.10. 1959 giftist Ágústa Guðna Pálssyni frá Þingholti, f. 30.9. 1929, d. 18.2. 2005. Foreldrar Þórsteina Jóhannsdóttir, f. 22.1. 1904, d. 23.11. 1991, og Páll Sigurgeir Jónasson, f. 8.10. 1900, d. 31.1. 1951.

Guðni starfrækti kjötvinnslu í Vestmannaeyjum var matsveinn í mötuneyti Vinnslustöðvarinnar, Herjólfi og Vestmannaey. Síðustu ár starfaði hann sem matsveinn á Dvalarheimilinu Hraunbúðum

Börn Guðna og Ágústu eru:

1) Hlöðver Sigurgeir, f. 23.2. 1957, börn hans og Ernu Andreasen, f. 1962, eru Bjarki, f. 1984, unnusta Rakel Gísladóttir, f. 1983. Börn Bjarka og Rakelar eru Nóel. f. 2008. og Máni. f. 2009. Ásta, f. 1991. Sambýliskona Hlöðvers er Ólöf Guðmundsdóttir, f. 1960, dóttir þeirra er Sigríður. f. 1999. Synir Ólafar eru Fannar. f. 1985. og Ísak. f. 1989.

2) Ólafur Óskar, f. 21.5. 1959.

3) Sigríður Ágústa, f. 25.9. 1960, synir hennar eru Viktor Smári, f. 1984, og Ásgeir Emil, f. 1997. 4) Viktor Friðþjófur, f. 6.6. 1965, börn hans og fv. sambýliskonu, Huldu Sumarliðadóttur, f. 1971, eru Guðni Friðþjófur, f. 2003, Halldór Páll, f. 2005, Kristinn Freyr, f. 2007, Tómas Ingi, f. 2009. Sonur Huldu er Róbert Emil, f. 1996.

Fyrstu árin ólst Ágústa upp hjá ömmu sinni og nöfnu í Garðshorni en síðar á Hásteinsvegi 9 og í Saltabergi. Hún dvaldi tíðum hjá föðurömmu og -afa í Arnardrangi, Ólafi Óskari Lárussyni, héraðslækni, f. 1.9. 1884, d. 6.6. 1952, og Sylvíu Níelsínu Guðmundsdóttur, f. 13.8. 1883, d. 22.10. 1957. Ætíð minntist hún þeirra með miklum hlýhug. Ágústa fór í Barnaskóla Vestmannaeyja og síðan í gagnfræðaskólann. Þá lá leiðin til Reykjavíkur þar sem Ágústa lærði kjólasaum. Ágústa starfaði nær alla sína ævi við rekstur ýmiss konar en fyrst starfaði hún í Bæjarbúðinni og síðar í Markaðnum. Árið 1972 hóf hún sinn eigin rekstur með Verslunina Miðbæ með snyrtivörur og fatnað. Verslunin er enn starfandi og var Ágústa með elstu starfandi kaupmönnum í Vestmannaeyjum og varð Verslunin Miðbær 44 ára í nóvember 2016. Ágústa var meðlimur í Verslunarmannafélaginu og var virk í kaupmannasamtökunum hér í Vestmannaeyjum.

Útför Ágústu fer fram frá Landakirkju í Vestmanneyjum í dag, 19. nóvember 2016, kl. 11.

Í dag kveð ég elskulega móður mína. Það er svo margs að minnast þegar maður fer yfir ævi sem er tæp 80 ár. Fyrstu minningarnar mínar eru frá því við bjuggum í Akóges. Síðan á Brimhólabrautinni. Í kringum 1968 er fjölskyldan flutt upp á Búastaðabraut. Þar förum við systkinin að eignast okkar vini og austurbærinn okkar hverfi. Fjölskyldur pabba og mömmu eru stórar og oft var mikill gestagangur heima. Þetta var fyrir tíma snjalltækjanna. Þegar landlegur voru að þá man ég vel eftir að það voru haldin spilakvöld og þá var spiluð vist. Þá var mikið fjör og oft fékk ég að vera með.

Mamma var snillingur í að sauma föt og fór stofugólfið ekki varhluta af því þegar verið var að klippa til efni og snið.

Pabbi og mamma voru alltaf að gera eitthvað skemmtilegt og aldrei leiddist okkur krökkunum. Auðvitað þurfti mamma stundum að stappa niður fótunum og róa krakkaskarann.

Haustið 1972 opnaði mamma Verslunina Miðbæ. Það var alltaf hennar áhugi að vera í verslunarrekstri og átti það vel við hana eins og síðar kom á daginn. Eldgosið truflaði aðeins reksturinn en áfram var haldið eftir að ljóst var að Vestmanneyjar yrðu aftur byggilegar. Það var mikill flækingur á fjölskyldunni þegar eldsumbrotin voru í Eyjum en loks tókst pabba og mömmu að byggja hús á Smáragötu 34. Þá vorum við búin að flytja um níu sinnum á tæpum tveim árum. Stuttu eftir gos keyptu pabbi og mamma Hilmisgötu 2 og svo síðar Miðstræti 14 þar sem verslunin er nú til húsa.

Við mamma áttum vel skap saman og mörg sameiginleg áhugamál. Dulspeki og dulrænir atburðir voru okkar aðaláhugamál. Draumar og fyrirboðar og draumaráðningar var oft okkar aðalumræðuefni við eldhúsborðið á kvöldin ásamt ættfræðinni sem mamma hafði mikinn áhuga á. Minningar tengdar eldhúskróknum á Smáragötu eru þær verðmætustu sem ég hef eignast. Spilakvöldin með Litla spilaferðafélaginu hans Edda Garðars og Svövu Bjarkar eru ógleymanleg. Kaffispjall ættingja og alltaf líf og fjör heima hjá okkur. Allar veiðiferðirnar hjá okkur veiðifélögunum út í Bjarnarey byrjuðu við eldhúsborðið hjá mömmu og þar enduðu þær líka þegar komið var í land. Borðið jafnan hlaðið kræsingum. Alltaf tókst mömmu að galdra fram kræsingar og njósna um komu okkar til Vestmannaeyja. Irish Coffee í stofunni þegar nálgaðist þjóðhátíð og Dúddý mætt í Dalinn. Jólin og jólaandinn á Smáragötunni. Allir vinir mínir og kunningjar elskuðu foreldra mín og urðu vinir þeirra.

Síðustu árin fór heilsan að gefa sig og þá sérstaklega sjónin. Óli bróðir flutti heim og aðstoðaði mömmu mikið í veikindum pabba og sá svo algjörlega um að passa mömmu seinustu árin eftir að pabbi dó. Alltaf hélt þó mamma verslunarrekstrinum áfram og fór í sínar innkaupa- og verslunarferðir til útlanda. Þar á hún marga vini í heildsölunum erlendis.

Við mamma vissum að tími hennar var að nálgast. Erfið veikindi gerðu vart við sig. Hún fór í gegnum þennan tíma af miklu æðruleysi og hugrekki. Guð blessi þig Dimmalimm og nú hittir þú fyrir prinsinn þinn. Ég á góðar, verðmætar minningar og mun ávallt sakna þín.

Hlöðver.

Elsku amma, allar minningarnar sem þú hefur gefið mér eru ólýsanlegar og ég veit að þær munu endast mér til æviloka, þú munt alltaf eiga stað í hjarta mínu. Ég man eftir tilhlökkuninni að koma til þín til Eyja, en ég beið oft spennt vikum saman að fá bananatertuna þína og kíkja síðan í búðina með þér.

Söknuðurinn er svo sannarlega mikill og vil ég enda þetta eins og síðustu orðin okkar voru, sjáumst.

Minning þín er mér ei gleymd,

mína sál þú gladdir.

Innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(KN)

Kveðja,

Sigríður.

Elsku Dúddý amma mín.

Mig langar að skrifa þér nokkur orð og segja hvað mér þótti mjög vænt um þig. Þú ert svo sterk í hjarta mínu og þú ert líka uppáhaldsamma mín. Ég á margar góðar minningar um þig og afa Guðna.

Við áttum marga góða daga saman og þú varst alltaf svo góð við mig. Ég man allar ferðirnar sem ég kom til Vestmannaeyja með pabba og fjölskyldunni minni. Alltaf gistum við hjá þér og afa Guðna á Smáragötunni. Þá voru nú kræsingar á borðum, kökur og rjómi. Ekki skemmdi nú að fá að komast í nudd og freyðibaðið sem var dásamlegt. Þá fékk ég að spila með afa á orgelið og skemmtum við afi okkur vel. Ég man svo vel þegar ég var lítil hvað mér fannst gaman að koma til þín um jólin og vera fram yfir þrettándann og sjá öll tröllin og jólasveinana.

Litla jólaþorpið þitt í stofunni og allar skreytingarnar hjá þér. Koma niður í fallegu búðina þína og skoða allt glingrið og finna ilminn af öllum snyrtivörunum.

Allar gjafirnar sem þú gafst mér. Ég man líka eftir þegar ég fékk að hjálpa þér í búðinni. Það var nú gaman. Þú varst líka alltaf svo góð við Karen systur mína.

Hún kallaði þig alltaf ömmu Dúddý og tók ekki annað í mál en að þú værir líka amma hennar.

Á jólunum var alltaf mesta tilhlökkunin að taka upp gjafirnar frá þér og afa. Á kommóðunni geymi ég nú mynd af þér og afa og kveiki á kertum til að minnast ykkar.

Þegar raunir þjaka mig

þróttur andans dvínar

þegar ég á aðeins þig

einn með sorgir mínar.

Gef mér kærleik, gef mér trú,

gef mér skilning hér og nú.

Ljúfi drottinn lýstu mér,

svo lífsins veg ég finni

láttu ætíð ljós frá þér

ljóma í sálu minni.

(Gísli á Uppsölum.)

Elsku amma mín, ég á eftir að sakna þín mikið en veit að þú ert komin á yndislegan stað og hefur nú hitt afa Guðna aftur. Hvíl í friði, ég elska þig alltaf.

Þín

Ásta.

Elsku amma Dúddý, nú ertu farin frá okkur. Amma Dúddý, eins og við strákarnir köllum þig, þú fórst allt of fljótt frá okkur því við áttum eftir að þakka fyrir síðustu gjafirnar frá þér.

En við þökkum fyrir þann tíma sem við áttum með þér í síðustu sumarbústaðarferðinni í ágúst sl.

Þar spilaðir þú við okkur Rússa, myllu og lúdó og það var mikið gaman. Síðasta árið áttir þú heima hjá okkur eftir að húsið þitt fauk í fyrra og okkur fannst svo gaman að koma inn í herbergið þitt og fá smá súkkulaði og að fara í tölvuna þar sem við vorum að byggja nýtt hús handa þér og þú hjálpaði okkur við það. Elsku amma Dúddý, nú ert þú kominn til afa Guðna og Guð veit að við elskum þig allir upp í geim og alla leið heim.

Guðni, Halldór,

Kristinn og Tómas.

Elsku Dúddý, það er skrýtið að vera í þessum sporum að skrifa minningarorð um þig. Þú varst elst okkar systkinanna og í mínum huga varstu kletturinn sem ekkert beit á og ekkert gat grandað. Þú varst þeirrar gerðar að bíta á jaxlinn og harka af þér frekar en að kvarta og kveina þegar eitthvað bjátaði á. Kannski hafði þessi afstaða þín eitthvað með það að gera að sjúkdómur þinn uppgötvaðist ekki fyrr en allt of seint. Með miklu æðruleysi, tókstu þínu hlutskipti og gekkst síðasta spölinn með aðdáunarverðum innri styrk.

Ég er þakklátur fyrir að hafa átt þig að og fengið að njóta mannkosta þinna. Það var gott að leita til þín og þá varstu líka til staðar fyrir mig þegar á þurfti að halda.

Þótt ekki værir þú langskólagengin var sama hvar borið var niður, alls staðar varstu vel heima.

Ættfræði var ykkur mömmu sérstaklega hugleikin og náði hæstu hæðum. Það var ekki fyrr en komið var út í ættartölu hrúta sem þið mæðgur létuð undan síga.

Að flísaleggja eins og eitt stykki baðherbergi, sníða og sauma einn kjól eða leggja parket, var „Dimmalimm“ eins við kölluðum þig stundum, ekkert tiltökumál. Þá var ekki heldur dónalegt að þiggja hjá ykkur Guðna öll kaffiboðin og matarveislurnar uppi á Smáragötu.

Þá var líf í tuskunum og gaman að vera til og ekki skemmdi fyrir undirbúningurinn fyrir þjóðhátíð.

Húsið fullt af gestum og keppst við að útbúa snittur, marenge, reyktan lunda og allt annað sem til þurfti.

Er Dúddý í „Dalnum“ var spurning sem oft var höfð uppi af þeim sem söknuðu þín þar.

Það má segja að Dúddý hafi alltaf staðið sína plikt og það gerði hún svo sannarlega í ævistarfi sínu, þar sem hún rak verslun sína Miðbæ í 44 ár.

Hún hafði þá trú að eitthvað tæki við að þessari jarðvist lokinni. Eitt er víst að hvert sem hún fer, verður henni tekið fagnandi.

Við sem eftir stöndum og söknum hennar, huggum okkur við góðar og yndislegar minningar.

Far þú í friði, elsku systir.

Haraldur Geir

Hlöðversson.